Það sem af er júlí hafa að minnsta kosti 1.059 innanlandssmit greinst. Fjóra daga í röð hafa vel yfir 100 hundrað smit greinst á hverjum sólarhring. Mestur var fjöldinn, miðað við uppfærðar tölur á COVID.is í fyrradag, er 129 manns reyndust smitaðir af veirunni. Aldrei hafa fleiri greinst á einum degi frá upphafi faraldurs.
Að minnsta kosti 255 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi á þremur vikum. Óbólusettir eru fjórðungur allra sem greinst hafa frá 9. júlí. Tæplega 750 smita, um 72 prósent, eru hjá fullbólusettum.
Í gær voru smitin að minnsta kosti 112 en miðað við reynslu síðustu sólarhringa gæti sú tala átt eftir að hækka þar sem tafir hafa verið á greiningu sýna og úrvinnslu upplýsinganna. Yfir 4.300 sýni voru tekin innanlands í gær og var hlutfall jákvæðra einkennasýna tæp 3,4 prósent.
Á einni viku hafa átta greinst með veiruna á landamærunum, þar af sjö óbólusettir.
Þriðjungur nýgreindra óbólusettur
Ef síðustu fjórir sólarhringar eru skoðaðir með tilliti til hvort innanlandssmitin hafi verið hjá bólusettum eða óbólusettum kemur í ljós að hlutfall óbólusettra var hæst í gær, fimmtudag. Af þeim 112 sem að minnsta kosti greindust með COVID-19 voru 35 óbólusettir eða þriðjungur. Á miðvikudag var hlutfall óbólusettra meðal nýgreindra um 27 prósent.
Ein stærsta breytingin sem orðið hefur í bylgjunni sem nú gengur yfir og þeim fyrri er hversu fáir eru í sóttkví við greiningu. Alla daga frá 14. júlí hefur innan við helmingur greindra verið í sóttkví og suma dagana mikill minnihluti. Veiran hefur einnig greinst í öllum landshlutum, þótt smitin séu langfæst á Austurlandi, á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra.
Um 85 prósent Íslendinga sextán ára og eldri eru bólusett. Miðað við íbúafjölda á landinu í byrjun árs eru rétt tæp 70 prósent allra landsmanna bólusett. Það þýðir einnig að um 30 prósent, eða um 114 þúsund manns eru það ekki. Fjölmennasti hópurinn er vitanlega börn enda mæla íslensk sóttvarnayfirvöld enn sem komið er aðeins með bólusetningu 16 ára og eldri. Það kann að breytast á næstunni og líklegt þykir að mælt verði með bólusetningu barna á aldrinum 12-15 ára. Tæplega 10 prósent þess aldurshóps er þegar fullbólusettur.
Flest smitin í þessari fjórðu bylgju faraldursins hafa greinst hjá fólki á aldrinum 18-29 ára. Um 40 prósent allra sem eru í einangrun núna eru á þeim aldri. Að minnsta kosti 105 eru yfir sextugu og 132 börn yngri en sautján ára.
Í gær lágu tíu manns á Landspítalanum með COVID-19 sjúkdóminn. Tveir voru á gjörgæslu, báðir óbólusettir.
Alma Möller landlæknir ítrekaði á upplýsingafundi í gær að rannsóknir sýndu að bólusetning dragi „sem betur fer“ mikið úr veikindum og því „alveg ljóst“ að staðan væri mun alvarlegri ef ekki væri vegna bólusetninga.
„Við erum öll búin að leggja mikið á okkur og árangur hefur verið góður og þess vegna viljum við ekki hætta á neitt og biðjum fólk að fara varlega, virða óvissuna þannig að við missum ekki þennan góða árangur.“
Alma sagði að auðvitað hefðu heilbrigðisyfirvöld þó áhyggjur af stöðunni. Vonir standi til að „línur skýrist“ á næstu dögum eða viku en að við séum enn á þeim stað að meta hversu mikil veikindi þeirra sem eru að sýkjast nú verða. Vonir væru bundnar við að veikindi fólks verði minni en í fyrri bylgju og legutíminn styttri. „Við tökum einn dag í einu,“ sagði hún, og „þangað til stöndum við auðvitað áfram saman, hugsum hvert um annað og reynum að gera það besta úr hlutunum.“