Nýsköpunarfyrirtækið Mapbox lokaði á dögunum B-fjármögnunum upp á 52,55 milljón dollara, eða um 7 milljarða íslenskra króna. Mapbox er kortafyrirtæki sem framleiðir kortavinnsluforrit og heldur utan um kortagrunna sem allir hafa aðgang að. Þannig vill Mapbox verða „Wikipedia heimskortsins“ á vefnum.
Nú þegar hefur Mapbox tekist að trufla markaðinn nógu mikið til að láta risa eins og Google hreyfa sig og setja eitthvað alvöru fjármagn í kortaþjónustu sína. Um þessar mundir er nefnilega óvíst hvaða fyrirtæki muni hafa vinninginn meðal appfyrirtækja. Einnig er óvíst hver eigi eftir að kaupa kortaþjónustu Nokia, Here.
Stór öpp og vefsíður á borð við Foursquare, Pinterest og Mapquest nota þegar kort frá Mapbox sem segir fjármagnið sem fyrirtækið fékk á dögunum vera stærstu fjárfestingu í sögu kortagerðar. Meðal fjárfesta í annari fjármögnunarumferð voru Foundry Group (sem fyrir áttu stóran hlut í Mapbox), DBL Partners, Thrive Capital, Pritzker Group, fyrrverandi forseti Goldman Sachs Jon Winkelried og Promus Ventures.
Kjarninn hefur undanfarið reynt hugbúnaðinn frá Mapbox hér á Íslandi. Íslandskortið er nokkuð fullkomið; helstu kennileiti eru merkt inn og hnit helstu þjóðvega nokkuð nákvæm, sérstaklega í þéttbýli.
Síðan fyrirtækið var stofnað árið 2010 í Washington DC hefur markmiðið verið einfalt en erfitt: að gera betri kort. Fyrirtækið var fyrstu árin rekið fyrir lítið stofnfé en árið 2013 fékkst tíu milljón dollara fjárfesting.
Vefkort eru kannski ekki ný af nálinni. Google hefur þróað vinsæl kort af öllum heiminum í rétt rúmlega tíu ár og staðbundnari þjónustur bjóða upp á góð kort fyrir nærumhverfi sitt, eins og Já.is. Mapbox hefur ekki í hyggju að keppa við þessa þjónusturisa og markaðsetja kortin sín beint til almennings. Heldur er markmiðið að búa til umhverfi fyrir kortasmiði sem borga svo gjald eftir magni og umfangi kortagagnanna sem þeir skapa.
Eric Gundersen, framkvæmdastjóri Mapbox, segist alls ekki vilja kalla fyrirtækið kortaþjónustu heldur skapi það tæki og tól svo kortagerðarfólk geti notað gagnagrunninn og bætt við hann. Fólk getur svo notað kortin sín þar sem það vill.
Jafnvel þó vöxtur Mapbox hafi undanfarin tvö ár verið hljóður hefur hann orðið á mikilvægum tíma í þróun vefkorta og vefkortaþjónustu. Snjallsímaeign og tenging við farsímanet orðin mjög góð og almenn sem veitir fyrirtækjum eins og Google og Mapbox tækifæri til að sækja fram á kortamarkaði. Þá er skemmst að minnast þess að nýjar tegundir tækja á borð við snjallúr og snjallbíla eru eða eru að fara að ryðja sér til rúms á markaði.
Það gæti komið lesendum á óvart en lang flest öpp og flestar vefsíður sem við heimsækjum staðsetja notendur á einhvern hátt á korti, jafnvel þó markmiðið sé ekki að rata milli staða í Google Maps eða hefta myndir á kort í Instagram. Eftirspurnin eftir veflægum kortum er því mikil og eykst gríðarlega hratt.
Næstu skref hjá Mapbox, eftir þessa hlutafjáraukningu, er að ráða nýtt fólk og stækka útibú sín í San Francisco og á Indlandi. Fyrirtækið er jafnframt mjög framarlega í útfærlsu gervihnattamynda í kortagrunni sínum en með sérstakri tækni eru mörghundruð myndir unnar á dag til þess að heimurinn okkar líti betur út.
https://youtu.be/mIo26cdFabE