Á annan tug Evrópuríkja eru ýmist byrjuð eða í startholunum að gefa fullbólusettum örvunarskammta þótt Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópu mæli almennt gegn slíku. Ísland er í þessum hópi og hér hafa um 40 þúsund fullbólusettir einstaklingar fengið aukaskammt. Sóttvarnalæknir segir hins vegar við Kjarnann að deila megi um hvort kalla eigi þessar bólusetningar „örvun“ eða viðbót“
þar sem hóparnir sem þær eru að fá séu annars vegar Janssen-þegar (sem fengu upprunalega eina sprautu) og eldra fólk. „Við vitum að þeir sem fengu Janssen, eldra fólk og ónæmisbældir einstaklingar mynduðu ekki nægilega mikið af mótefnum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir spurður hvort að óyggjandi gögn um ávinning af örvun bólusetninga liggi fyrir. Hann segir erlendar rannsóknir sýna að örvunarbólusetning örvi mótefnamyndun hjá fólki en að hins vegar hafi ekki liðið nægilega langur tími til að svara því hvort að hún endurspeglist svo í raunverulegri vernd.Sóttvarnarstofnun Evrópu (ECDC) segir í nýjustu tilmælum sínum mikilvægt að gera greinarmun á örvunar- og viðbótarskömmtum. Viðbótarskammtar séu gefnir þeim sem eru með veikt ónæmiskerfi (hrumt eldra fólk, líffæraþegar og fólk með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma) sem svöruðu ekki bólusetningu fyllilega. Örvunarskammtar séu hins vegar gefnir almennt þegar vernd bóluefnis dvíni. Stofnunin segir að eins og er bendi rannsóknir til þess að vörn bólusetninga sé mikil gegn alvarlegum veikindum af COVID-19 og dauða og því sé „ekki brýn þörf á örvun fullbólusettra einstaklinga almennt“.
Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala, segir í grein í nýjasta hefti Læknablaðsins að fyrirliggjandi gögn um örvun bólusetninga meðal ónæmisbældra (sem eigi við um 3 prósent íslensku þjóðarinnar) séu nokkuð afgerandi en ekki rannsökuð til fulls. Hins vegar séu takmarkaðar niðurstöður fyrirliggjandi um árangur örvunarskammts hjá annars heilbrigðu fólki með tilliti til aukinnar verndar gegn delta-afbrigðinu. „Megináherslan ætti því að miðast við að ná til sem flestra til bólusetningar, með sérstaka áherslu á örvunarskammt hjá ónæmisbældum,“ skrifar hann.
Arnar Pálsson erfðafræðingur talaði á sömu nótum í ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans um örvunarbólusetningar sem birt var um helgina. „Ef við viljum hámarka verndina sem fæst út úr hverjum bóluefnaskammti þá er áhrifaríkast að bólusetja sem flesta með tveimur skömmtum áður en farið er að örva með þeim þriðja,“ sagði hann.
Þetta er í samræmi við ábendingar WHO sem hefur hvatt ríki heims til að fresta almennum örvunarbólusetningum, að minnsta kosti þar til í október, svo efla megi bólusetningarherferðir hjá þeim fátækari. WHO hefur ítrekað sent út ákall um að hátekjuríki, sem flest hafa þegar bólusett meirihluta sinna borgara, gefi meira bóluefni inn í COVAX, alþjóðlegt samstarf sem stofnað var snemma í faraldrinum til að tryggja jafna dreifingu bóluefna. Tugir ríkja skuldbundu sig til þátttöku en efndirnar hafa látið á sér standa. Markmiðið var að milljarði gjafaskammta yrði veitt inn í COVAX fyrir ágústlok en niðurstaðan var í kringum 99 milljónir.
Ísland hefur gefið 125.726 umframskammta af bóluefni AstraZeneca inn í COVAX og þegar vettvangurinn fer að taka við bólefni Janssen verða samkvæmt upplýsingum úr utanríkisráðuneytinu 153.500 skammtar af því gefnir. „Ekki liggur fyrir hverjir viðtakendur bóluefnanna verða en þau fara þangað sem þörfin er mest,“ segir Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, við Kjarnann.
Ísland hefur auk þess varið rúmum milljarði króna til að tryggja þróunarríkjum aðgang að bóluefnum og til að flýta þróun, framleiðslu og jöfnum aðgangi að skimunarbúnaði og meðferðum við COVID-19.
Heilbrigðisráðuneytið segir við Kjarnann að frekari „geta Íslands“ til að gefa bóluefni inn í samstarfið verði metin á þeim grunni að hér séu hafnar örvunarbólusetningar og bólusetningar barna.
134 þúsund skammtar til eða á leiðinni
72 prósent landsmanna hafa nú verið fullbólusettir. 84 prósent 12 ára og eldri eru fullbólusettir. Um 530 þúsund skammtar hafa verið notaðir hér. Um 40 þúsund manns hafa fengið örvunar/viðbótarskammt.
Um 47 þúsund skammtar af bóluefnum eru til í landinu, segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Distica sem sér um geymslu þeirra. Mest er til af Moderna og Pfizer en einnig umtalsvert magn (samanlagt um 12 þúsund skammtar) af Janssen og AstraZeneca. Í þessum mánuði er von á 87 þúsund skömmtum frá Pfizer og Moderna til viðbótar. Samanlagt eru því 134 þúsund skammtar annað hvort komnir til landsins eða á leiðinni.
Í dag býðst öllum þeim sem fengu bóluefni Janssen að fá örvunarskammt. Þá býðst einnig öllu fólki sextíu ára og eldra að fá viðbótarskammt, óháð því hvaða bóluefni það var fullbólusett með.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir við Kjarnann að um 17 þúsund Janssen-þegar á starfssvæði stofnunarinnar hafa fengið aukaskammt. Allir hafi þeir fengið örvun með bóluefnum Moderna eða Pfizer. Um 2.200 örvunarskammtar hafa verið gefnir íbúum hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu og fólki 90 ára og eldra.
Astra og Janssen ekki ofarlega á vinsældarlistanum
Frá því í byrjun ágúst hafa aðeins um 220 manns þegið Janssen-bóluefnið og 102 bóluefni AztraZeneca. Ragnheiður segir óbólusetta nú hafa val á milli bóluefna Pfizer og Janssen. Langflestir velji Pfizer og þeir sem velji Janssen séu helst þeir sem þurfi bólusetningarskírteini strax.
„Þátttaka í viðbótarbólusetningu hefur verið nokkuð góð en væntingar stóðu til að fleiri kæmu í bólusetningu sem bólusettir voru með bóluefni Janssen,“ segir Þórólfur við Kjarnann. Hann segir ekki nægilega langan tíma liðinn til að meta þátttökuna í örvunarbólusetningu.
Engar ákvarðanir hafa verið teknar um frekari örvunarbólusetningar hér á landi og Þórólfur segir leiðbeiningar Sóttvarnastofnunar Evrópu, þar sem ekki er mælt með almennri örvun bólusetninga að svo stöddu, vera í takti við sína sýn á framhaldið.