Kópavogsbær vakti í gær athygli á nýrri fjallahjólabraut sem sett hefur verið upp við Austurkór í Kópavogi og hafa viðbrögðin við brautinni, sem var fullgerð á vordögum samkvæmt Facebook-færslu bæjarins, verið blendin. Helsta aðfinnsluefnið er það að brautin sé marflöt og hafi lítið upp á að bjóða umfram aðra malarstíga í bænum.
Ráðist var í gerð þessarar fjallahjólabrautar eftir að hún var kosin af íbúum bæjarins í verkefninu Okkar Kópavogur í fyrra. Samkvæmt niðurstöðu kosninga í Okkar Kópavogi var áætlað að verja 8 milljónum króna til verksins.
Einn íbúi bæjarins skrifar, við nokkrar undirtektir, að 8 milljónum króna virðist hafa verið varið í „flata malarstíga“ sem enginn hafi gaman af því að hjóla.
„Engar mishæðir eða bakkar til að láta reyna á hæfni. Þessi "fjallahjólabraut" er í besta lagi sorglegt grín og illa farið með fé íbúa bæjarins. Það væri fróðlegt að vita hvort að hönnuður hafi nokkra reynslu af fjallahjólabrautum. Er nokkuð viss um að þetta er ekki það sem fólk var að kjósa, amk er þetta langt frá væntingum,“ skrifar þessi íbúi.
„Ég kaus þessa hugmynd en þetta kaus ég sko ekki! Þetta er ekki fjallahjólabraut, það er nokkuð ljóst,“ skrifar annar íbúi bæjarins og enn einn segir að bæjaryfirvöld skuldi „börnunum í hverfinu lagfæringu á þessu sem fyrst“.
Í Facebook-færslunni frá Kópavogsbæ, þar sem vakin var athygli á verkinu, segir að ungir jafnt sem aldnir geti „hjólað og spólað“ eins og þá lystir í brautinni. En þeir íbúar sem lagt hafa orð í belg virðast efins um að í þessari fjallahjólabraut bæjarins verði mikið hjólað eða spólað.
Glæný fjallahjólabraut við Austurkór! Fjallahjólabrautin við Austurkór var kosin af íbúum bæjarins í hugmyndasöfnun...
Posted by Kópavogsbær on Wednesday, July 21, 2021
Allnokkrar fjallahjólabrautir hafa verið útbúnar hér á landi á undanförnum árum, sem æfinga- og leiksvæði fyrir börn og fullorðna í því vaxandi sporti sem fjallahjólreiðar eru.
Til dæmis var í vor opnuð fjallahjólabraut á Ásbrú í Reykjanesbæ í vor og í Garðabæ var sett upp fjallahjólabraut árið 2019, sem Landssamband hjólreiðamanna gerði góðan róm að á vefsíðu sinni.