Drífa Snædal, forseti ASÍ, var með þeim fyrstu sem gagnrýndi hópuppsögn Eflingar sem tilkynnt var í vikunni. Í viðtali á Sprengisandi í morgun ítrekaði hún gagnrýnin og segir hópuppsögnina fordæmalausan gjörning.
„Þetta kom mér mjög á óvart og ég held að þetta hafi komið flestum í algjörlega opna skjöldu,“ segir Drífa. Hópuppsagnir eru einmitt það sem verkalýðshreyfingin hefur barist gegn og segir Drífa það hafa komið henni á óvart að átta stjórnarmenn Eflingar samþykktu tillögu Sólveigar Önnu um að segja upp öllu starfsfólki. „Ég held að verkalýðssinnað fólk hljóti að gagnrýna þetta.“
Líkt og fram hefur komið var öllum starfsmönnum á skrifstofu Eflingar sagt upp í liðinni viku eftir að meirihluti stjórnar félagsins undir forystu formannsins Sólveigar Önnu Jónsdóttur hafði samþykkt að segja upp öllum ráðningarsamningum. Hún sagði af sér formennsku síðasta haust en bauð sig fram að nýju í oddvitasæti Baráttulistans í kosningum sem fram fóru í febrúar. Listinn hlaut 54 prósent atkvæða. Sólveig Anna tók svo við formennskunni á aðalfundi Eflingar í byrjun apríl.
Veit af eigin reynslu að hægt er að gera umbætur án hópuppsagnar
Í yfirlýsingu frá Baráttulistanum vegna uppsagnanna í síðustu viku kom fram að ný ráðningarkjör yrðu innleidd „með gegnsæi og jafnrétti að leiðarljósi“ og að starfað yrði undir nýju skipulagi með breyttum hæfnikröfum og verkaskiptingu. Breytingarnar eru sagðar miða að bættri þjónustu við félagsmenn og aukinni skilvirkni í rekstri. Þar segir einnig að innleiða eðlilegt bil milli hæstu og lægstu launa á skrifstofunum, og gera aðrar löngu tímabærar og nauðsynlegar breytingar á skipulagi.
Í gær birtist auglýsing á forsíðu Atvinnublaðsins undir yfirskriftinni „Vilt þú taka þátt í að byggja upp metnaðarfyllsta stéttarfélag landsins?“ Auglýst er m.a. eftir framkvæmdastjóra, fjármálastjóra, sviðsstjórum þjónustu og vinnuréttinda, sérfræðingum á ýmsum sviðum, t.d. í vinnurétti, vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum og í kjarasamningum og kjarasamningsgerð. Fimmtán störf hjá Eflingu eru auglýst samkvæmt vef Hagvangs sem sér um ráðningarnar.
Ekkert fyrirtæki eða stofnun hérlendis hefur leitað til Jafnréttisstofu með hugmyndir um að segja upp öllu starfsfólki og endurráða á ný til þess að leggja grunn að því að ná jafnlaunavottun á vinnustaðnum.
Jafnréttisstofa myndi ekki mæla með slíkum aðgerðum og telur þær vart réttlætanlegar, segir Katrín Björg Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu í skriflegu svari til Kjarnans.
Starfsfólk Eflingar sett í hryllilega stöðu
Drífa segir vinnustaðamenningu á ábyrgð stjórnenda og líklega hefði átt að fá utanaðkomandi aðstoð til að taka á þeim vandamálum sem geisað hafa á skrifstofu Eflingar.
„Nú er starfsfólk sett í þá hryllilegu aðstöðu að vera boðið að sækja um störfin sín aftur. Á hvaða kjörum það er, það liggur ekki ljóst fyrir. Þetta er svolítið eins og að bjóða þér að kyssa vöndinn þegar þér hefur verið sagt upp þannig fólk er í erfiðri stöðu.“
Drífa hvetur stjórnendur Eflingar til að leita faglegrar aðstoðar til að taka á þeim vanda sem ríkir innan félagsins. „En það er ekki hægt að réttlæta svona aðgerðir, það er bara engan veginn hægt.“
Drífa segir ljóst að deilum innan Eflingar sé hvergi nærri lokið. „Það eru mjög margir sárir. Það þarf að finna einhverja leið til að bæði reka félagið og hin pólitísku verkalýðsbaráttu. Hlutverk ASÍ í því er að veita liðsinni.“
Ekki búin að ákveða hvort hún gefi áfram kost á sér sem forseti
Aðspurð hvort markmið Eflingar felist jafnvel í yfirtöku á ASÍ sagði Drífa ekki vita það. „En það getur svo sem vel verið og þá bara fer það sinn gang.“
Þannig vísar Drífa til ársþings ASÍ sem fram fer í október. Sjálf hefur Drífa ekki ákveðið hvort hún ætli að gefa áfram kost á sér í embætti forseta. „Það bara kemur í ljós. Alveg heiðarlega sagt er ég ekki búin að ákveða mig.“