Aflétting á samkomutakmörkunum á Englandi, sem fyrirhugað var að tæki gildi á mánudag eftir viku, verður frestað um fjórar vikur hið minnsta vegna aukins fjölda greindra smita. Samkvæmt tölum frá heilbrigðisyfirvöldum hafði fjöldi nýgreindra smita lækkað jafnt og þétt það sem af er ári og var 7 daga hlaupandi meðaltal fyrir fjölda daglegra smita komið niður í um tvö þúsund í byrjun maí. Síðan þá hefur fjöldinn leitað upp á við og á síðustu dögum hafa á bilinu sjö til átta þúsund einstaklingar greinst smitaðir af COVID-19 á degi hverjum.
Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, sagði á blaðamannafundi sem haldinn var síðdegis í dag að Bretar væru betur varðir gegn veirunni með hverjum deginum sem líður þökk sé bólusetningum. Enn væru þó stórir hópar óbólusettir. Hann sagði að stefnan væri sett á að þann 19. júlí næstkomandi yrðu allir Bretar yfir fimmtugu komnir með báða skammta bóluefnis sem og allir sem teljast til viðkvæmra hópa. Enn fremur sagði hann að allir fullorðnir yrðu búnir að fá fyrri skammt bóluefnis 19. júlí og að tveir þriðju fullorðinna yrðu búnir að fá báða skammta ef fram fer sem horfir.
Fram kom í máli forsætisráðherrans að vegna fyrri afléttingar hefði verið fyrirséð að smitum myndi fjölga á vormánuðum. Fjöldi smita hefði hins vegar verið meiri að undanförnu heldur en spár höfðu gert ráð fyrir og að hið svokallaða Delta afbrigði ylli áhyggjum. Því þyrfti að fresta boðaðri afléttingu. Betra væri að halda áfram af varkárni og fresta afléttingu samkomutakmarkana heldur en að þurfa að grípa til harðari aðgerða síðar meir, sagði Boris. Komast mætti hjá þúsundum dauðsfalla með því að halda í núgildandi takmarkanir samhliða frekari bólusetningum.
Verðandi brúðhjón geta vel við unað...
Boris tók sérstaklega fram að fleiri en 30 gestir mættu koma saman í brúðkaupsveislum en veislugestir þyrftu eftir sem áður að halda fjarlægð hver frá öðrum. Í umfjöllun BBC um samkomutakmarkanir er sagt frá því að fjöldi brúðhjóna hafi þurft að slá brúðkaupum og -veislum á frest vegna faraldursins og í sumum tilfellum oft.
Sérstök hagsmunasamtök sem starfa í þágu brúðkaupsgeirans, the UK Weddings Taskforce, metur það sem svo að um 50 þúsund brúðkaup hafi verið skipulögð á tímabilinu sem framlenging samkomutakmarkana nær til. Verðandi brúðhjón, sem og fólk í faginu, getur því tekið gleði sína á ný vegna nýjustu vendinga.
...en næturklúbbaeigendur ekki
Samkvæmt hagsmunasamtökum sem starfa í þágu næturlífsins, the Night Time Industries Association, hafa næturklúbbaeigendur varið milljónum punda í að búa sig undir fyrirhugaða opnun sem nú hefur verið slegin af borðinu. Samtökin hyggjast hefja málarekstur vegna þess að staðirnir geta ekki opnað að nýju eins og stefnt hafði verið að.
Þá eru krár, barir og veitingastaðir taldir fara á mis við um þrjá milljarða punda, rúmlega 500 milljarða króna, vegna framlengingar á núgildandi samkomutakmörkunum.