Ísland er orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) sem nú hefur verið uppfært. Ef hlutfall jákvæðra sýna er innan við fjögur prósent þarf nýgengi smita að vera á bilinu 75 og 200 til þess að lönd fái appelsínugulan lit.
Tölurnar sem nýjasta kort stofnunarinnar byggja á eru frá því á miðnætti á þriðjudagskvöld en kortið er uppfært á fimmtudögum. Miðað við skilgreiningar stofnunarinnar þá væri Ísland rautt í dag ef byggt væri á nýjustu tölum, enda þarf 14 daga nýgengi smita að vera á bilinu 200 til 500 til þess að land fái rauðan lit á kortinu. Samkvæmt nýjustu tölum á covid.is er 14 daga nýgengi smita 249 hér innanlands. Sé hlutafll jákvæðra sýna yfir fjögur prósent, þá er landi gefinn rauður litur ef nýgengið er á bilinu 75 til 200.
Kvaðir á ferðalanga frá löndum sem ekki eru græn
Aðildarríki Evrópusambandsins eru sérstaklega hvött til þess að beita sambærilegum takmörkunum á landamærum sínum sem taka mið af korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Í sérstökum tilmælum sambandsins kemur fram að lönd innan ESB hafa samþykkt að engar kvaðir hvíli á ferðamönnum sem ferðast á milli grænna landa sem aðild eiga að Evrópusambandinu.
Sé það talið nauðsynlegt að beita aðgerðum á landamærum gagnvart fólki sem kemur frá svæðum sem ekki eru græn á kortinu þá er mælt með því að það sæti sóttkví eða fari í skimun fyrir eða eftir brottför. Aðildarríki skulu mæla gegn ferðalögum til og frá rauðum svæðum og mæla harðlega gegn ferðalögum til og frá dökkrauðum svæðum.