Við rannsókn óháðu samtakanna Farm Forward á kjöti sem selt er í verslunum Whole Foods í Bandaríkjunum og fengið hefur lífræna vottun fundust leifar af sýklalyfjum. Sýnin voru tekin í sláturhúsi sem vinnur m.a. kjöt sem selt er hjá Whole Foods, kjöti sem fengið hefur sérstaka vottun USDA um dýravelferð sem og sambærilegan og lífrænan stimpil úr vottunarkerfi verslananna sjálfra. Whole Foods fullyrðir að ekkert kjöt sem þar sé selt innihaldi sýklalyf – „aldrei nokkurn tímann“.
Þetta er þó ekki eina rannsóknin sem sýnt hefur sömu niðurstöðu. Í byrjun apríl var birt niðurstaða rannsóknar í vísindatímaritinu Science en samkvæmt niðurstöðum hennar fundust sýklalyf í kúm sem notaðar voru til framleiðslu kjöts sem fengið hafði sömu vottanir.
Höfundar þeirrar rannsóknar, sem m.a. eru vísindamenn við George Washington-háskóla, segja að það sé nær ómögulegt fyrir neytendur að sannreyna hvort að dýr sem notuð eru til kjötframleiðslu hafi fengið sýklalyf eða ekki. Neytendur þurfi því að geta treyst á framleiðendur, stjórnvöld eða vottunaraðila í þeim efnum. Stjórnvöld beri ábyrgð á því að farið sé eftir vottunum sem þessum enda gefi þau þeim grænt ljós en yfirvöld geri þó engar sjálfstæðar rannsóknir.
Talsmaður Whole Foods segir í samtali við Washington Post að fyrirtækið hafi ekki nokkra ástæðu til að trúa því að kjöt af þeim nautgripum sem sýni voru tekin úr við rannsóknirnar rati í þeirra verslanir. Ekki sé hægt að ganga úr skugga um það þar sem rannsakendur hafi ekki gefið upp nafnið á sláturhúsinu þaðan sem sýnin voru tekin. Erfitt sé því að skera úr um hvort að um kerfislegt vandamál sé að ræða eða að þarna séu aðeins á ferð „nokkur skemmd epli“.
Kerfislægur vandi
Kevin Lo, sem starfar með FoodID sem tók þátt í rannsókninni ásamt vísindamönnum George Washington-háskóla, segir að niðurstöðurnar sýni að vandinn sé kerfislægur og snúist ekki um einstaka bændur, einstök býli, verslanir eða veitingastaði. Meðal þess sem fannst við rannsókn samtakanna Farm Forward voru leifar vaxtarhvetjandi lyfja, lyfja sem bannað er að nota samkvæmt lífrænu vottunarstofunum.
Samtökin segja að í bandarískum kjötiðnaði séu notaðar margar og ruglandi vottanir til að dreifa athygli neytenda. Meira að segja stórar keðjur á borð við Whole Foods, sem rekur um 500 verslanir vítt og breitt um Bandaríkin, Kanada og Bretland, geti ekki tryggt að kjötið sem þar er selt sé lyfjalaust.
Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að ónæmi fyrir sýklalyfjum sé vaxandi vandamál hjá fólki víða um heim og er það beintengt gríðarlegri notkun slíkra lyfja í búfjáreldi. Lyfin eru notuð til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma á hverslags verksmiðjubúum og til að auka vaxtarhraða dýranna sem þar eru haldin.