Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna var til viðtals í Forystusætinu á RÚV í gærkvöldi. Í þættinum fór hún um víðan völl og ræddi stefnu flokksins og gjörðir ríkisstjórnarinnar sem hún leiðir á kjörtímabilinu sem er að líða.
Í umræðum um bág kjör öryrkja og hvort ríkisstjórnin hefði brugðist þeim sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi, í ljósi niðurstaðna nýrrar skýrslu um kjör öryrkja, sagði Katrín meðal annars að ríkisstjórnin hefði innleitt nýtt þrep í skattkerfið, sem hefði verið stór aðgerð til þess að jafna kjör og bæta hag þeirra tekjulægstu.
Hún nefndi líka barnabótakerfið í svari sínu við spurningunni og sagði „...að lokum höfum við líka verið að auka barnabótakerfið og tryggja að það nái til fleiri,“ um breytingar sem gerðar hafa verið á barnabótakerfinu á þessu kjörtímabili.
En hverju hafa þessar breytingar skilað? Hafa barnabætur aukist og hafa þær náð til fleiri, eins og Katrín segir? Staðreyndavakt Kjarnans tók þessa fullyrðingu formanns Vinstri grænna til skoðunar.
Framlög aukin en verðbólga búin að gleypa krónutöluhækkanir
Árið 2017, þegar núverandi ríkisstjórn tók við keflinu, var alls 9,52 milljörðum króna varið í barnabætur. Á þessu ári stendur til að 13,1 milljarði verði varið í greiðslu barnabóta, sem er aukning sem er vel umfram verðlagshækkanir, samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar, ef miðað er við ágústmánuð í hvoru ári. Það er því klárt að barnabótakerfið hefur verið eflt hvað bein framlög úr ríkissjóði varðar.
Þegar hins vegar horft er til þess sem tekjulágir foreldrar sem fá óskertar barnabætur fá í sinn hlut í dag hefur lítil sem engin raunhækkun orðið á barnabótunum. Samkvæmt útreikningum Kjarnans hafa barnabætur tekjulægstu foreldranna einungis um það bil haldið í við verðlag frá ágúst 2017 til ágúst 2021. Þó er rétt að taka fram að upphæð barnabóta var aukin árið 2019 og hefur verið óbreytt síðan. Á þeim tíma var hækkunin vel umfram verðlagshækkanir.
En síðan þá hefur verðbólgan smám saman étið hækkunina upp. Sem dæmi má nefna að árið 2017 námu óskertar barnabætur til einstæðs foreldris með 7 ára gamalt barn 342.939 krónum. Árið 2021 er þessi sama upphæð komin upp í 390.700 krónur. Hækkunin er tuttugu krónum frá því halda í við verðlagsbreytingar á undanförnum fjórum árum, samkvæmt reiknivél Hagstofunnar. Svo annað dæmi sé tekið námu óskertar barnabætur til tekjulágs sambúðarfólks með tvö börn, eitt 3 ára og eitt 8 ára, samtals 573.800 krónum á ári árið 2017. Á árinu 2021 er þessi upphæð komin upp í 653.700 krónur, sem er einmitt nær algjörlega í takt við verðlagshækkanir á þessu tímabili.
Hækkunin á framlögum inn í barnabótakerfið í tíð ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur því, þegar staðan er tekin núna í lok kjörtímabils, að mestu skilað sér í hóflegum hækkunum barnabóta til þeirra sem eru með tekjur yfir skerðingarmörkum barnabóta. Í skýrslu sem Kolbeinn Stefánsson vann fyrir BSRB árið 2019 var bent á að þær breytingar sem þá stóð til að ráðast í á kerfinu myndi einungis að litlu leyti skila sér til þeirra sem höllustum fæti standa.
„Fyrirhuguð hækkun á skerðingarmörkum barnabóta skilar mjög hóflegum hækkunum barnabóta og gerir lítið sem ekkert fyrir allra tekjulægstu fjölskyldurnar. Þá gefur hækkun skerðingarmarka minni hækkun til einstæðra foreldra en til foreldra í hjúskap, en fyrrnefndi hópurinn býr við mjög auknar líkur á fátækt og fjárhagsþrengingum,“ sagði í skýrslunni frá BSRB.
Fjöldi þeirra einstaklinga sem fá barnabætur hefur þó vissulega vaxið á kjörtímabilinu. Rúmlega 49 þúsund manns fengu einhverjar barnabætur í fyrra og fjölgaði þeim um 3 prósent á milli ára, samkvæmt yfirliti frá fjármálaráðuneytinu.
Til viðbótar almenna barnabótakerfinu var í fyrra, vegna COVID-19, greiddur sérstakur 30 þúsund króna barnabótaauki með hverju barni þeirra foreldra sem fá greiddar tekjutengdar barnabætur samkvæmt niðurstöðu álagningar. Heildarfjárhæð barnabótaaukans nam 1,6 milljörðum króna og rann hann til 49 þúsund einstaklinga.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Framlög úr ríkissjóði til barnabótakerfisins hafa vissulega aukist í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og barnabætur ná til fleiri einstaklinga en þær gerðu árið 2017. Það er því ekki hægt að segja annað en að Katrín hafi farið rétt með í fullyrðingu sinni.
Í því ljósi að fullyrðingin um barnabótakerfið var á meðal þess forsætisráðherra setti fram sem svar við spurningu um það hvort ríkisstjórn hennar hefði brugðist þeim sem standa höllustum fæti í samfélaginu er það þó mat Staðreyndavaktarinnar að Katrín hafi einungis verið á réttri leið í svari sínu. Þeir foreldrar sem höllustum fæti standa fá að raunvirði ekki meira út úr barnabótakerfinu í dag en þeir gerðu árið 2017.