Þjóðhagslegur ávinningur af föngun og niðurdælingu kolefnis frá jarðvarmavirkjunum er metinn vera rúmir sex milljarðar króna til ársins 2030 í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar sem fjallar um áhrif aðgerða í loftslagsmálum. Árið 2019 losnuðu 166 þúsund tonn af kolefnisígildum frá jarðvarmavirkjunum sem er nærri sex prósent af þeirri losun sem Íslendingar bera beina ábyrgð á. Losunin hafði þá aukist um 40 prósent frá árinu 2005 Hagfræðistofnun reiknar með að hægt verði að binda 90 prósent þess magns árlega árið 2030, eða um 150 þúsund tonn.
Skýrsla Hagfræðistofnunar Áhrif aðgerða í loftslagsmálum – Kostnaðar- og ábatamat kom út í júlí en í henni er, líkt og nafnið gefur til kynna, mat lagt á kostnað og ábata ýmissa aðgerða sem finna má í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Í skýrslunni er mat lagt á 23 aðgerða af þeim 48 sem kynntar voru í aðgerðaáætluninni um mitt ár 2020. Ekki er lagt mat á 25 aðgerðir vegna þess að sumar þeirra eru enn í mótun eða í undirbúningi og áhrif annarra aðgerða sem ekki er lagt mat á eru óljós. Þess má geta að fjöldi aðgerða sem finna má í aðgerðaáætlun stjórnvalda eru í dag orðnar 50 talsins.
Kostar 25 dali að binda eitt tonn
Föngun kolefnis er meðal þeirra aðgerða sem taldar eru vera þjóðhagslega hagkvæmar – þar sem ábatinn er talinn vera meiri en kostnaður. Samkvæmt kostnaðar- og ábatamati Hagfræðistofnunar er kostnaður við kolefnisföngun á árunum 2019 til 2030 metinn tæpir 2,4 milljarðar. Ábatinn er metinn vera tæpir 8,7 milljarðar og nettó þjóðhagsleg áhrif því jákvæð um sem nemur rúmum 6,3 milljörðum króna.
Í þeim hluta skýrslunnar sem snýr að kolefnisföngun er fjallað um starfsemi fyrirtækisins Carbfix en samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins kostar um 25 Bandaríkjadali að binda tonn af koltvísýringi úr jarðgufu í lofthreinsistöð fyrirtækisins á Hellisheiði.
Ávinningurinn líkast til vanmetinn í aðgerðaáætlun
Umhverfisráðuneytið gerir ráð fyrir að árið 2030 verði hægt að binda 108 þúsund tonn af koltvísýringsígildum með aðferð Carbfix. Útreikningar Hagfræðistofnunar gera aftur á móti ráð fyrir að árið 2030 verði hægt að binda 90 prósent þess kolefnis sem losnaði frá jarðvarmavirkjunum árið 2019, um 150 þúsund tonn. „Alls verða bundin um 950 þúsund tonn frá 2021 til 2030 ef gert er ráð fyrir að vel gangi að beita aðferðinni í jarðgufuvirkjunum næstu árin,“ segir í skýrslunni.
Fram kemur í skýrslunni að verð á losunarheimildum hafi hækkað mikið á síðustu árum og hafi verið nærri 60 evrum á fyrri hluta ársins 2021. „Ef verðið endurspeglar mat á tjóni af útblæstrinum og aðeins kostar 25 Bandaríkjadali, eða rúmar 20 evrur, að binda kolefnistonnið (á gengi seint í maí 2021) borgar sig líkast til að binda meira með þessari aðferð en gert er ráð fyrir í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Eins og fram hefur komið í fyrri köflum má búast við að verð á losunarheimildum hækki á komandi árum,“ segir um kostnað við bindinguna í skýrslu Hagfræðistofnunar.