Noregur og Svíþjóð reka lestina af Norðurlöndunum þegar kemur að hlutfallslegum fjölda bólusetninga. Ísland trónir á toppnum og Færeyjar fylgja þar á eftir.
Þegar bólusetningar hófust almennt á Norðurlöndum í janúar var gangurinn í þeim á svipuðu róli framan af. Í byrjun mars fór að draga í sundur og Finnar tóku forystu. Í lok apríl voru stórir bólusetningadagar á Íslandi og í kjölfarið má segja að stökk hafi verið tekið og fram úr nágrannalöndunum. Í lok apríl hafði um þriðjungur íbúa Íslands verið bólusettur með að minnsta kosti einum skammti en innan við fjórðungur Dana sem þá ráku lestina. Allar götur síðan hefur Ísland verið með hæsta hlutfall bólusettra á hverjum tíma og allt frá því í maí hefur hlutfallið verið umtalsvert hærra en á öðrum Norðurlöndum.
Í dag er staðan sú að tæplega 78 prósent íbúa landsins eru búnir að fá að minnsta kosti fyrri skammt bóluefna, að því er fram kemur á heilbrigðistölfræðivefnum Our World in data. Færeyjar koma þar á eftir (um 67 prósent) og Danir og Finnar eru á svipuðum slóðum (um 63 prósent). Í bæði Noregi og Svíþjóð er hlutfallið undir 60 prósentum; 56 prósent í Noregi og 55 prósent í Svíþjóð. Þess ber þó að geta að tölur yfir bólusetningar eru birtar sjaldnar þar og þær nýjustu frá því fyrir helgi.
Ef litið er til Evrópu í heild þá eykst munurinn stórkostlega. Aðeins 44 prósent álfunnar hafa fengið sprautu, eina eða tvær. Ef horft er enn lengra út í heim kemur forréttindastaða Íslendinga enn frekar í ljós. Talið er að innan við þrjú prósent íbúa Afríku hafi fengið bólusetningu. Fjórðungur jarðarbúa hefur fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni.
Stærsti bólusetningadagurinn á Íslandi hingað til var 30. júní en þá fengu 16.659 bóluefni AstraZeneca og 226 bóluefni Janssen. Íbúar hér á landi hafa þó flestir fengið bóluefni Pfizer og eru nú yfir 116 þúsund manns fullbólusettir með því.
Athugasemd: Í fréttinni er stuðst við upplýsingar af vefnum Our World Data þar sem safnað er saman margvíslegri tölfræði víðs vegar um heiminn og fjölmiðlar vitna oft til. Mannfjöldatölur sem liggja tölfræðinni til grundvallar geta hins vegar verið nokkurra ára og samanburðurinn á milli landa því ekki 100 prósent áreiðanlegur þótt hann gefi vissulega sterka vísbendingu um stöðuna.