Ísland er orðið rautt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) um þróun kórónuveirufaraldursins í álfunni en kortið var uppfært í dag. Lönd fá rauðan lit á kortinu ef nýgengi smita er á bilinu 200 til 500 en ef hlutfall jákvæðra sýna af fjölda sýna er yfir fjögur prósent nægir nýgengi á bilinu 75 til 200 til þess að fá rauðan lit.
Kort ECDC er uppfært á fimmtudögum en stofnunin styðst við gögn frá því á miðnætti á þriðjudagskvöldi. Nýgengi smita hér innanlands er nú 414,5 en á þriðjudag var nýgengi innanlands 378,2 innanlands. Dökkrauður litur er gefinn þeim svæðum þar sem nýgengi er yfir 500.
Aðildarríki Evrópusambandsins eru sérstaklega hvött til þess að beita sambærilegum takmörkunum á landamærum sínum sem taka mið af korti ECDC. Í sérstökum tilmælum sambandsins segir að aðildarríki skulu mæla gegn ferðalögum til og frá rauðum svæðum og mæla harðlega gegn ferðalögum frá dökkrauðum svæðum. Sé það talið nauðsynlegt að beita aðgerðum á landamærum gagnvart ferðafólki frá svæðum sem ekki eru græn á kortinu þá er mælt með því að fólk skuli sæta sóttkví eða fara í skimun fyrir eða eftir brottför. Það er þó í höndum hvers ríkis fyrir sig að ákveða hvaða takmarkanir gilda hverju sinni.
Reglur gagnvart íslensku ferðafólki breytast ekki endilega strax
Í færslu á Facebook-síðu utanríkisráðuneytisins segir að reglur gagnvart Íslandi breytist ekki endilega strax. „Þó Ísland verði rautt á korti Sóttvarnarstofnunar Evrópu vegna COVID-19 í dag þýðir það ekki sjálfkrafa að Ísland sé komið á rauða lista einstakra ríkja eða að reglur gagnvart Íslandi breytist strax í dag. Mörg ríki styðjast við sínar eigin skilgreiningar og flokka og því er afar mikilvægt að kynna sér vel þær reglur sem gilda á áfangastað.“
Þar er einnig bent á að víða séu undanþágur í gildi fyrir bólusetta. Á vef utanríkisráðuneytisins má finna upplýsingar um gildandi takmarkanir á helstu áfangastöðum Íslendinga erlendis. Þar segir að sóttvarnalæknir ráðleggi íbúum Íslands frá ferðalögum á áhættusvæði, sem í dag eru öll lönd og svæði heims nema Grænland.
✈️ Þó Ísland verði rautt á korti Sóttvarnarstofnunar Evrópu vegna COVID-19 í dag þýðir það ekki sjálfkrafa að Ísland sé...
Posted by Utanríkisráðuneytið - utanríkisþjónusta Íslands on Thursday, August 5, 2021
Appelsínugul í Bandaríkjunum en græn í Bretlandi
Á korti Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) sem uppfært var á mánudag er Ísland appelsínugult, sem þýðir að hættustig vegna ferðalaga hingað til lands er metið hátt af stofnuninni. Á vef stofnunarinnar eru ferðamenn hvattir til þess að ferðast ekki hingað til lands óbólusettir. Ferðalög til Bandaríkjanna hafa verið miklum takmörkunum háð um langa hríð og er ferðabann í gildi gagnvart ríkisborgurum Schengen-ríkjanna. Þangað kemst því enginn án sérstakrar undanþágu.
Á lista Bretlands er Ísland enn grænt en sá listi var uppfærður í gær. Ferðafólk frá grænum löndum sem hyggur á ferðir til Bretlands þarf að forskrá sig með því að fylla út sérstakt eyðublað fyrir brottför og taka COVID-próf áður en haldið er af stað. Þá þarf að taka COVID-próf aftur á öðrum degi eftir komuna til Bretlands.