„Ég hef áhyggjur af þessu og hef viðrað þær margoft,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í viðtali í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „Ef að fólk er að hópast mikið saman og er í einni kös á stígunum og við gosstöðvarnar þá er þar augljóslega aukin smithætta.“
Hann hefur rætt við almannavarnir og lögregluna um hvort eitthvað sé hægt að gera í málinu. „Fólk er alveg hreint trítilótt að komast þarna,“ segir hann. „Það er álit yfirvalda á staðnum að það sé nánast vonlaust að stöðva og banna för fólks. Það fari þá bara aðrar leiðir, yfir erfiðari staði. Klöngrist yfir hraunið og gæti lent í öðrum vandræðum. Þannig að af tvennu illu eru menn að reyna að hafa einhverja stjórn á þessu en það er mjög erfitt. En ég deili sannarlega þessum áhyggjum og hef biðlað til fólks að vera ekki að fara þarna þegar það er mikið af fólki og ef það fari að það gæti að öllum grundvallaratriðum.“
Spurður hvort að farsóttarþreyta Íslendinga sé orðin mikil og þeir hættir að hlusta á varnaðarorð sóttvarnalæknis segist Þórólfur telja svo vera. „Ég held að gosið yfirtaki allt. Ég skil það mjög vel. Þetta er algjört sjónarspil.“
En í því að fara að gosinu felist ákveðin áhætta. „Þegar þúsundir manna eru að snerta sama kaðalinn þá minnir það mig illþyrmilega á Austurríki og Ischgl, þar sem allir smituðust á einum bar þar sem voru sameiginlegir snertifletir. Maður myndi helst ekki vilja sjá það gerast aftur.“
Síðustu daga hafa borist fréttir af því að fólk komi til landsins og fari beint á gosstöðvarnar og virði þar af leiðandi ekki sóttkví á milli skimanna.
Þórólfur segir dæmi þegar sýna að fólk sem ekki virði sóttkví hafi komið af stað hópsmiti innanlands. Það þurfi aðeins einn smitaðan einstakling til að koma af stað faraldri. „Allt sem við erum að sjá er afleiðing af því að fólk er ekki að fara eftir leiðbeiningum. Meðvitað eða ómeðvitað.“