Allt að 100 áhorfendur mega sækja íþróttaviðburði hér á landi þegar tilslakanir á opinberum sóttvarnaráðstöfunum taka gildi á fimmtudag. Þetta er breyting á því sem tilkynnt var fyrr í dag, en þá sagði í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu að íþróttakeppni yrði leyfð á ný, án áhorfenda.
Það var í samræmi við tillögu frá sóttvarnalækni, sem hafði lagt til við heilbrigðisráðherra í nýjasta minnisblaði sínu um tilslakanir að íþróttunum yrði leyft að fara aftur af stað, en án áhorfenda.
Fyrstu fréttir af þessari tilhögun vöktu nokkra gagnrýni í íþróttasamfélaginu, en mörgum þótti það skjóta skökku við að allt að 100 áhorfendum yrði heimilt að sitja í hverju sóttvarnahólfi í leikhúsum á sama tíma og ekki einn einasti áhorfandi mætti sjá íþróttakeppnir berum augum, óháð því hvort þær færu fram innanhúss eða utanhúss.
„Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna með og án snertinga í öllum íþróttum heimilar með allt að 100 áhorfendum sem skulu skráðir í sæti. Hámarksfjöldi fullorðinna verður 50 manns en fjöldi barna fer eftir sömu takmörkunum og í skólastarfi,“ segir nú í uppfærðri tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.