Full ástæða er til þess að fylgjast með fyrirhugaðri sölu þriggja stærstu fjarskiptafyrirtækjanna á eigin innviðum, að mati þjóðaröryggisráðs. Ráðið hefur fundað um málið og telur einnig ástæðu til að greina áhættuþætti sem tengjast því. Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar við fyrirspurn Kjarnans.
Mikilvægt að rýna í innviðasölu
Ráðið hefur áður tjáð sig um álitamál tengd sölu á innviðum, en samkvæmt nýlegri skýrslu þess lítur það svo á að það sé nauðsynlegt út frá þjóðaröryggissjónarmiði og allsherjarreglu að rýna í fjárfestingu í mikilvægum innviðum samfélagsins, ekki síst erlendri fjárfestingu. Þeirra á meðal eru innviðir í net- og fjarskiptakerfi, en ráðið telur að hætta geti skapast ef eigendur geta haft áhrif á virkni þeirra.
Stýrihópur á vegum forsætisráðuneytisins skilaði einnig skýrslu í vor um heildstæða löggjöf varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir, en í henni var ítarlega fjallað um rýni á fjárfestingum í innviðum. Samkvæmt henni er mikilvægt að tryggja að fjárfesting á mikilvægum sviðum í samfélaginu samræmist þjóðaröryggishagsmunum.
Þar er einnig minnst á að í nágrannaríkjum Íslands hafi meginstefið verið að stjórnvöld rýni í fjárfestingar á mikilvægum innviðum, þar á meðal fjarskiptainnviðum, sem gefa fjárfestum áhrifastöðu gagnvart þeirri starfsemi.
Nova í eigu fjárfesta frá Alaska
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um áður hafa þrjú stærstu fjarskiptafyrirtækin hérlendis öll kynnt fyrirætlanir sínar um sölu á svokölluðum „óvirkum“ fjarskiptainnviðum sínum til erlendra fjárfesta, sem þeir hyggjast svo ætla að leigja frá þeim.
Fyrr í vikunni samþykkti Samkeppniseftirlitið fyrirhugaðan samruna eignarhaldsfélaganna Nova Acquisition Holding og Platínum Nova. Með því verður Nova í eigu fjárfestingarfélagsins PT Capital Advisors, sem hefur höfuðstöðvar sínar í Alaska.
Með þessum eignarhlut hafa PT Capital Advisors því eignast helmingshlut í Sendafélaginu ehf. sem er í eigu Nova og Sýnar og sér um fjarskiptainnviði félaganna beggja. Nova hefur einnig undirritað kaupsamning um kaup bandaríska fjárfestingarfélagsins Colony Capital Inc. á öllu hlutafé í öðru dótturfélagi sínu, Nova Sendastaðir, sem sér um sendastaði, símamöstur og símaturna félagsins. Kaupin eru nú til yfirferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.
„Við viljum gjarnan selja“
Í ágúst í fyrra sagði Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar að verið væri að færa meiri rekstur og fjárfestingar í Sendafélagið. Einnig sagði hann að til stæði að bjóða hluta farsímakerfisins til sölu, þar sem alþjóðlegir aðilar hefðu mikinn áhuga á fjárfestingum í innviðum símfyrirtækja.
Í lok mars tilkynnti fyrirtækið svo að skrifað hefði verið undir samning um sölu og endurleigu á þessum innviðum og myndi hagnaðurinn af henni nema 6,5 milljörðum króna. Einnig var minnst á samninginn í síðasta árshlutauppgjöri Sýnar sem kom út í vikunni, en hann á eftir að fá samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fjárfestarnir voru ekki nefndir, en Viðskiptablaðið hafði áður greint frá því að um væri að ræða sjóð í stýringu bandaríska framtakssjóðsins Digital Colony.
Í viðtali við Fréttablaðið í maí sagði Heiðar að Sýn gæti selt enn fleiri innviði fyrir milljarða á þessu ári, og nefndi þar sérstaklega IPTV-kerfið í kringum myndlyklana og landsdekkandi burðarnet. „Við viljum gjarnan selja og það eru kaupendur sem vilja kaupa,“ bætti hann við.
Skoða breytingar á eignarhaldi Mílu
Um svipað leyti og Sýn greindi frá aðskilnaði innviða og þjónustu tilkynnti Síminn flutning eigin farsímadreifikerfis og IP-nets til Mílu, innviðahluta félagsins. Þessi flutningur myndi skerpa á hlutverki Símans sem þjónustufyrirtækis og Mílu sem innviðafyrirtækis, samkvæmt fjárfestakynningu. Félagið bætti einnig við að verið væri að skoða hvort aðskilja ætti fjármögnun Mílu frá fjármögnun Símans.
Kjarninn greindi svo frá því í fyrrahaust að fjárfestar höfðu lagt fram óformlegar fyrirspurnir til Símans um möguleg kaup á Mílu. Hins vegar sagði fyrirtækið að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um söluna.
Í síðasta árshlutauppgjöri Símans kemur einnig fram að fjárfestingarbankinn Lazard ásamt Íslandsbanka hafi verið ráðnir til að ráðleggja um stefnumarkmið og framtíðarmöguleika Mílu. Einnig kæmi til greina að skoða breytingar á eignarhaldi Mílu.