Libia Castro og Ólafur Ólafsson hafa sent Sigríði Friðjónsdóttir ríkissaksóknara erindi þar sem þau benda á ummæli Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara sem þau telja fordómafull í garð listafólks. Ummælin birti Helgi Magnús í færslu á Facebook-síðu sinni sem sjá má neðar í fréttinni. Þau Libia og Ólafur ákváðu að senda Sigríði póst eftir að hafa heyrt af því að hún hefði hafið skoðun á nýlegum ummælum Helga Magnúsar sem hann viðhafði á Facebook-síðu sinni og sneru að samkynhneigðum hælisleitendum. Að því er fram kemur í frétt á vef RÚV ákvað Sigríður að hefja skoðun á málinu að sínu frumkvæði.
„Í ljósi upplýsinga um að hún hefði verið að hefja rannsókn á þessu máli, í framhaldi af ummælum Helga, þá vildum við koma þessum upplýsingum á framfæri við hana,“ segir Ólafur í samtali við Kjarnann og bætir því við að þau Libia hafi fengið staðfestingu á móttöku erindisins.
Í erindi þeirra Libiu og Ólafs segir að ummælin sem hann viðhafði um verk þeirra sem sett hafði verið upp í tengslum við sýninguna Töfrafundur – áratug síðar í Hafnarborg hafi verið „að okkar mati, líkt og nýleg ummæli hans um samkynhneigða hælisleitendur, full fordóma, vanvirðingar og fyrirlitningar og ættu að okkar mati ekki að líðast, án afleiðinga, starfsmanni í hans stöðu.“
Segir eðli verksins einnig skipta máli
„Hann hefur verið að ráðast gegn innflytjendum og samkynhneigðum og hópum sem hafa verið og eru í minnihluta eða í erfiðri aðstöðu,“ segir Ólafur í samtali við Kjarnann. „Við vildum koma þessum ummælum á framfæri við hana líka því hún er að rannsaka hans mál, svo hún vissi líka hvernig hann hefur verið að ráðast gegn myndlist og listafólki. Það er forkastanlegt að aðili með svona viðhorf gegni þessari stöðu, svona valdamikilli og mikilvægri stöðu sem maður ætlar að sé staða sem eigi að gæta hlutleysis og geta vegið og metið aðstæður.“
Að sögn Ólafs skiptir það líka máli hvers eðlis listaverkið var. „Þarna skiptir inntak listaverksins líka máli, því við erum að tala um listaverk sem er hluti af stærri viðburði sem fjallar um nýju stjórnarskrána, mál sem er og hefur verið beitt þöggun. Þetta er hluti af þeirri þöggun.“
Verkið sem um ræðir var eins og áður sagði hluti af sýningu í Hafnarborg í Hafnarfirði. Verkið var hengt upp á gafl húss Hafnarborgar en það svo fjarlægt að beiðni bæjarstjóra Hafnarfjarðar Rósu Guðbjartsdóttur. Verkið rataði aftur upp á gafl hússins að nokkrum dögum liðnum.
„Fátt annað á netinu eftir hann nema fordómar og vitleysa“
Í umræddri færslu deildi Helgi Magnús frétt Vísis um málið og sagði verkið „eitthvert krafs á dúk“ sem væri til ama. „Svo mætir einhver mannvitsbrekkan af einhverjum fjölmiðlinum og rekur míkrafón upp í andlitið á þeim og fer að ræða þessa aðför að listsköpun þessara greyja. Auðvitað veit þetta fréttaséni að þetta er bara krafs á dúk, en vill ekki að fólk haldi að það þekki ekki list þegar það sér hana,“ ritaði Helgi.
Af orðum hans má skilja að honum hafi ekki þótt mikið til listaverks þeirra Libiu og Ólafs koma. „Eru engin takmörk fyrir því bulli sem hægt er að veifa í nafni lista. Hvað verður það næst kannski einhver ótótlegur feitur kauði nakinn í stóru fiskabúri að fitla við sig og skíta í dollu. Eða er búið að mjólka það,“ ritaði Helgi Magnús.
Líkt og áður segir var það athugun ríkissaksóknara á nýlegum ummælum Helga Magnúsar sem rak þau Libiu og Ólaf af stað með erindi sitt. „Ég vissi ekkert hver þessi maður var þá.“ segir Ólafur um Helga Magnús og vísar til þess tíma þegar Helgi deildi færslunni um listaverkið. „En ég googlaði hann og sá að það var fátt annað á netinu eftir hann nema fordómar og vitleysa. Núna þegar þetta kemur fram þá hugsaði ég: „Við förum ekkert að sitja á þessu.“,“ segir Ólafur sem einnig deildi færslu Helga Magnúsar frá því í fyrra á Facebook-síðu sinni.
Þetta hafði Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari lýðveldisins, að segja um ritskoðun Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, á sýningu okkar Libiu og Töfrateymisins í Hafnarborg á síðasta ári:
Posted by Ólafur Ólafsson on Sunday, July 24, 2022
Ummælin alvarleg, „sérstaklega komandi frá handhafa ákæruvaldsins“
Ummælin sem Helgi lét falla á samfélagsmiðlum fyrir helgi hafa vakið óhug hjá mörgum, en Helgi sagði hælisleitendur „auðvitað ljúga“ um kynhneigð sína og spurði einnig hvort ekki væri nú þegar nóg af hommum á Íslandi. Helgi Magnús hefur eytt ummælum sínum.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur gagnrýnt ummæli Helga Magnúsar en vísað á ríkissaksóknara er varðar ábyrgð á málinu.
Það hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar gagnrýnt en í færslu á Facebook-síðu sinni segir hún að í krafti stjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna geti dómsmálaráðherra kallað eftir því að agaviðurlögum verði beitt. Í færslu sinni sagði Þorgerður Katrín að Helgi Magnús sendi mjög hættuleg skilaboð út til samfélagsins með ummælum sínum. „Svona ummæli eru alvarleg. Sérstaklega komandi frá handhafa ákæruvaldsins. Orðræðan hefur félagsmótandi áhrif og hatursfull orð geta gert mikinn skaða,“ ritar hún.