Fimmtíu ára og eldri Ástralar munu ekki fá bóluefni Pfizer gegn COVID-19 fyrr en í lok ársins. Stjórnvöld í landinu hafa breytt áherslum í bólusetningarherferð sinni verulega og að auki samþykkt að setja verulegar ferðahömlur á fólk sem er að koma frá Indlandi og mögulega öðrum hááhættulöndum.
Ítarlega er fjallað um þessar breyttu áætlanir í frétt Sydney Morning Herald og þar kemur fram að frá og með mánaðamótum, þegar næsta stig bólusetningarherferðarinnar verði stigið, verði bóluefni frá AstraZeneca fyrsti kostur fyrir fimmtíu ára og eldri og bóluefni Pfizer gefið yngra fólki, fólki í framlínustörfum sem og öldruðum á hjúkrunarheimilum sem enn á eftir að bólusetja.
Mjög harðar aðgerðir hafa verið í Ástralíu frá því faraldurinn braust út og skellt hefur verið staðbundið í lás þar sem smit hafa komið upp. Þeir sem koma til landsins, fyrir utan ferðamenn frá Nýja-Sjálandi sem myndað hefur ferðakúlu með Ástralíu, þurfa að dvelja á sóttkvíarhótelum í tvær vikur. Nú er svo komið að sífellt fleiri sem þar dvelja eru að greinast með COVID-19 og því hefur að sögn forsætisráðherrans Scotts Morrison verið ákveðið að draga verulega úr ferðalögum frá Indlandi, þar sem faraldurinn er í gríðarlegri uppsveiflu, sem og frá nokkrum öðrum löndum þar sem svipað er uppi á teningnum. Þá verða einnig settar ferðahömlur á fólk á hinn veginn, þ.e.a.s. verulega á að draga úr ferðalögum frá Ástralíu til þessara hááhættusvæða.
Nítján smit greindust á sóttkvíarhótelum í gær og var um helmingur þeirra, líkt og síðustu daga, hjá fólki sem var að koma frá Indlandi.
Morrison sagði þetta erfiðar ákvarðanir en að ríkisstjórnin teldi þær nauðsynlegar.
Í byrjun maí hefst næsta stig bólusetningarherferðarinnar í landinu og það verður breytt frá því sem áður stóð til. Enn verður lögð áhersla á að verja framlínustarfsmenn, unga sem aldna, og með bóluefni Pfizer, en aðrir eldri en fimmtugir munu fá bóluefni AstraZeneca utan, líkt og fyrr segir, aldraðir íbúar hjúkrunarheimila.
„Pfizer verður ekki í boði fyrir fólk yfir fimmtugu fyrr en við fáum stærri sendingar af því síðar á þessu ári,“ sagði heilbrigðisráðherrann Brendan Murphy.
Um 1,8 milljónir skammta af bóluefnum hafa verið gefnir í Ástralíu.