Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni, sem hefst á föstudag, munu ekki tylla einu hné til jarðar fyrir alla leiki tímabilsins eins og þeir hafa almennt undanfarin tvö tímabil. Þetta var ákveðið í samráði stjórnenda deildarinnar við fyrirliða liðanna tuttugu, en ákveðið hefur verið að fara einungis niður á hné í ákveðnum umferðum deildarinnar.
Að fara niður á hnén hefur verið fastur liður fyrir flesta kappleiki í enska boltanum og raunar víðar í fótboltaheiminum frá því árið 2020, í kjölfar þess að George Floyd var drepinn af lögreglumanni í Bandaríkjunum.
Um er að ræða táknræna mótmælaaðgerð gegn kynþáttafordómum og til stuðnings við málstað hreyfingarinnar Black Lives Matter.
Að fara niður á hné var innblásið af gjörðum bandaríska NFL-leikstjórnandans Colin Kaepernick, sem ákvað að mótmæla mismunun á grundvelli kynþáttar með því að krjúpa og þeyta krepptum hnefa til himins er bandaríski þjóðsöngurinn var leikinn.
En af hverju að hætta núna?
Í sameiginlegri yfirlýsingu frá fyrirliðum liðanna í ensku deildinni segir að þeir hafi ákveðið að velja ákveðin augnablik til þess að krjúpa niður á hné yfir tímabilið, til þess að halda á lofti táknrænni samstöðu leikmanna gegn öllum kynþáttafordómum.
Samkvæmt því sem breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Richard Masters, framkvæmdastjóra ensku úrvalsdeildarinnar, hefur komið fram í samtölum deildarinnar við fyrirliða liðanna að leikmenn í deildinni óttist að slagkraftur skilaboðanna sem send eru með því að krjúpa niður á hné hafi farið þverrandi.
Nokkrir leikmenn, sem og heilu liðin í enska boltanum, hafa raunar þegar hætt að fara niður á hné fyrir leiki, einmitt af þeim ástæðum.
Wilfried Zaha, leikmaður Crystal Palace, hætti að fara niður á hné í febrúar árið 2021 og sagði á þeim tíma að það skipti engu máli hvort menn færu niður á hné eða ekki, sumir leikmenn yrðu áfram fyrir kynþáttaníði.
Á þeim tíma höfðu nokkur lið sem leika í næstefstu deild ensku knattspyrnunnar þegar hætt að krjúpa fyrir leiki.
Lið Derby County gerði það í kjölfar þess að einn leikmanna liðsins mátti þola kynþáttaníð á samfélagsmiðlum. „Að krjúpa á hné er ekki nóg“, sögðu leikmenn liðsins og starfsmenn í yfirlýsingu.
Strax í september 2020 hafði lið Queen Park Rangers einnig gefið það út að liðið myndi hætta að fara niður á hné, þar sem skilaboðin sem sýnd væri með þeirri gjörð væru orðin „útþynnt“ og „lítið annað en gott PR“ eins og Les Ferdinand, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu og fyrrverandi enskur landsliðsmaður sagði í yfirlýsingu á þeim tíma.
Farið niður á hnén í fimm umferðum
En langflestir leikmenn í efstu deildinni hafa kropið á hné fyrir hvern einasta leik allt frá því árið 2020. Leikmenn í enska úrvalsdeildinni munu, samkvæmt því sem fram kemur í frétt BBC, fara niður á hnén fyrir leiki í fimm umferðum af þeim 38 sem framundan eru á keppnistímabilinu.
Liðin munu krjúpa á hné í fyrstu umferðinni, þeirri síðustu, í leikjum sem leiknir verða á annan í jólum og svo einnig í umferðum í október og mars, sem tileinkaðar verða sérstöku átaki ensku deildarinnar gegn kynþáttafordómum. Einnig munu leikmenn fara niður á hné í bikarúrslitaleikjum.