Rof í Víkur- og Fagradalsfjöru var mikið í vetur vegna stormviðra. Rofið er sums staðar yfir fimmtíu metrar og hefur ekki verið meira í langan tíma, segir í skýrslu Jóhannesar Marteins Jóhannessonar hjá Kötlusetri sem unnin var fyrir Mýrdalshrepp. Sveitarstjórnin vill að hringvegurinn um Mýrdal verði færður af Gatnabrún og liggi þess í stað með ströndinni við Dyrhólaós, í gegnum jarðgöng í Reynisfjalli og með Víkurfjöru sunnan Víkurþorps.
Mat á umhverfisáhrifum á færslu vegarins er á lokametrunum og eru fjórir valkostir Vegagerðarinnar á svipuðum slóðum og sveitarstjórnin vill. Aðrir eru á svipuðum slóðum og núverandi vegur fer um. Fjaran er óstöðug, líkt og hamfarir vetrarins sýna, og í umsögn Veðurstofu Íslands við matsáætlun Vegagerðarinnar kom m.a. fram að á komandi áratugum mætti gera ráð fyrir „verulegum breytingum“ á ströndinni við Vík. Rannsókn á stöðugleika strandarinnar vegna umhverfismats á færslu hringvegarins standa enn yfir en fyrstu drög benda til að verði niðurstaðan sú að færa hann niður að fjörunni líkt og skipulagslína sveitarfélagsins gerir ráð fyrir í aðalskipulagi, þurfi lágmarkshæð hans að vera 5,7 metrar og hæð varnargarðs 7,5 metrar.
Í nýútkomnum Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar er haft eftir Sigurði Sigurðssyni strandverkfræðingi að ástæður rofsins í vetur séu þrálátar og sterkar suðvestanáttir sem geisað hafi síðan um áramótin. „Suðvestanáttin étur úr þessari fjöru. Það kemur reyndar efni fyrir Reynisfjall úr fjörunum fyrir vestan fjallið en rofmátturinn er meiri en aðfærslan af efninu og þess vegna verður rof,“ útskýrir hann. Ekki hafi mælst hærri öldur á svæðinu áratugum saman. „Ástandið nú er afar ólíkt því sem var síðasta vetur. Þá voru suðaustanáttir ráðandi og sandur hlóðst að austanverðu á sandfangara. Á tímabili héldu heimamenn að sá sandur væri kominn til að vera en hann var mjög fljótur að fara strax í haust.“
Samkvæmt skýrslunni er mikið rof við flest svæði sem mæld eru og fram kemur að fjaran sé víða orðin stutt og brött. Þar segir ennfremur að rof af þessari stærðargráðu geti varla talist annað en náttúruhamfarir. Verði veðrið áfram með sama sniði séu líkur á áframhaldandi landbroti því ekkert verji fjörukambana lengur fyrir öldum.
Sigurður minnir í viðtalinu við Framkvæmdafréttir á að ströndin við Vík er ekki stöðugt fyrirbæri heldur mjög breytilegt. „Þessi fjara var ekki til fyrir Kötlugosið 1918 og meira að segja fyrir þann tíma var ströndin líka í rofi.“
Ýmislegt hefur verið gert til að hefta rof við ströndina. „Vegagerðin hefur byggt tvo sandfangara, þann fyrri 2011 og þann seinni 2018. Þeir verja núverandi byggð fyrir rofi. Annar sandfangarinn hefur safnað miklum sandi en hinn litlum.“ Sigurður bendir á mikilvægi þess að græða upp þann sand sem safnast við sandfangarana. „Þegar vindur blæs af hafi feykir hann sandinum sem hefur safnast fyrir yfir bæinn. Ég veit að heimamenn hafa verið í sambandi við Landgræðsluna og reyndar hefur verið í gangi uppgræðsla í gegnum árin en nú þarf að gera meira þegar komin er góð fjara milli Reynisfjalls og fyrri sandfangarans.“
Á tíunda áratug síðustu aldar var byggður flóðvarnargarður meðfram öllu Víkurþorpi. Nú er stefnt að því að hækka hann um 50-70 sentímetra á þeim svæðum sem flætt hefur yfir hann til að minnka hættuna á flóði á landi. Í vetur fór sjór ítrekað yfir garðinn og fylgdi honum mikill sandur. Með hækkun hans ætti að vera hægt að koma í veg fyrir slíkt.
Mýrdalshreppur hefur óskað eftir því við Vegagerðina að byggður verði nýr sandfangari austan við þann nýrri og haft er eftir Sigurði í Framkvæmdafréttum að sú framkvæmd verði sett inn á samgönguáætlun á næstunni.