Fyrrverandi eiginkona Ragnars Sigurðssonar, fyrrverandi landsliðsmanns í knattspyrnu, segir það rangt sem Magnús Gylfason, sem sat í landsliðsnefnd Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) árið 2016, sagði í skýrslu úttektarnefndar ÍSÍ sem birtist í gær um að hann hafi hitt hana og þáverandi eiginmann hennar á kaffihúsi daginn eftir að lögregla var kölluð að dvalarstað þeirra vegna grunsemda um heimilisofbeldi.
Í skýrslunni er haft eftir Magnúsi, sem sat í stjórn KSÍ og í landsliðsnefnd þangað til fyrir skemmstu, að hann hefði hitt Ragnar og eiginkonu hans á kaffihúsi daginn eftir að lögregla var kölluð til. Ragnar, sem er kallaður A í skýrslunni, hefði þá greint honum frá því sem hefði gerst um nóttina. „Ekkert hefði bent til þess á þeim fundi að eiginkona A hefði sætt ofbeldi eða að hún hygðist leggja fram kæru á hendur A. “
Í viðbrögðum við sem fyrrverandi eiginkona Ragnars hefur sent nefndinni vegna birtingu skýrslunnar segir konan að hún hafi ekki hitt Magnús og Ragnar á kaffihúsi þennan dag líkt né nokkurn annan og hún geti bent á fleiri en eitt vitni því til staðfestingar. „Líðan hennar hafi heldur ekki verið með þeim hætti að hún væri að hitta neinn á kaffihúsi daginn eftir og Magnús hafi engar forsendur haft til að draga ályktanir um hennar líðan. Þá hafi hún heldur ekki hitt A næstu daga.“
Í samræmi við þessar upplýsingar hefur skýrsla úttektarnefndarinnar verið uppfærð að þessu leyti.
Þegar nefndin ræddi við fyrrverandi eiginkonu Ragnars á meðan að hún vann að gerð skýrslunnar sem lýsti hún vonbrigðum sínum „með hvernig KSÍ hefði tekið á þessu máli“.
Átti sér stað 2016
Frásögn konunnar er eitt þeirra mála sem er til umfjöllunar í skýrslu úttektarnefndarinnar. Fréttablaðið hafði greint frá málínu í september síðastliðnum en atburðurinn áti sér stað í júlí 2016. Í frásögn Fréttablaðsins sagði að lögreglu hefði verið kölluð að heimili Ragnars og fyrrverandi eiginkonu hans eftir að hann „gekk þar berserksgang, braut allt og bramlaði og hafði í hótunum við þáverandi eiginkonu sína“.
Í frétt sem Vísir birti um málið í gær sagði að samkvæmt heimildum miðilsins hefði konan lýst atvikum þannig að Ragnar hefði tekið hana kverkataki og hrint henni í sófa.
Símtal frá manni sem hótaði að „brjóta báðar fætur“ Ragnars
Gunnar Gylfason, sem á þessum tíma var starfsmaður KSÍ og A-landsliðs karla, greindi úttektarnefndinni frá því í viðtali að hann hafi einnig fengið símtal frá manni sem hann þekkti ekki vegna málsins.
Samkvæmt Gunnari mun sá sem hringdi í hann hafa sagt honum frá því að Ragnar hafi einhverjum kvöldum áður gengið berserksgang í eða við íbúð sína og unnið skemmdir á henni og að nærstaddir hefðu verið óttaslegnir. „Gunnar hafi spurt manninn hvort hann hefði ekki hringt í lögreglu og hún komið á staðinn vegna þessa sem hann svaraði játandi. Þegar Gunnar spurði hvað hann ætti að gera í málinu fyrst lögreglan væri með með það snerist málið og maðurinn hafi sagt Gunnari að ef A gerði þetta aftur myndi hann láta brjóta báða fætur hans en það væri væntanlega ekki gott fyrir fótboltamann. Gunnar kvaðst í viðtali við nefndina alveg hafa séð A í ham og talið ólíklegt að þeim sem ætlaði að brjóta á honum fæturna yrði vel ágengt með það.“
Geir benti Magnúsi á almannatengil
Geir Þorsteinsson, sem á þessum tíma var formaður KSÍ, kvaðst í skýringum sínum til nefndarinnar minnast samtals við Magnús Gylfason í landsliðsnefnd um „leikmann sem virtist eiga í erfiðleikum í sínu sambandi“ og að lögreglan hefði verið kölluð til.
Geir kvað málið aldrei hafa verið „formlega á borði KSÍ og um einkalíf leikmannsins var að ræða“. Þá hafi það ekki tengst verkefnum KSÍ.
Í skýringum sínum til nefndarinnar sagði Geir að það kynni þó vel að vera að hann hefði bent Magnúsi á ónafngreindan almannatengli sem gæti hjálpað í tengslum við umfjöllun fjölmiðla. Sá hringdi meðal annars í Nadine Guðrúnu Yaghi, sem þá starfaði sem fréttamaður hjá Vísi og Stöð 2 og vann að umfjöllun um málið, og gerði lítil úr því.
Geir gekkst einnig við því að hafa sjálfur rætt við almannatengilinn, sem gengur undir nafninu Þ í skýrslunni. „Úttektarnefndin hefur við athugun sína fengið upplýsingar og gögn sem sýna fram á að félag sem Þ starfaði hjá sinnti verkefnum fyrir KSÍ á þessum tíma og fékk greiðslur frá sambandinu í umræddum mánuði.“