Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, einn sakborninga í Samherjamálinu í Namibíu, vísar því á bug að hann hafi verið ráðinn til þess að veita Samherja ráðgjöf um kvótamál í landinu sökum þess að hann er giftur dóttur Bernhards Esau, sem áður var sjávarútvegsráðherra landsins.
Þetta kom fram í máli Hatuikulipi fyrir dómi í Windhoek í Namibíu í gær, en þar héldu áfram réttarhöld sem snúast um beiðni hans um að verða látinn laus úr fangelsi gegn tryggingu, eftir um fimm vikna langt hlé.
Hatuikulipi hefur ásamt nokkrum öðrum sakborningum í málinu setið í gæsluvarðhaldi allt frá því undir lok nóvembermánaðar árið 2019.
Samkvæmt frétt miðilsins Namibian hafnaði Hatuikulipi því að hafa fengið tengdaföður sinn Esau til þess að útvega Samherja aflaheimildum í landinu og hafnaði því sömuleiðis að hafa rætt innreið Samherja í namibískan sjávarútveg við tengdamóður sína eða eiginkonu. Þær hefðu ekkert komið nálægt störfum hans.
Fulltrúi ákæruvaldsins dró það hins vegar mjög í efa fyrir dómnum að nokkuð annað en fjölskyldutengsl við sjávarútvegsráðherrann hefðu ráðið því að Hatuikulipi var fenginn til ráðgjafarstarfa fyrir Samherja.
Raunar sagði saksóknarinn, samkvæmt endursögn miðilsins New Era, að helsta tenging Hatuikulipi við sjávarútveginn, áður en hann giftist dóttur sjávarútvegsráðherrans, hefði verið sú að borða fisk.
Sagði Jóhannes hafa spurt um brúðkaupið að fyrra bragði
Rétt eins og Hatuikulipi kom á framfæri fyrir dómi í júlímánuði sagðist hann í gær fyrst hafa komist í kynni við fulltrúa Samherja á fundi á Hilton-hótelinu í Windhoek í desember árið 2011 og það hefði verið Jóhannes Stefánsson.
Hatuikulipi sagði að á næsta fundi með fulltrúum Samherja, þar sem þeir Aðalsteinn Helgason og Ingvar Júlíusson hefðu einnig verið viðstaddir, hefði Jóhannes svo komið sér á óvart og spurt út í brúðkaup hans og dóttur sjávarútvegsráðherrans, sem fram hafði farið í október 2011.
Einnig sagði hann að Jóhannes hefði óskað eftir því að fá að sjá myndir úr brúðkaupinu og hafnaði því alfarið að hann hefði að sínu eigin frumkvæði kynnt sig sérstaklega fyrir Íslendingunum þremur sem tengdason sjávarútvegsráðherra, eins og saksóknari sagði að Ingvar Júlíusson hefði borið við í skriflegri yfirlýsingu sinni til réttarins vegna dómsmálsins.
Samkvæmt frétt New Era var gert hlé á þinghaldinu í gær eftir að ákæruvaldið bað um heimild til þess að leggja gögn fyrir dóminn, en verjendur Hatuikulipi óskuðu eftir því að fá tíma til þess að ráðfæra sig við skjólstæðing sinn um gögnin. Dómþinginu var því haldið áfram í dag, en frekari fréttir hafa ekki borist í helstu fjölmiðlum Namibíu um framhald vitnisburðarins.