148 þingmenn breska Íhaldsflokksins studdu vantrauststillögu á Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. 211 þingmenn studdu áframhaldandi forystu Johnsons sem verður áfram formaður flokksins og forsætisráðherra Bretlands. Allir 359 þingmenn flokksins tóku þátt í atkvæðagreiðslunni.
Boðað var til atkvæðagreiðslu um vantrauststillögu á hendur Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, eftir að Graham Brady, formaður 1922-nefndar Íhaldsflokksins, sem sér um helstu forystumál Íhaldsflokksins, greindi Johnson frá því að nefndinni hefðu borist bréf frá yfir 15 prósent þingmanna flokksins sem lýsa yfir vantrausti á Johnson. 54 bréf þurfa að berast til að ná 15 prósent lágmarkinu.
Johnson sagðist fagna atkvæðagreiðslunni og vildi ljúka henni af sem fyrst, hún sé tækifæri til að binda enda á mánaðarlangar getgátur um pólitíska framtíð hans.
Atkvæðagreiðslan var leynileg og fór fram í neðri deild þingsins milli klukkan 17 og 19 að íslenskum tíma. Þingmenn Íhaldsflokksins eru 359, 271 karl og 88 konur. Meirihluta atkvæða, 180 eða fleiri, hefði þurft til að fella Johnson. Skömmu áður en atkvæðagreiðslan hófst sagðist BBC hafa heimildir fyrir því að 131 þingmaður flokksins, að minnsta kosti, hygðist styðja Johnson. Þeir reyndust svo vera mun fleiri, eða 211.
Þingmennirnir sem studdu vantrauststillöguna tilheyra meðal annars „Rauða veggnum“, það er kjördæmum á Norður-, Norðaustur-Engalndi og miðhéruðum Englands sem á korti mynda eins konar vegg. Stuðningur við Verkamannaflokkinn hefur verið ráðandi í rauða veggnum, allt þar til í kosningunum 2019 þegar Íhaldsflokkurinn sópaði til sín fylgi.
„Þetta var ekki ákvörðun sem ég tók af léttúð. Ég hlustaði á allar hliðar, sérstaklega frá kjósendum sem höfðu samband við mig og deildu með mér skoðunum og reynslum,“ segir Dehenna Davidson, þingmaður Íhaldsflokksins í Durham-sýslu, sem tilheyrir rauða veggnum. „Þegar öllu er á botninn hvolft þá greiddi ég atkvæði gegn forsætisráðherranum í kvöld.“
Vantrauststillagan yfirvofandi frá upphafi Partygate
Gustað hefur um Johnson allt frá byrjun árs eftir að greint var frá partýstandi í Downingstræti á tímum strangra sóttvarnareglna vegna heimsfaraldurs COVID-19. Í janúar baðst hann afsökunar á að hafa verið viðstaddur garðveislu í Downingstræti í maí 2020, þegar útgöngubann vegna útbreiðslu COVID-19 var í gildi.
Þegar fregnir bárust af fleiri samkomum á vegum breskra stjórnvalda var Sue Gray, sérstökum saksóknara, falið að gera rannsókn til að meta eðli og tilgang veisluhaldanna. Hneykslið fékk fljótt viðurnefnið „Partygate“.
Skýrslu Gray var beðið með töluverðri eftirvæntingu en málin flæktust þegar breska lögreglan hóf sjálfstæða rannsókn á veisluhöldunum. Lögregla bað Gray að bíða með rannsókn sína á meðan lögreglurannsóknin stóð yfir. Hún skilaði þó bráðabirgðaskýrslu 31. janúar þar sem fram kom að veisluhöld í Downingstræti á tímum útgöngubanns eða strangra sóttvarnareglna hafi verið óviðeigandi og að skortur hafi verið á forystuhæfileikum og dómgreind, bæði hjá starfsfólki í Downingstræti og á skrifstofu ríkisstjórnarinnar.
Fyrsti forsætisráðherrann sem er sektaður fyrir lögbrot
Rannsókn lögreglu lauk í lok maí. Tólf samkvæmi voru til rannsóknar og alls gaf lögregla út 126 sektir vegna brota á sóttvarnareglum. Sektirnar ná ti 83 manns og því eru dæmi um að einstaklingar hafi fengið fleiri en eina sekt. Johnson fékk þó aðeins eina sekt, fyrir að vera viðstaddur eigin afmælisveislu 19. júní 2020, í Downingstræti.
Johnson er fyrsti forsætisráðherra Bretlands sem er sektaður fyrir að lögbrot. Hann hefur ítrekað beðist afsökunar og fullyrt að það hafi ekki hvarflað að honum á sínum tíma að hann væri að brjóta lög.
Drykkjumenning í Downingstræti var afhjúpuð í lokaskýrslu Gray kom út 25. maí. Í skýrslunni segir að stjórnmálaleiðtogar og háttsettir embættismenn verði að axla ábyrgð á drykkjumenningunni sem hefur viðgengst innan bresku ríkisstjórnarinnar. Hvernig nákvæmlega á að axla ábyrgðinni fylgir ekki í niðurstöðum skýrslunnar en vantrauststillaga á Johnson er klárlega ein tilraun til þess.
Krafan um afsögn enn til staðar
Vantrauststillagan sneri þó um meira en Partygate. Stefna Johnson í efnahagsmálum og stjórnunarstíll hans almennt hafa einnig verið til umræðu.
Krafan um Johnson segi af sér formennsku er því enn til staðar, ekki síst meðal fjársterkra aðila sem hafa styrkt flokkinn með háum fjárhæðum svo árum skiptir. Einn þeirra, sem hefur styrkt flokkinn um 340 þúsund pund frá 2010, eða rúmar 55 milljónir króna, segir í samtali við The Sunday Times að hann geti aðeins hugsað sér að halda styrkveitingum sínum áfram ef leiðtogaskipti fara fram, strax.
Vantrauststillaga var síðast til meðferðar hjá flokknum í desember 2018 í miðju Brexit-ferli, þegar atkvæði voru greidd um vantraust á hendur Theresu May. May stóð tillöguna af sér en sagði af sér nokkrum mánuðum seinna og Johnson tók við af henni í júlí 2019.
Vantrauststillaga veit sjaldnast á gott fyrir stjórnmálamenn. En Johnson verður áfram leiðtogi Íhaldsmanna enn um sinn. Önnur vantrauststillaga verður að minnsta kosti ekki lögð fram næsta árið þar sem að minnsta kosti 12 mánuði þurfa að líða á milli vantraustsyfirlýsinga á leiðtoga Íhalddsflokksins. En tillagan sem var felld í kvöld gæti markað upphaf endalokanna, líkt og í tilfelli Theresu May.