Hvati er íslensku regluverki til að fara í vatnsaflsvirkjanir undir 10 MW sem vekur spurningar um hvort það skili farsælum og réttum ákvörðunum um ráðstöfun takmarkaðra gæða. „Ég hef efasemdir um að svo sé. Þegar við ákveðum að fórna náttúruperlu í þágu orkuframleiðslu, hlýtur að vera forgangsatriði að sú ákvörðun skili samfélaginu sem bestri nýtingu viðkomandi orkulindar.“
Þetta sagði Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, í erindi á Samorkuþingi í fyrradag. Töluverður fjöldi virkjana af þessari stærðargráðu, rétt undir þeim mörkum sem þarf til svo að áformin fari í ferli rammaáætlunar, eru á teikniborðinu. Að minnsta kosti fimm slíkar eru fyrirhugaðar á Austurlandi.
„Við verndum ekki og virkjum sama fossinn,“ sagði hún og spurði hvað væri þá til ráða? Svarið felst að hennar sögn í því að beita fagmennsku og nýta það sem skipulagsfræði, arkitektúr og umhverfismat bjóða upp á, til að greina möguleika og áhrif. Einnig þurfi að eiga samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila um framtíðarsýn fyrir viðkomandi svæði og leiðir til að vinna að þeirri framtíð.
Einnig þurfi að hafa regluverk sem styðji við þau markmið sem eigi að ná. „Til að mynda, ef sátt er um að virkja á tilteknu svæði í þágu orkuskipta, þá þurfa að vera leiðir til að tryggja að orkan rati í reynd til þeirra nota.“ Þannig er það ekki í dag.
Markmið um kolefnishlutleysi þarf að mati Ásdísar Hlakkar að vera leiðandi í allri ákvarðanatöku um landnýtingu. Sama gildi um áherslu á nýtni og hringrásarhugsun. „En þótt þessi mikilvægu markmið séu sett í forgrunn í skipulagsmálum, þýðir það ekki að aðrir hagsmunir og sjónarmið séu látin lönd og leið. Við þurfum áfram sem endranær að miða alla skipulagsgerð að því að skapa gott byggt umhverfi sem heldur vel utan um líf og tilveru allra í samfélaginu, þar sem tillit er tekið til ólíkra þarfa íbúa og atvinnulífs, auk þess að gæta líffræðilegrar fjölbreytni, landslagsverndar og fjölda annarra gæða og hagsmuna.“
Fleira en orkuskipti þarf til
Ásdís Hlökk sagði að beita þyrfti mörgum og ólíkum samstilltum aðgerðum til að miða að ákveðnu marki. „Þannig er til dæmis mikilvægt að einblína ekki á orkuskipti í samgöngum, heldur jafnframt að tryggja skýra áherslu á samþætt byggðar- og samgönguskipulag, með þéttri, blandaðri byggð, sem ýtir undir virka ferðamáta, göngu og hjólreiðar, og almenningssamgöngur.“ Með því náist ekki aðeins samdráttur í losun frá samgöngum, heldur einnig margvíslegur annar dýrmætur ávinningur, svo sem í bættum loftgæðum, aukinni hreyfingu, skemmtilegra bæjarlífi og minni þörf á fjárfestingum í byggingum og landi undir bíla og samgöngumannvirki.
Að mati Ásdísar Hlakkar er þörf á að yfirfara og rýna lög um rammaáætlun líkt og ríkisstjórnin stefnir að samkvæmt stjórnarsáttmála. „Í landi með gnótt tækifæra til orkunýtingar, en sem býr jafnframt yfir miklum verðmætum sem felast í landslagi og ósnortinni náttúru, er sérstaklega mikilvægt að lagaumgjörð og stjórnsýsla skili samfélaginu sem bestum ákvörðunum um þessi efni.“
Nokkuð „brokkgeng vegferð“ rammaáætlunar á undanförnum árum, eins og Ásdís Hlökk orðar það, sem og að það er enn ólent hvernig vindorkunni verði best fyrir komið í regluverki og stefnu stjórnvalda, gefur að hennar sögn tilefni til markvissrar og heildstæðrar rýni á því sem virkar og því sem bæta má í þeirri löggjöf.
„Við erum vel menntuð þjóð með sterka innviði, í landi sem er sprúðlandi af náttúrugæðum og margvíslegum tækifærum. Okkur á að geta farnast vel við þá skipulagsgerð og ákvarðanatöku um landnýtingu sem framundan er í orku- og veitumálum.“