Tæplega 380 milljónir króna hafa verið endurgreiddar til vinnumálastofnunar vegna hlutastarfaleiðarinnar. Alls hafa 88 fyrirtæki endurgreitt hlutabætur sem greiddar voru til 1.834 launamanna. Fyrirtækin sem hafa endurgreitt hlutabætur hafa því að meðaltali greitt 4,3 milljónir króna til Vinnumálastofnunar og meðaltal á hvern launamann sem búið er að endurgreiða fyrir er 206 þúsund krónur.
Þetta kemur fram í minnisblaði frá Vinnumálastofnun en Kjarninn óskaði eftir upplýsingum um heildarumfang endurgreiðslna þeirra fyrirtækja sem ákveðið hafa að endurgreiða hlutabætur. Fram kemur í svari Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, við fyrirspurn Kjarnans stofnunin hafi ekki heimildir til að leggja mat á þörf einstakra fyrirtækja fyrir þátttöku í hlutastarfaleiðinni. Fyrirtækin hafi sjálf metið þetta og eftir atvikum endurgreitt þær hlutabætur sem greiddar voru til starfsmanna hafi niðurstaðan verið sú að fyrirtækin hafi ekki þurft á stuðningnum að halda.
Rúmir 28 milljarðar hafa verið greiddir í hlutabætur
Hlutastarfaleiðin er umfangsmesta úrræði stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Í nýrri skýrslu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kemur fram að hingað til hafa rúmlega 28 milljarðar króna verið greiddir í hlutabætur. Úrræðið rennur sitt skeið á enda í lok maí 2021 og gert er ráð fyrir að heildarkostnaður vegna úrræðisins muni nema 30 milljörðum króna.
Frá síðasta sumri hafa að meðaltali um 4.350 einstaklingar fengið greiddar hlutabætur í hverjum mánuði. Alls hafa 36 þúsund einstaklingar fengið hlutabætur á gildistíma úrræðisins. Í mars síðastliðnum fengu 4.186 einstaklingar greiðslur úr opinberum sjóðum vegna minnkaðs starfshlutfalls.
Lögin túlkuð nokkuð frjálslega
Ríkisendurskoðun fjallaði ítarlega um hlutastarfaleiðina í skýrslu sem stofnunin sendi frá sér í maí á síðasta ári. Í niðurstöðukafla skýrslunnar er sagt að af lögunum og lögskýringargögnum hafi mátt ráða að úrræðið hefði ekki verið ætlað stöndugum fyrirtækjum.
„Það hefur þó komið í ljós að þrátt fyrir áherslu stjórnvalda um að hlutastarfaleiðin væri stuðningur við lífvænleg fyrirtæki sem misst hefðu miklar tekjur virðist að nokkuð frjálsræði hafi verið á túlkun laganna. Í hópi þeirra aðila sem hafa nýtt sér hlutastarfaleiðina eru fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag en ekki verður séð af lögunum og lögskýringargögnum að slíkt hafi verið ætlunin. Nokkur fyrirtæki hafa tilkynnt um að horfið verði frá nýtingu hlutastarfaleiðar og önnur boðað endurgreiðslu á framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs.“
Þá var það einnig sagt vekja athygli að sveitarfélög og opinberir aðilar hafi nýtt sér úrræðið.
Fækkaði í hópnum með hertum skilyrðum
Þegar skýrslan var skrifuð var úrræðið en nokkuð opið og hert skilyrði fyrir nýtingu hlutastarfaleiðar fyrirhuguð. Skilyrðin voru í kjölfarið hert og gerð var ríkari krafa um tekjuskerðingu auk þess sem girt var fyrir það að vinnuveitendur gætu greitt sér arð, lækkað hlutafé, greitt óumsamda kaupauka eða keypt eigin bréf fyrr en í fyrsta lagi í júní 2023.
Ríkisendurskoðun sendi frá sér aðra skýrslu í desember á síðasta ári um vinnumarkaðsaðgerðir á tímum kórónuveiru. Í þeirri skýrslu er niðurstöðum skýrslunnar um hlutastarfaleiðina fylgt eftir. Í kaflanum um hlutastarfaleiðina í þeirri skýrslu kemur fram að í júní fækkaði launamönnum á hlutastarfaleið um 60 prósent á milli mánaða. Hertari reglur skýra þessa fækkun að einhverju leyti.
“Skýringuna má að hluta til rekja til hertari reglna um skilyrði sem fyrirtæki þurftu að uppfylla til að starfsfólk þess gæti nýtt sér hlutastarfaleiðina. Einnig var kynnt nýtt úrræði um greiðslu launa á uppsagnarfresti sem hafði m.a. þau áhrif að einhverjum launamönnum á hlutastarfaleiðinni var sagt upp. Þá má benda á að atvinnulífið og þá sérstaklega ferðaþjónustan tók við sér með auknum ferðalögum Íslendinga innanlands í júlí og ágúst. Því fækkaði þeim rekstraraðilum sem settu starfsfólk sitt í hlutastörf.“