Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Haraldsdóttir, segir að fyrirtæki sem taka samfélagslega ábyrgð alvarlega eigi að virða lýðræðið og ekki beita sér gegn því. Fyrirtæki sem ekki huga að samfélagslegri ábyrgð eigi sér ekki framtíð.
Þetta kom fram í máli hennar undir liðnum störf þingsins í dag en í samtali við Kjarnann staðfestir hún að þarna hafi hún átt við sjávarútvegsfyrirtækið Samherja.
„Ég er að sjálfsögðu að vísa til Samherjahneykslisins. En það getur verið að hægt sé að setja fleiri undir þennan hann en í dag gengur þetta út á það sem er að gerast í samfélaginu,“ segir hún í samtali við Kjarnann.
Hneyksluð á þessum framgangi
Mikið hefur verið fjallað um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja undanfarna viku en Kjarninn greindi meðal annars frá samræðum þar sem fram kom að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri fyrirtækisins, vildi ekki að Njáll Trausti Friðbertsson yrði næsti oddviti Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi. Enn fremur greindi Kjarninn frá því að Samherji hefði reynt að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri í stéttarfélagi blaðamanna í síðasta mánuði.
„Ég er eins og flestir landsmenn hneyksluð á þessum framgangi – þetta er sorglegt,“ segir Bryndís. „Það er alvarlegt ef stórfyrirtæki eru að hafa áhrif á lýðræðið. Mér finnst það mjög alvarlegt.“
Í ræðu sinni á þingi í dag hóf hún mál sitt á því að segja að Ísland væri frjálst land, land þar sem fólki væri frjálst að gera það sem það vill svo lengi sem það skaðaði ekki aðra.
„Á Íslandi ríkir málfrelsi, skoðanafrelsi og trúfrelsi og við verðum ávallt að standa vörð um þetta frelsi. Hið opinbera þarf að stíga niður með hógværð og jafnræði að leiðarljósi. Fjölmiðlar eiga að vera beittir og veita aðhald. Þeir eiga að segja satt og rétt frá. Þeir eiga að vera gagnrýnir og þeir eiga að vera opnir fyrir gagnrýni. Fyrirtæki þurfa að hlíta sömu reglum. Öll fyrirtæki sem ætla að eiga sér framtíð þurfa að huga að samfélagslegri ábyrgð sinni. Þau þurfa að axla ábyrgð og hafa uppbyggileg áhrif á umhverfi sitt. Stuðningur við íþróttafélög og menningu er góður og mikilvægur, en það er ekki nóg. Fyrirtæki sem taka samfélagslega ábyrgð alvarlega virða lýðræðið og beita sér ekki gegn því. Fyrirtæki sem ekki huga að samfélagslegri ábyrgð eiga sér ekki framtíð,“ sagði hún að lokum.
Finnst „menn ganga of langt“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tjáði sig um málið í gær en hann sagðist í samtali við fréttastofu RÚV ekki vera ánægður með að stórir öflugir aðilar í fyrirtækjarekstri beittu sér af fullum krafti í fjölmiðlaumfjöllun sem þeir eru ósáttir við.
Þegar hann var spurður hvað honum fyndist um þessa herferð gagnvart einstökum fjölmiðlamönnum og jafnvel fjölmiðlum þá svaraði hann að hægt væri að hafa alls konar skoðanir á því að fólk ætti ekki að gera eitthvað eða gera hlutina öðruvísi heldur en gert væri.
„En ég er í prinsippinu þeirrar skoðunar að það er skoðanafrelsi á Íslandi. Fólki er frjálst að hugsa hluti, fólki er frjálst að segja hluti, fólki er frjálst að beita sér. Það er mjög stórt mál að fara að ganga gegn því frelsi. Ég er hins vegar ekkert sérstaklega ánægður með að stórir öflugir aðilar í fyrirtækjarekstri beiti sér af fullum krafti í fjölmiðlaumfjöllun sem þeir eru ósáttir við. Aðallega vil ég að hlutirnir séu uppi á borði, gegnsæir og það sé verið að ræða málefnalega um hlutina. Það er það sem mér finnst vera mikilvægt. Ég held líka að við verðum að hlusta ef menn segja að ríkismiðillinn, sem hefur mjög ríkum skyldum að gegna, ef menn segja að hann sé ekki að rísa undir því sem að honum ber að gera að lögum og er réttlætingin fyrir því að við öll tökum sameiginlega þátt í því að halda honum á floti og fjármagna hann þá ber okkur að hlusta. Ekki skella við skollaeyrum. Jafnvel þó að fyrirtæki eigi í hlut og það geta verið fyrirtæki sem ganga vel. Okkur ber að hlusta og vera gagnrýnin. Beita gagnrýninni hugsun í allri umræðu um þessi mál. Þarna er ég að tala um þetta á almennum nótum en í þessu tiltekna máli finnst mér menn ganga mjög langt,“ sagði Bjarni við RÚV í gær.