Frá og með 1. júlí verður hætt að skima þá sem koma til landsins bólusettir gegn COVID-19 eða með vottorð um fyrri sýkingu og sömuleiðis börn, en fyrirkomulag skimana á landamærum verður óbreytt þar til þá.
Þetta hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ákveðið í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Mjög fáir sem framvísa bólusetningarvottorði eða vottorði um fyrri sýkingu COVID-19 hafa reynst smitaðir við komuna til landsins, en þó einhverjir.
Frá 1. maí hafa alls 9 manns með bólusetningarvottorð af alls um 27 þúsund farþegum reynst með virkt veirusmit, sem samsvarar um 0,03 prósentum. Um 2.700 farþegar hafa framvísað vottorði um fyrri sýkingu og þrír þeirra hafa reynst með virkt smit við skimun, eða um 0,1 prósent. Um 2.100 börn hafa verið skimuð á landamærunum og 6 þeirra hafa reynst með virk smit, eða 0,3 prósent.
Samkvæmt minnisblaði sóttvarnalæknis telur hann „mikilvægt að viðhalda þeim árangursríku sóttvarnaaðgerðum á landamærum þar til að viðunandi þátttöku í bólusetningum yngri aldurshópa hefur verið náð eða um 60-70%“ og ætla megi að því marki verði náð um mánaðarmótin júní-júlí.
Leggur til að landamærasóttkví verði endurskoðuð um miðjan júlí
Þeir sem koma hingað til lands óbólusettir og hafa ekki fengið fyrri sýkingu þurfa að framvísa neikvæðu PCR-prófi að utan og fara í tvær skimanir með sóttkví á milli. Þórólfur segir í minnisblaði sínu að stefnt verði að endurskoðun þessa fyrirkomulags um miðjan júlí.
Um 34 prósent allra þeirra farþega sem hafa komið til landsins frá því 1. maí hafa verið í þessum flokki, sem þarf að fara í sóttkví. Það hlutfall er þó að fara minnkandi, en samkvæmt því sem segir í minnisblaði Þórólfs eru þessa dagana um 80 prósent allra farþega sem koma til landsins með bólusetningarvottorð með í för.