„Þetta er martröð sóttvarnaryfirvalda. Þetta er andstaðan sem breiðir smitin út og er ekki samvinnuþýð.“
Það er yfirlæknirinn í sveitarfélaginu Gran sem lætur þessi orð falla í samtali við héraðsfréttablaðið Hadeland. Þar var hann að tala um þá óvenjulegu og hættulegu stöðu sem upp hefur komið í kjölfar andláts sextugs karlmanns á þriðjudag. Eftir andlátið var hann greindur með COVID-19 en hafði, að því er næst verður komist, verið með einkenni í tvær vikur. Á því tímabili bauð hann fólki í tvígang heim til sín. Yfirlæknirinn segir málið verða kært til lögreglu.
Það gerir hann ekki síst vegna þess að hann hefur gengið á veggi í smitrakningu í kringum manninn. Sömu sögu er að segja úr nágrannasveitarfélaginu Javneker. Fólk hefur gefið smitrakningarteyminu vísvitandi rangar upplýsingar. „Við höfum ekki náð að fá upplýsingar um hver var í samskiptum við hvern og þær upplýsingar sem við höfum fengið eru rangar,“ segir Marthe Bergli, yfirlæknir í Jevnaker. Hún segir ástæðuna vera þá að um sé að ræða fólk sem telji kórónuveiruna einfaldlega ekki til.
Yfirvöld í Gran hafa brugðið á það ráð að birta tilkynningu á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem allir sem sóttu heimili hins sýkta vikuna fyrir páska eru beðnir að fara í skimun. Þau segjast vita að þar hafi fólk safnast saman í tvígang en vita ekki hversu margir voru þar.
Allar samkomur eru bannaðar í sveitarfélaginu en að því er fram kemur í frétt norska ríkissjónvarpsinser talið að um 20 manns hafi komið saman í hvert sinn. Á vefsíðu sem hinn látni hélt úti kemur fram að hann hafi haldið nokkrar samkomur á bóndabýli sínu og þar kemur einnig fram að yfirskrift einnar þeirra í marsmánuði hafi verið Donald Trump. Þann 12. mars, ári eftir að til fyrstu samkomutakmarkana var gripið í Noregi, var yfirskrift samkomu „valdníðsla“.
Frá því um miðjan febrúar hefur smitum farið hratt fjölgandi sem og innlögnum á sjúkrahús og gjörgæsludeildir þeirra í Noregi. Í dag eru 298 manns á sjúkrahúsi og 61 í öndunarvél. Hið breska afbrigði veirunnar er nú nær það eina sem greinist í landinu. 256 ný smit greindust í gær í höfuðborginni Ósló, nokkuð fleiri en að meðaltali dagana á undan. Mjög breytilegt er milli hverfa hver útbreiðslan er.
Smitrakning á Íslandi hefur almennt gengið vel en á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær sagði Jóhann Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymisins, að dæmi væru um að fólk gæfi ekki nægar eða réttar upplýsingar. Hann sagðist telja að í einhverjum tilvikum hefði verið hægt að koma í veg fyrir smit ef upplýsingarnar sem fólk gaf hefðu verið betri. „Þá hefðum við geta gripið fyrr inn í. Við höfum séð það að það skiptir alveg gríðarlega miklu máli.“ Hann ítrekaði að árangurinn hér á landi mætti rekja til samtakamáttar allra og hvatti hann alla til að vinna áfram með yfirvöldum í þeim efnum.