Júlímánuður var um mestallt norðan- og austanvert landið sá hlýjasti sem vitað er um frá upphafi mælinga. Um þetta fjalla tveir veðurfræðingar, Einar Sveinbjörsson og Trausti Jónsson í færslum á ýmist Facebook- eða bloggsíðum sínum.
Einar skrifar að í júlí hafi meðalhitinn á Akureyri verið 14,3°C og að hærri mánaðarhiti hafi aldrei mælst. Trausti segir ekki ólíklegt að sólskinsstundamet verði einnig slegið á Akureyri og að sama megi segja um Mývatn.
„Meðalhiti eins mánaðar hefur aldrei farið yfir 14 stig í mælingasögunni,“ skrifar Einar og að „klárlega“ sé um Íslandsmet að ræða, Trausti skrifar að meðalhitinn hafi verið meiri en 14 stig á fáeinum veðurstöðvum, „en ekki er vitað um slíkt og þvílíkt hér á landi áður í nokkrum mánuði“.
Trausti skrifar á bloggsíðu sína í gærkvöldi að nýliðinn júlímánuður hafi verið sérlega hlýr. Þótt um met sé að ræða á norðan- og austanverðu landinu sé þó vitað um hlýrri júlímánuði á stöku stöðvum – en nokkuð á misvíxl líkt og Trausti orðar það. Á Egilsstöðum var júlí 1955 t.d. lítillega hlýrri heldur en nú.
Traustir skrifar að meðalhiti í byggðum landsins í heild reiknist 11,7 stig. „Það er það næstmesta sem við vitum um í júlí, í þeim mánuði 1933 reiknast meðalhitinn 12,0 stig.“ Hann bendir hins vegar á að í raun er varla marktækur munur á þessum tveimur tölum vegna mikilla breytinga á stöðvakerfinu. „Við vitum af einum marktækt hlýrri ágústmánuði, árið 2003, en þá var meðalhiti á landinu 12,2 stig og í ágúst 2004 var jafnhlýtt og nú (11,7 stig).“
Meðalhámarkshiti í nýliðnum júlí var einnig hærri en áður, 20,5 stig á Hallormsstað. Hæsta eldri tala „sem við hiklaust viðurkennum“, skrifar Trausti, er 18,7 stig í Hjarðarland í júlí 2008.
„Það er líka óvenjulegt að hiti komst upp fyrir 20 stig einhvers staðar á landinu alla daga mánaðarins nema einn (30 dagar). Er það mjög óvenjulegt, mest er vitað um 24 slíka daga í einum mánuði (júlí 1997) síðustu 70 árin rúm.“
Uppgjör Veðurstofunnar með endanlegum hita-, úrkomu- og sólskinsstundatölum mun að sögn Trausta birtast síðar í vikunni.