Mál hvítrússneska spretthlauparans, sem þvinga átti til heimfarar af Ólympíuleikunum í Tókýó, þykir til marks um það tangarhald sem Alexander Lukashenko forseti hafi á öllum kimum samfélagsins og að íþróttahreyfingin sé þar engin undantekning.
Hann hefur stjórnað með harðri hendi frá árinu 1994 er hann settist á forsetastól. Undir hans stjórn voru fjöldamótmæli í kjölfar vafasamra úrslita í forsetakosningunum á síðasta ári brotin á bak aftur með ofbeldi. Þekktir einstaklingar sem tóku þátt í mótmælunum hafa verið látnir finna fyrir því. Í þeirra hópi voru afreksíþróttamenn sem voru fangelsaðir, reknir úr landsliðum og sviptir styrkjum frá hinu opinbera.
Hin 24 ára gamla Krystsina Tsimanouskaya hefur nú fengið vegabréfsáritun af mannúðarástæðum í Póllandi og hefur þegar sótt um hæli þar í landi. „Pólland mun gera hvað sem það getur til að styðja við hana á íþróttabrautinni,“ sagði aðstoðarutanríkisráðherra Póllands í dag. Hún er nú í pólska sendiráðinu í Japan en þess er vænst að hún fljúgi til Póllands í næstu viku. Hún er sögð hafa það ágætt miðað við það álag sem hún hefur þurft að þola síðustu daga.
Eiginmaður hennar, Arseniy Zdanevich, er flúinn frá Hvíta-Rússlandi. Hann er nú staddur í Kiev í Úkraínu. „Mér datt ekki í hug að þetta yrði svona alvarlegt,“ sagði hann í samtali við Sky-fréttastofuna. „Ég tók ákvörðun um að flýja án þess að hugsa mig tvisvar um.“ Hann stefnir að því að hitta eiginkonu sína í Póllandi á næstu dögum.
Exclusive: Belarusian athlete Krystsina Tsimanouskaya said she was taken to the airport against her wishes to board a flight back home after she publicly complained about national coaches at the Tokyo #Olympics. @gabrielletf reports https://t.co/jICTnn3L4p pic.twitter.com/656Yc9nS93
— Reuters (@Reuters) August 1, 2021
Krystsina Tsimanouskaya segist hafa verið flutt nauðug út á flugvöll eftir að hafa gagnrýnt þjálfara sinn og sagst óttast um öryggi sitt. Hvítrússneska ólympíunefndin segir hins vegar að ákveðið hafi verið að taka hana úr liðinu vegna andlegrar vanheilsu hennar.
Til stóð að Tsimanouskaya keppti í 200 metra hlaupi í dag, mánudag. Um helgina var henni hins vegar tilkynnt að hún ætti að keppa í 4 x 400 boðhlaupi með mjög stuttum fyrirfara eftir að í ljós kom, að því er virðist, að gögn úr lyfjaprófum hlaupara sem skráðir voru til leiks í því reyndust ekki til staðar. Þessu andmælti hún og sakaði þjálfarann um vanrækslu.
Í gær, sunnudag, var Tsimanouskaya skyndilega tekin úr keppni og gefinn klukkutími til að pakka niður áður en hún var flutt út á flugvöll. Þar neitaði hún að fara um borð í vélina sem átti að flytja hana aftur til Minsk, höfuðborgar Hvíta-Rússlands. Þess í stað bað hún um lögregluvernd og sagðist ætla að sækjast eftir hæli á Vesturlöndum. Hún var að því er virðist af fréttum í nánu sambandi við alþjóða ólympíunefndina sem og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna á meðan þessu stóð og fór í kjölfarið í fylgd lögreglu á hótel á flugvellinum þar sem hún dvaldi í skjóli yfir nótt. Í morgun, mánudag, fór hún svo í pólska sendiráðið.
Belarusian athlete Krystsina Tsimanouskaya walked into Poland's embassy in Tokyo a day after refusing to board a flight against her wishes. The 24-year-old would seek asylum in Poland, a member of the local Belarus community who was in touch with her said https://t.co/P7Z9Rjhx0i pic.twitter.com/gCiJ5bdoa0
— Reuters (@Reuters) August 2, 2021
Birtar hafa verið hljóðupptökur þar sem talið er að heyra megi þjálfarann og menn úr hvítrússnesku ólympíunefndinni hóta Tsimanouskaya. „Ef þú vilt einhvern tímann keppa aftur fyrir Hvíta-Rússland þá skaltu hlusta á það sem ég mæli með: Farðu heim, til foreldra þinna eða hverra sem er,“ heyrist sagt á upptökunni og talið er vera rödd manns úr ólympíunefndinni. „Slepptu þessu. Ef ekki, þeim mun meira sem þú berst um, þá verður það eins og fluga föst í kóngulóarvef. Því meiri vef sem hún spinnur því meiri verður flækjan.“
Nokkur Evrópulönd hafa boðist til að taka Tsimanouskaya undir sinn verndarvæng og veita henni hæli. Meðal þeirra fyrstu til að gera það voru Pólland og Tékkland en stjórnvöld þar í landi hafa verið mjög gagnrýnin á stjórn Lukashenkos. Hvítrússneskur blaðamaður segir í samtali við The Guardian að hún hafi einnig íhugað að sækja um vernd í Austurríki eða Þýskalandi. Hótelnóttinni eyddi hún svo í að gera upp huga sinn. „Við vitum að dyr margra Evrópuríkja stóðu opnar fyrir henni en á endanum ákvað hún að fara til Varsjár.“
Framkvæmdastjórn ESB hefur fagnað þeirri ákvörðun Póllands að veita Tsimanouskaya vernd. Framkvæmdastjóri utanríkismála hjá sambandinu, segir að tilraun Hvít-Rússa til að færa spretthlaupakonuna nauðuga úr landi sé „enn eitt dæmið um grimmilega undirokun stjórnar Lukashenkos“.
Yfir sextíu hvítrússneskir íþróttamenn og þjálfarar hafa misst störf sín eða stöður eftir að hafa tekið þátt í mótmælunum í fyrra. Fleiri en tuttugu hafa verið handteknir, m.a. þekktur körfuboltaleikmaður. Sérstakur stuðningshópur íþróttamannanna hefur verið stofnaður og segir talsmaður hans í samtali við BBC að Tsimanouskaya óttist um líf fjölskyldu sinnar í Hvíta-Rússlandi. „Það er hennar helsta áhyggjuefni núna.“