Logi Einarsson, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarps fjögurra stjórnarandstöðuflokka um breytingu á lögum um útlendinga. Frumvarpinu hefur nú verið dreift á Alþingi.
Flutningsmenn frumvarpsins eru 23 talsins og koma úr fjórum af fimm flokkum stjórnarandstöðunnar: Samfylkingu, Flokki fólksins, Pírötum og Viðreisn. Miðflokkurinn á ekki aðild að frumvarpinu.
Tvö ný bráðabirgðaákvæði á lögum um útlendinga eru í frumvarpinu sem taka til umsækjenda um alþjóðlega vernd sem urðu fyrir því að málsmeðferð umsókna þeirra dróst af ástæðum sem rekja má til heimsfaraldurs COVID-19. Breytingarnar eiga að gera tæplega 200 flóttamönnum sem til stendur að vísa úr landi kleift að dvelja hér áfram.
Tafir á málsmeðferð ekki á ábyrgð umsækjenda
Í fyrra ákvæðinu er lagt til að tafir sem rekja má til heimsfaraldurs COVID-19 verða ekki lengur taldar á ábyrgð umsækjanda og taka skal umsókn til efnislegrar meðferðar ef liðnir eru meira en 12 mánuðir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum um umsækjandi hefur ekki yfirgefið landið.
Mun á málsmeðferð megi rekja til verklags lögreglu
Flutningsmenn frumvarpsins telja nauðsynlegt að bregðast við þeim sérstöku aðstæðum sem uppi hafa verið í heiminum vegna COVID-19 og komið hafa niður á umsækjendum um alþjóðlega vernd. Í greinargerð frumvarpsins benda flutningsmenn frumvarpsins á að fram hefur komið að stjórnvöld hafi metið það svo að einhverjir umsækjenda hafi sjálfir vorið ábyrgð á töfum á máli sínu vegna þess að þeir hafi ekki orðið við beiðni um að undirgangast PCR-próf.
Í greinargerðinni segir að svo virðist sem ekki hafi verið fullt samræmi í mati stjórnvalda varðandi þetta og að dæmi séu um að umsækjendur hafi ekki orðið við beiðni um að mæta í PCR-próf en hafi, þrátt fyrir það, ekki verið taldir bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu máls, en aðrir í mjög svipaðri stöðu hafi verið taldir bera ábyrgð á slíkum töfum af sömu ástæðu.
„Flutningsmenn frumvarpsins telja í ljósi jafnræðisreglu og meðalhófs að óeðlilegt sé að gera slíkan greinarmun enda sé afar óljóst í hverju munurinn felst og hefur því verið haldið fram að muninn megi helst rekja til verklags lögreglu í einstaka málum,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Fáránlegt að láta aðstæður sem tengjast heimsfaraldri bitna á flóttafólki
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, einn flutningsmanna frumvarpsins, sagði undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær að það væri fáránlegt að láta aðstæður sem tengjast heimsfaraldrinum bitna á flóttafólki, aðstæður sem fólk beri augljóslega enga ábyrgð á. „Fólkið sem vísa á úr landi hefur margt verið talið bera ábyrgð á töfum á máli sínu vegna þess að það hafi ekki sinnt beiðni um að mæta í svokallað PCR-próf til að komast í flug. Það sem fylgir ekki sögunni er hvernig lögregla og Útlendingastofnun framkvæmdu þessar beiðnir sínar,“ sagði Arndís.
Lýsti hún ferlinu þegar fólki er tilkynnt að vísa eigi því úr landi með eftirfarandi hætti: „ Lögreglan mætir óboðin á heimili umsækjenda og þylur upp texta á eyðublaði á ensku. Enginn túlkur eða lögmaður er viðstaddur og viðkomandi er ekki boðinn slíkur og ekki er orðið við beiðni hans um neitt slíkt. Algengt er að fólk skilji ekki hvað er í gangi. Hafa margir þessara einstaklinga t.d. sagst ekki hafa skilið hvort málið snerist um skimun eða bólusetningu eða eitthvað allt annað, og því síður hverjar afleiðingarnar af því að mæta ekki gætu orðið. Skilji fólk ekki rulluna er því boðið að svara játandi eða neitandi, hvort þau ætli að vera samvinnufús. Skilji þau það ekki heldur eru þau spurð hvort þau vilji fara eða ekki og auðvitað vilja þau ekki fara, en þorra þessa fólks átti að vísa til Grikklands og Ungverjalands eins og fram hefur komið. Berst svo niðurstaða að nokkrum vikum liðnum þess efnis að viðkomandi hafi tafið mál sitt sjálfur og því sé ekki um það að ræða að hann fái að vera. “
Arndís sagði að þó að engar lagabreytingar sé þörf til að leysa þessi mál sé með frumvarpinu verið að bjóða Alþingi að taka í taumana og „stöðva þessa óboðlegu framkvæmd,“ sagði Arndís, sem hvatti þingheim allan til að skoða frumvarpið og samþykkja.
Dómsmálaráðherra segir samstöðu innan ríkisstjórnarinnar um málið
Ekki er samstaða um brottvísunina innan ríkisstjórnarinnar. Frá því að Fréttablaðið greindi frá því 20. maí síðastliðinn að flóðbylgja brottvísana væri fram undan. Í fyrstu var greint frá því að um 300 manns væri að ræða, meðal annars börn, og að stærstur hluti þeirra ætti að fara til Grikklands.
Stjórnmálaumræða síðustu viku var undirlögð af umræðu um tilvonandi brottvísanir. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í Kastljósi á þriðjudag að samstaða ríkti innan ríkisstjórnarinnar um að framkvæma brottvísun fólksins, reglur væru skýrar og engar breytingar væru fyrirsjáanlega á þeirri ákvörðun.
Guðmundur ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, bar það til baka í tíufréttum RÚV sama kvöld og sagði það rangt að samstaða væri um máli. Hann sagðist hafa gert „alvarlegar athugasemdir“ við þá vegferð sem Jón væri og að hann væri ekki ánægður með það hvernig ráðherra hafi haldið á málinu. Guðmundur Ingi sagði fleiri ráðherra hafa gert athugasemdir við vegferð Jóns á ríkisstjórnarfundinum en vildi ekki segja hverjir það voru, þeir þyrftu sjálfir að greina frá því.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svaraði ekki beint hvort hún hafi verið meðal þeirra en sagði ráðherra hafa reifað ólík sjónarmið um fjöldabrottvísunina. „Ég get staðfest það að það voru ýmis sjónarmið reifuð frá hendi ólíkra ráðherra,“ sagði Katrín í samtali við RÚV.
Óljóst hvort frumvarpið komist á dagskrá fyrir sumarfrí
Dómsmálaráðherra ítrekaði samstöðu í ríkisstjórninni um brottvísanir á föstudag og fullyrti að enginn ráðherra í ríkisstjórninni hafi farið fram á að staðið verði af brottflutningi með öðrum hætti en til stendur. Sama dag sendi Útlendingastofnun frá sér tilkynningu þar sem kom fram að hópurinn sem til stendur að vísa úr landi hafi tekið talsverðum breytingum. 197 manns eru á lista stoðdeildar ríkislögreglustjóra sem vísa á úr landi á næstunni, ekki tæplega 300 líkt og greint var frá í fyrstu. Vísa á 44 til Grikklands, þar sem aðstæður teljast ekki boðlegar að mati Rauða krossins, en barnafjölskyldum verður ekki vísað úr landi.
Ekki liggur fyrir hvort frumvarpið komist á dagskrá Alþingis fyrir sumarfrí en samkvæmt starfsáætlun þingsins verður þingfundum frestað föstudaginn 10. júní. Enn á eftir að semja um afgreiðslu þingmála en auk fjármálaáætlunar fjármálaráðherra 2023 til 2027 auk fjáraukalaga á enn eftir afgreiða mál eins og frumvarp dómsmálaráðherra um útlendingalög og rammaáætlun. Málin eru enn í þingnefndum og frestur til að skila inn umsögn um útlendingafrumvarp rennur út í dag. Auk þingfundarins í dag eru þrír þingfundir á dagskrá fram að þingfrestun, auk eldhúsdagsumræða sem fram fara eftir viku.