Um klukkan 18 í gærkvöldi hófst jarðskjálftahrina um 2-4 kílómetra norðaustur af Geldingadölum. Virknin jókst svo til muna laust eftir miðnætti og er enn mikil með 1-10 skjálfta á mínútu. Þegar líða tók á nóttina færðist virknin að eldstöðvunum í Geldingadölum. Ekki er ólíklegt að kvikuhlaup sé í gangi sem þýðir að kvikan er að færast lárétt í jarðskorpunni. Engin merki eru um gosóróa.
Fyrir um þremur sólarhringum taldi Veðurstofa Íslands að atburðunum við Fagradalsfjall, líkt og sagði í tilkynningu á vef stofnunarinnar, væri lokið þótt áfram yrði fylgst grannt með. Þá voru sléttir þrír mánuðir liðnir frá því að hraun sást renna á svæðinu. „Við munum því áfram fylgjast vel með virkninni á Reykjanesskaga, en við getum sagt að þessum tiltekna atburði sem hófst með eldgosi 19. mars við Fagradalsfjall er lokið, hver sem þróunin á svæðinu verður,“ var haft eftir Söru Barsotti, fagstjóra eldfjallavár á Veðurstofunni. „Það eina sem vitað er með vissu er að náttúran fer sínu fram.“
Ekki ætti að koma neinum á óvart að virkni sé að aukast aftur á svæðinu enda þekkt að slíkt gerist í lotum á Reykjanesi.
Frá því jarðskjálftahrina hófst í gær og þar til um klukkan sex í morgun höfðu um 1.100 skjálftar mælst, þar af 90 af stærðinni tveir eða þaðan af stærri. Stærsti skjálftinn sem mælst hefur til þessa í hrinunni var af stærð 4,2 og mældist klukkan 04:25 norður af Geldingadölum. Hann fannst víða á Reykjanesi, á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Borgarnesi.
Eins og nefnt var í tilkynningu frá Veðurstofunni fyrr í vikunni mælist þensla á svæðinu og unnið er að útreikningum og líkanagerð svo hægt sé að túlka mælingarnar, en niðurstöður liggja ekki fyrir. „Aflögunarmælingar sýna að kvikusöfnun er í gangi í jarðskorpunni við Fagradalsfjall og erfitt er að spá fyrir um hvert framhaldið verður,“ stendur í tilkynningu sem Veðurstofan gaf út snemma í morgun.
Vegna jarðskjálftahrinunnar hefur Veðurstofan breytt fluglitakóða í appelsínugulan.
Eldgos hófst í Geldingadölum 19. mars á þessu ári. Hraunflæði sást síðast 18. september og því ljóst að goshrinan stóð í nákvæmlega hálft ár.
Þann 3. desember síðastliðinn var greint frá því að Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefði aflýst óvissustigi vegna eldgossins.