Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, spurði Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum í dag hvort það væru engin prinsipp innan ríkisstjórnarinnar þegar kæmi að afstöðu til niðurstöðu skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluferlið á Íslandsbanka. Hún sagði að skýrslan væri sláandi. „„Hún er einn stór áfellisdómur yfir verklagi Bankasýslunnar og verklagi hæstvirts fjármálaráðherra.“
Það sem hafi valdið Kristrúnu mestum vonbrigðum sé sá pólitíski leikur sem stjórnarliðar séu að spila eftir að niðurstaða Ríkisendurskoðunar liggi fyrir. „Þetta er allt einhver pólitískur spunaleikur fyrir þeim. Þau eru sigri hrósandi yfir því að Ríkisendurskoðandi noti ekki orðið lögbrot í skýrslunni, þótt það hafi aldrei verið hlutverk Ríkisendurskoðanda að leika dómara og kveða á um sekt eða sýknu.“
Hún óskaði eftir því að umræðan yrði hafin á hærra plan. „Það er einfaldlega allt of mikið í húfi og þjóðin er orðin þreytt á pólitískum leikjum.“ „Fólkið í landinu hugsar „Æ, enn eitt málið, aftur sami maðurinn, ekkert breytist“.
Fjármála- og efnahagsráðherra hafi tekið risastóra ákvörðun um tug milljarða króna hagsmuni íslenskra skattgreiðenda „með bundið fyrir augum án þess að afla fullnægjandi gagna og leggja mat á þau. [...] Snýst þetta allt um persónur, og ráðherrastóla og pólitíska leiki fremur en traust til embætta og stofnana sem hér eru undir?“
Lilja svaraði því til að hún vildi upplýsa Kristrúnu „um það að það er sannarlega ekki pólitískur leikur að koma með 600 milljarða inn í ríkissjóð á sínum tíma í formi stöðugleikaframlaga. Það er ekki pólitískur leikur að setja á fjármagnshöft til að tryggja hagsmuni Íslands. Það er ekki pólitískur leikur að segja nei við Icesave. Það sem við höfum verið að gera á síðustu átta árum er að tryggja hagsmuni Íslands.“
Um hvað erum við eiginlega að tala hérna?
Kristrún veitti andsvar og sagðist ekki sjá betur „en að það sé pólitískur leikur að draga Icesave inn í umræðuna um söluna á Íslandsbanka frá því í vor. Um hvað erum við eiginlega að tala hérna? Af hverju getum við ekki rætt um verklagið í þessu ferli? Það er öllu þjóðin að fylgjast hér með hvernig þið bregðist við verklagi í þessu ferli og þið farið að ræða um Icesave í þessu samhengi? Skiptir engu máli hvernig hlutirnir eru gerðir? Það er það sem þjóðin vill vita.“
Hún rifjaði upp að Lilja hafi sagt í viðtali fyrr í vikunni að þeir sem báru ábyrgð á þessari framkvæmd séu ekki að fara að bera ábyrgð á næstu framkvæmd. Um leið hafi hún sagt í fjölmiðlum í gær að Bjarni Benediktsson hefði þegar axlað ábyrgð á „bankasöluklúðrinu með því að óska eftir umræddri skýrslu og viðurkennir þannig að ábyrgðin liggi hjá honum.“
Hún spurði í kjölfarið hvort Lilja treysti Bjarna til að bera ábyrgð á áframhaldandi sölu á Íslandsbanka.
Hún sagðist treysta Bjarna til að fara í frekari sölu en vildi ítreka að enn ætti eftir að fá niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins á þeim anga söluferlisins sem það rannsakar til að fá heildarmynd á því hvernig til tókst.
Síðast kosið um Icesave 2011
Icesave-reikningarnir voru netreikningar sem bankinn bauð upp á í Hollandi og Bretlandi sem báru mun hærri innlánsvexti en aðrir voru að bjóða upp á. Því flykktust viðskiptavinir til Landsbankans vegna þeirra, enda ávöxtun á fé mun hærri þar en annarsstaðar.
Þessi mikla aðsókn leiddi til þess að Icesave-innlánssöfnunin varð að risavaxinni alþjóðadeilu þegar ljóst var að hinn gjaldþrota Landsbanki gat ekki greitt innstæðueigendum eignir sínar strax eftir bankahrun. Innstæðutryggingasjóðir landanna tveggja greiddu hluta innstæðanna til baka og við það eignuðust þeir kröfu á Landsbankann.
Alls voru gerðir þrír Icesave-samningar milli íslenskra stjórnvalda annars vegar og Hollendinga og Breta hins vegar um greiðslu þeirrar skuldar. Tveir þeirra fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, þá forseti Íslands, neitaði að skrifa undir lögin. Seinni þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram í apríl 2011, fyrir rúmlega ellefu árum síðan.
Icesave-málið fór á endanum fyrir EFTA dómstólinn þar sem Ísland var sýknað af kröfum Breta og Hollendinga í upphafi árs 2013.
Í janúar 2016 fékk slitabú Landsbankans undanþágu frá Seðlabanka Íslands frá fjármagnshöftum til að greiða síðustu greiðsluna Hollands og Bretlands og þar með Icesave-skuldina að fullu.