Nefnd Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) telur Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hafa verulegt svigrúm um hvaða siðferðilegu reglur eða viðmið sambandið setur um val á leikmönnum sem spila fyrir hönd KSÍ. KSÍ geti þannig ákveðið að leikmenn sem hafa hlotið dóm fyrir kynferðislegt eða kynbundið ofbeldi komi ekki til greina í landslið Íslands. Þá geti KSÍ einnig mælt fyrir um að hið sama gildi um leikmenn á meðan þeir hafa stöðu sakbornings í sams konar málum í refsivörslukerfinu.
Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar en niðurstöður hennar voru kynntar fyrr í dag.
Þá gæti KSÍ að öllum líkindum einnig sett sér það viðmið að ef fram kemur frásögn þolanda um brot leikmanns sem KSÍ telur trúverðuga komi hann heldur ekki til greina í landslið.
KSÍ hefur ekki frjálsar hendur varðandi persónuupplýsingar
„Að sama skapi er mikilvægt að hafa í huga að KSÍ hefur ekki frjálsar hendur um hvernig það aflar og vinnur með upplýsingar þar sem fram koma fullyrðingar eða grunsemdir um að einstaklingar, þar á meðal leikmenn, hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi.
Þegar KSÍ fær inn á sitt borð tilkynningar og ábendingar um refsiverða háttsemi á borð við kynferðisbrot verður sambandið að fylgja þeim lögum og reglum sem í gildi eru við meðferð slíkra upplýsinga. Ef meðferð upplýsinga fellur undir gildissvið persónuverndarlaga er KSÍ skylt að gæta að meginreglum laganna um að vinnslan sé sanngjörn og gagnsæ, og að upplýsingarnar séu áreiðanlegar. Þá er verulegur vafi um að KSÍ geti gert þeim sem koma til greina í landslið Íslands skylt að leggja fram upplýsingar um kærur úr málaskrá lögreglu eða samþykkja að KSÍ geti aflað slíkra upplýsinga,“ segir í skýrslunni.
Sambandið getur ekki unnið með nafnlausar upplýsingar
Það leiði af þessum reglum persónuverndarlaga að KSÍ geti að jafnaði ekki unnið með upplýsingar sem sendar eru inn nafnlaust eða í öðrum þeim búningi þar sem ekki sé unnt að kanna frekar hvert sannleiksgildi upplýsinganna er. Þá kunni að vera takmarkanir á því að hvaða leyti KSÍ gæti átt frumkvæði að opinberri umfjöllun um að leikmaður hafi ekki verið valinn í landsliðshóp vegna þess að hann hafi annaðhvort verið kærður fyrir kynbundið eða kynferðislegt ofbeldi eða að KSÍ hafi borist frásögn um slíkt brot.
Úttektarnefndin telur að draga megi þann lærdóm af viðbrögðum KSÍ við þeim frásögnum sem bárust um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi leikmanna að það hafi verulega þýðingu við meðferð þessara mála að ákveðin grundvallaratriði liggi fyrir í aðgengilegum reglum eða leiðbeiningum. Þannig telur nefndin mikilvægt að KSÍ geri upp við sig hvaða afleiðingar slíkar upplýsingar geti haft fyrir stöðu leikmanns og hvaða viðmið séu sett í því sambandi.
Yrðu að geta sannreynt upplýsingarnar
Að öðrum kosti sé óvíst í hvaða tilgangi KSÍ vinni með slíkar upplýsingar sem sé til þess fallið að gera viðbrögð sambandsins ómarkviss og ófyrirsjáanleg, þar sem bæði tilkynnanda og þeim sem tilkynningin beinist að sé það óljóst hvers vænta megi í framhaldinu. Slík meðferð persónuupplýsinga án skýrs tilgangs kunni enn fremur að orka tvímælis út frá persónuverndarlögum.
Nefndin telur einnig ljóst að ef KSÍ setur sér reglur eða viðmið um meðferð tilkynninga um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi verði að liggja fyrir hvaða kröfur verði gerðar til efnis upplýsinga til þess að KSÍ geti fjallað um málið í samræmi við áreiðanleikareglu persónuverndarlaga. Í því fælist þá að KSÍ myndi ekki taka til meðferðar upplýsingar sem sendar væru inn nafnlaust eða í öðrum þeim búningi að KSÍ hefði ekki tök á að staðreyna þær.