Einstaklingur sem var á kosningavöku Framsóknarflokksins um helgina hefur greinst með COVID-19. Í tilkynningu sem Framsóknarflokkurinn sendi gestum vökunnar í kvöld segir að einstaklingar útsettir fyrir smiti séu komnir í sóttkví og eru gestir vinsamlega beðnir um að vera vakandi fyrir einkennum COVID-19 og bregðast við með því að fara í sýnatöku.
Smitum hefur fækkað verulega hér á landi síðustu daga og vikur eftir að stór bylgja gekk yfir frá byrjun júlí. Að því tilefni var t.d. í dag tilkynnt að fólk með tengsl við Ísland þyrfti ekki lengur að framvísa neikvæðu COVID-prófi við komuna til landsins. Sóttvarnalæknir vonar hins vegar að í staðinn verði fundin leið til að skima alla sem hingað koma. Níu liggja á sjúkrahúsi með sjúkdóminn hér á landi, þar af þrír á gjörgæslu.
Allir gestir á kosningavöku Framsóknarflokksins, sem fram fór í sal CCP úti á Granda, voru beðnir að skrá sig með nafni, kennitölu og símanúmeri. Þeir sem það gerðu fengu í kvöld skilaboð um að gestur sem var í samkvæminu hefði greinst með COVID-19. Ekki var farið fram á hraðpróf en gestir voru engu að síður hvattir til að nýta sér slík próf í auglýsingu viðburðarins á Facebook.
Samkvæmt gildandi samkomutakmörkunum er hámarksfjöldi fólks í sama rými 500 með ákveðnum takmörkunum, bæði í opinberu rými og í einkarými, úti og inni. Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, innan- og utandyra, skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 1 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
Heimilt er að hafa allt að 1.500 manns í rými á viðburðum að uppfylltum viðbótarskilyrðum, þ.á m. neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi.
Hér má nálgast nýuppfærðar leiðbeiningar landlæknis um rými utan- og innanhúss vegna COVID-19. Leiðbeiningarnar eru byggar á gildandi reglugerð.