Yfir tveir þriðju Afríkubúa hafa að líkindum fengið COVID-19 á síðustu tveimur árum eða 97 sinnum fleiri en opinberar smittölur segja til um. Þetta er niðurstaða skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO.
Samkvæmt niðurstöðum úr sýnatökum hafa 11,5 milljónir smita og 252 þúsund dauðsföll orðið vegna sjúkdómsins í Afríku. En WHO telur að um gríðarlegt vanmat sé að ræða og að í september á síðasta ári hafi mögulega um 800 milljónir manna í heimsálfunni verið búnar að sýkjast. Opinberar tölur séu því aðeins toppurinn á ísjakanum, að mati WHO. „Þetta bendir til að yfir tveir þriðju allra Afríkubúa hafi sýkst af veirunni sem veldur COVID-19,“ segir Matshidiso Moeti, yfirmaður WHO í Afríku.
Við greininguna voru bornar saman meira en 150 rannsóknir sem gerðar voru í álfunni á tímabilinu janúar 2020 og desember 2021. Samkvæmt þeim þá jókst raunverulegur fjöldi smita úr 3 prósentum í júní 2020 í 65 prósent í september í fyrra.
„Þetta þýðir að í september hafi smitin ekki verið orðin 8,2 milljónir, líkt og opinberar tölur sýndu, heldur 800 milljónir,“ segir Moeti.
Skýringin á þessu mikla vanmati á sýkingum er sú að í flestum Afríkulöndum hefur aðgengi að sýnatökum verið mjög takmarkað. Flestar sýnatökur hafa verið teknar af fólki sem sýnt hefur sjúkdómseinkenni eða af ferðamönnum sem heimsótt hafa álfuna og þurft að gangast undir PCR-próf.
Moeti segir að reynst hafi flókið að finna út hversu margir hafi raunverulega sýkst í Afríku, ekki aðeins vegna þess að aðgengi að sýnatökum hefur verið mjög lítið heldur vegna þess að svo virðist sem að meirihluti sýktra hafi ekki fundið fyrir einkennum. Á sama tíma og kórónuveirufaraldurinn hefur haft miklar afleiðingar á mörgum svæðum heimsins virtist sem Afríka hefði sloppið mun betur. Í álfunni er heilbrigðisþjónustu víða ábótavant og því óttuðust sérfræðingar hið versta.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu og benda sumar til þess að meðalaldur fólks í Afríkuríkjum, sem er lægri en annars staðar, hafi orðið til þess að draga úr áhrifum faraldursins. Ungt fólk sýkist síður alvarlega en það sem eldra er.
Gríðarleg fjölgun dauðsfalla
En tölur yfir andlát af völdum COVID-19 í Afríku eru ekki áreiðanlegar frekar en í faröldrum annarra sjúkdóma sem herjað hafa á þjóðir álfunnar.
Flest smit, 3,7 milljónir, hafa greinst í Suður-Afríku enda sýnatökur þar verið mun fleiri en annars staðar í álfunni. Þar er heilbrigðiskerfið líka betra en í nágrannaríkjunum.
Engu að síður er talið líklegt að dánartíðni vegna COVID-19 sé umtalsvert hærri en opinberar tölur sýna. Rúmlega 100 þúsund dauðsföll vegna sjúkdómsins hafa verið skráð í Suður-Afríku en ný rannsókn heilbrigðisyfirvalda í landinu bendir til að þrisvar sinnum fleiri hafi látist. Sú niðurstaða byggir m.a. á því að í faraldrinum voru dauðsföll almennt tæplega 303 þúsund umfram meðaltal síðustu ára.