Nýjasta sköpunarverk danska listamannsins Jens Haaning hefur vakið reiði meðal stjórnenda nútímalistasafnsins í Álaborg, þar sem verkið er til sýnis. Ástæðan er einföld: listaverkið sem um ræðir er hreinn og klár þjófnaður og ekki í takt við það sem starfsfólk listasafnsins hafði átt von á. Listamaðurinn hirti 534 þúsund danskar krónur, sem samsvarar tæpum ellefu milljón íslenskra króna, sem safnið hafði lánað listamanninum. Seðlarnir átti listamaðurinn að nota til þess að endurgera eldri listaverk.
Listaverkin sem til stóð að Jens myndi skila af sér áttu annars vegar að sýna meðaltekjur Dana og hins vegar meðaltekjur Austurríkismanna. Líkt og áður segir er um endurgerð á eldri verkum listamannsins að ræða, en hann límdi peningaseðla sem samsvara meðaltekjum á striga. Peningarnir sem safnið lánaði listamanninum áttu að vera nýttir í þeim tilgangi en þegar starfsfólk listasafnsins hafði tekið á móti listaverkunum kom í ljós að í römmunum voru engir peningar. Jens Haaning sendi þeim nýtt listaverk sem hann hefur gefið lýsandi nafn: „Take the Money and Run“.
Danska ríkisútvarpið fjallar um málið en Jens var til viðtals í morgunþættinum Morgen á P1 danska ríkisútvarpsins á dögunum, ásamt safnstjóranum Lasse Andersson. Í viðtalinu sagði Jens að sá gjörningur að láta rúmlega hálfa milljón danskra króna hverfa væri listaverkið. Líkt og áður segir lánaði safnið honum þetta fé og til stóð að hann myndi skila peningunum að sýningu lokinni en það ætlar listamaðurinn ekki að gera. „Nei, það geri ég ekki. Verkið er það að ég hef tekið þessa peninga þeirra,“ sagði Jens í útvarpsþættinum.
Mótmælir lágum launum
Verkið er hluti sýningarinnar Work it Out sem nú stendur yfir í nútímalistasafninu í Álaborg. Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni beina sjónum að sjálfvirknivæðingu, streitu, skilvirkni, skrifræði og aukinni tæknivæðingu en sýningin fjallar fyrst og fremst um atvinnu, framtíð hennar og tengingu mannsins við vinnuna.
„Hvað er vinna og hvers vegna vinnum við? Getum við þegar fram líða stundir skapað skilvirkara vinnuumhverfi sem gagnast bæði einstaklingnum sem og samfélaginu?“ eru á meðal þeirra spurninga sem varpað er fram í sýningartexta á vef safnsins. Þar segir einnig að nú sé ef til vill kominn tími til þess að endurhugsa hvernig og hversu mikið við vinnum.
Í viðtalinu sagði Jens hafa tekið ákvörðun um að skapa verk sem leggur út af þema sýningarinnar í stað þess að endurskapa verk sem talar inn í samtíma sem sé löngu liðinn. Þetta hafi hann gert til þess að mótmæla þaum launum sem honum stóð til boða frá safninu, þau hafi einfaldlega verið of lág.
Segir verkið ekki vera stuld heldur brot á samningi
Lasse Andersson safnstjóri sagði í áðurnefndu viðtali að Jens hefði með Take the Money and Run skapað áhugavert listaverk og að það rími vel við umfjöllunarefni sýningarinnar. „En þetta er ekki í samræmi við það sem við höfðum samið um,“ sagði Lasse og bætti því við að hann ætti ekki rétt á því að halda peningunum. Spurður að því hvort að málið myndi rata til lögreglunnar ef að Jens skilaði ekki peningunum við sýningarlok í janúar á næsta ári sagði Lasse ekki ætla að tjá sig um það.
Jens ítrekaði að hann ætlaði ekki að skila peningunum og hafnaði því að um stuld væri að ræða. „Þetta er ekki þjófnaður, þetta er brot á samningi og brot a samningi er hluti listaverksins,“ sagði Jens.
Vakti athygli myndlistargagnrýnanda Morgunblaðsins á síðustu öld
Þetta er ekki fyrsti gjörningur Jens Haaning sem hverfist um undanskot. Þannig rataði gjörningur hans inn í umfjöllun Braga Ásgeirssonar, sem var myndlistargagnrýnandi hjá Morgunblaðinu í áratugi, sem birtist í blaðinu árið 1998. Bragi hafði þá gert sér ferð til Berlínar til þess að taka púlsinn á myndlistarsenunni þar í borg. Meðal þess sem vakti athygli hans var gjörningur Jens Haaning en í gjörningnum nýtti listamaðurinn sér skattalöggjöf svo að eftir var tekið.
Janes setti á laggirnar ferðaskrifstofu í listhúsi og seldi gestum sýningarinnar flugmiða undir markaðsverði. Þannig var mál með vexti að á þeim tíma voru skattar á listir átta prósentum lægri en skattar á neysluvörur í Þýskalandi. Bragi heitinn staðsetti þennan gjörning Danans „eitthvað mitt á milli tilbúinnar listar, „ready made“, og skattsvindls.“