Gunnar Smári Egilsson formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins sagði í Forystusætinu á RÚV á mánudagskvöld að Íslendingar lifðu í spilltu samfélagi og viðraði meðal annars hugmynd um að „búa til nýtt lýðveldi“ ef ljóst þætti að vilji þjóðarinnar væri ekki að komast í gegn við stjórn landsins – og talaði þar sérstaklega um dómskerfið.
„Ef við erum með þannig samfélag að Hæstiréttur er þannig uppbyggður eftir langvarandi spillingu að þjóðarviljinn nær þar ekki í gegn þá höfum við það ráð að einfaldlega búa til nýtt lýðveldi, eins og Frakkar hafa gert, eins og margar þjóðir hafa gert,“ sagði Gunnar Smári og bætti síðan að Íslendingar þyrftu að fara að átta sig á því að þeir lifðu í „gjörspilltu samfélagi.“
En er íslenskt samfélag „gjörspillt“ eins og fulltrúi Sósíalistaflokksins fullyrti? Um það er hægt að deila, enda er afar vandasamt að mæla spillingu og flestar mælingar á því fyrirbæri byggja á huglægu mati sérfræðinga, almennings, stjórnenda í atvinnulífi eða annarra aðila. Þegar litið er til samanburðar á alþjóðavísu er þó nokkuð óumdeilt að Ísland kemur vel út, en á nýjasta spillingarmælikvarða Transparency International eru einungis 16 ríki sem talin eru minna spillt en Ísland, af alls 180 ríkjum sem kvarðinn tekur til.
Ísland hefur þó fallið niður þennan lista á undanförnum árum. Eins og Kjarninn rakti í fréttaskýringu í febrúar er það þó einungis ein mæling sem hefur dregið Ísland niður á samsettum kvarða Transparency International á undanförnum árum.
Það er mat tveggja íslenskra fræðimanna, sem skila niðurstöðum til þýsku hugveitunnar Bertelsmann Stiftung, á því að hversu miklu leyti þeir sem sitja í opinberum embættum séu hindraðir í að misnota stöðu sína í þágu eiginhagsmuna.
Ef þessi eina mæling næði ekki til Íslands inni í samsettum kvarða Transparency International hefði Ísland hafnað ofar á lista, eða í 9. sæti yfir minnst spilltu lönd heims árið 2020.
Stór hluti almennings upplifir að tengsl skipti máli til að ná langt
Fullyrðingum sínum um spillingu á Íslandi til stuðnings vísaði Gunnar Smári stuttlega til nýrrar alþjóðlegrar viðhorfakönnunar sem kynnt var í síðustu viku, sem leiddi í ljós að varðandi tiltekin atriði sem flokka má til mælinga á spillingu, voru svör Íslendinga líkari svörum Rússa en annarra íbúa á Norðurlöndunum.
Til dæmis sögðu 83,6 prósent íslenskra þátttakenda í könnuninni að það skipti máli að þekkja rétta fólkið til þess að komast lengra en aðrir í þjóðfélaginu. Til viðbótar sögðu 50,2 prósent að pólitísk sambönd skiptu máli hvað það varðar. Þetta gefur til kynna að íslenskur almenningur telji að stórum hluta að tengsl skipti miklu máli í íslensku samfélagi.
Jón Gunnar Bernburg og Sigrún Ólafsdóttir prófessorar í félagsfræði við Háskóla Íslands framkvæmdu þessa alþjóðlegu viðhorfskönnun og í samtali við Fréttablaðið á dögunum sagði Jón Gunnar að hann túlkaði niðurstöðurnar sem svo að sýn almennings endurspeglaði það sem er í umræðunni.
„Það er ómögulegt að segja hvað er endurspeglun á umræðu eða að hve miklu leyti þetta viðhorf endurspeglar persónulega reynslu. En það hefur lengi verið í umræðu á Íslandi að pólitísk sambönd séu einn lykill velgengni hér á landi,“ sagði Jón Gunnar við blaðið og sömuleiðis að pólitískur klíkuskapur væri eitt form spillingar.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Mælingar á spillingu byggja nær allar á huglægu mati og í reynd er ómögulegt að halda því fram að einhver sem upplifir mikla spillingu í íslensku samfélagi, eins og Gunnar Smári segist gera, hafi rangt fyrir sér.
Viðurkenndasta samsetta mælingin á alþjóðavísu, spillingarmælikvarði Transparency International, setur Ísland þó í 17. sæti af 180 hvað mælda spillingu varðar þrátt fyrir að við stöndum hinum Norðurlöndunum nokkuð að baki. Vísbendingar eru þó vissulega til staðar eins og áður var getið um að almenningur á Íslandi upplifi töluverða spillingu í samfélaginu.
Það er því mat Staðreyndavaktarinnar að Gunnar Smári setji fram hálfsannleik er hann fullyrðir að samfélagið á Íslandi sé gjörspillt.