Héraðssaksóknara hefur verið veitt heimild til húsleitar á starfsstöðvum Eimskipafélags Íslands hf. og Eimskip Ísland ehf. á grundvelli úrskurðar héraðsdóms. Frá þessu greindi Eimskip í tilkynningu til Kauphallarinnar kl. 14 í dag.
Í tilkynningu Eimskips segir að embættið hafi „óskað eftir afmörkuðum gögnum vegna sölu skipanna Goðafoss og Laxfoss á árinu 2019 sem Umhverfisstofnun kærði til héraðssaksóknara 2020“ og að engir einstaklingar hafi réttarstöðu í málinu.
Eimskip segist í tilkynningu sinni vera að vinna að því að afla þeirra upplýsinga sem héraðssaksóknari hefur óskað eftir. Málið kom upp á yfirborðið í umfjöllun Kveiks í september í fyrra.
Þá var sagt frá því að Eimskip hefði selt skipin tvö til fyrirtækis sem heitir GMS, og sérhæfir sig í að vera milliliður sem kaupir skip til að setja þau í niðurrif í Asíu þar sem kröfur um aðbúnað starfsmanna og umhverfisáhrif niðurrifsins eru mun lakari en í Evrópu.
Þar eru skip oft rifin í flæðarmálinu og ýmis spilliefni látin flæða út í umhverfið. Þá vinna starfsmenn þar við svo erfiðar aðstæður að þær hafa verið kallaðar mannréttindabrot.
Ein helsta ástæðan fyrir því að skip eru flutt á þessar slóðir, í umræddu tilviki í skipakirkjugarð í Alang á Indlandi, er sú að það er greitt fjórum sinnum meira fyrir skip á leið í niðurrif þar en í Evrópu. Það útskýrist af því að í Evrópu þarf að greiða laun samkvæmt kjarasamningum, viðhalda öryggi starfsmanna á vinnustöðum og mæta löggjöf frá árinu 2018 sem leggur bann við því að skip yfir 500 brúttótonnum séu rifin annars staðar en í vottuðum endurvinnslustöðvum.
Allt að 25 milljóna króna sektarheimild
Umhverfisstofnun kærði meint brot Eimskips á lögum um meðhöndlun úrgangs til héraðsaksóknara og fjallað var um það fyrir rösku ári síðan hvernig málið allt rímar ekki við þær áherslur um samfélagslega ábyrgð í fjárfestingum sem stærstu lífeyrissjóðir landsins, sem margir eru á meðal stærstu eigenda Eimskips, hafa undirgengist.
„Eins og kom fram í tilkynningum frá félaginu þann 25.9.2020 og 30.9.2020 þá telur félagið að farið hafi verið eftir lögum og reglum í söluferlinu á skipunum. Eimskip þykir málið mjög leitt og lítur það alvarlegum augum enda leggur félagið, stjórnendur þess og starfsfólk mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð í störfum sínum og hefur lengi hugað að umhverfismálum í sinni starfsemi,“ segir í tilkynningunni frá Eimskip.
Þar segir einnig að félaginu hafi verið tjáð að til rannsóknar sé hvort háttsemi félagsins „geti varðað við lög númer 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerða setta á grundvelli þeirra.“
„Félaginu er ómögulegt að leggja mat á möguleg fjárhagsleg áhrif en ákvæði laganna hafa að geyma heimildir til beitingu viðurlaga án þess að vísað sé til sérstakra fjárhæða. Eina fjárhæðin sem lögin gefa vísbendingar um er heimild Umhverfisstofnunar til að beita lögaðila stjórnvaldssektum að fjárhæð allt að 25 milljónir króna,“ segir í tilkynningu félagsins.