Guðni Bergsson mun hætta sem formaður KSÍ, samkvæmt heimildum Kjarnans. Nú stendur yfir fundur með starfsmönnum KSÍ þar sem greint er frá þessari ákvörðun.
Stjórn KSÍ fundaði stíft í gær frá hádegi fram á kvöld. Hún hittist síðan aftur í morgun.
Mikið hefur verið fjalla um KSÍ og formann sambandsins í fjölmiðlum eftir atburðarás síðustu daga og vikna þar sem frásagnir af kynferðisofbeldi og áreitni landsliðsmanna í knattspyrnu komu upp á yfirborðið. Þjarmað var að KSÍ í kjölfarið en sambandið neitaði ítrekað að slík mál hefðu „komið á þeirra borð“. Guðni sagði sjálfur við Fréttablaðið að þau hefðu ekki fengið neinar tilkynningar né ábendingar um slíkt inn á þeirra borð síðan hann tók við formennsku en hins vegar væru þau meðvituð um frásagnir á samfélagsmiðlum.
Ung kona steig hins vegar fram í viðtali við RÚV á föstudagskvöldið og greindi frá því að hún hefði orðið fyrir ofbeldi og grófri kynferðislegri áreitni af hálfu landsliðsmanns í knattspyrnu árið 2017. Hún sagði einnig frá samskiptum við KSÍ á sínum tíma og furðaði sig á að formaður KSÍ fullyrti að engin tilkynning hefði borist sambandinu um kynferðisbrot leikmanna. Konan sagði að lögmaður á vegum KSÍ hefði boðið henni þagnarskyldusamning sem hún hafnaði.
KSÍ neitaði síðar um kvöldið að umræddur lögmaður hefði verið á þeirra vegum en hún stóð föst á sínu.
Fram kom í fréttum RÚV í dag að Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kynfræðingur, og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, hefðu í dag átt klukkustundarlangan fund með konum úr stjórn KSÍ. Hanna Björg sagði í samtali við fréttastofu RÚV að þær hefðu verið beðnar um ráð um næstu skref sem stjórn KSÍ gæti tekið. Konurnar sátu fundinn fyrir hönd allrar stjórnarinnar.
KSÍ greinir frá ákvörðun Guðna á Twitter-síðu sinni og segir að frekari upplýsinga sé að vænta frá sambandinu síðar í dag.
Tilkynning: Guðni Bergsson hefur ákveðið að hætta sem formaður KSÍ. Frekari upplýsinga er að vænta frá KSÍ síðar í dag.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) August 29, 2021