Fyrirtækið Eden Mining ehf. áformar að vinna 15 milljónir rúmmetra af jarðefni úr Litla-Sandfelli við Þrengslaveg í Ölfusi sem yrði að hluta nýtt í framkvæmdir á svæðinu og að hluta sem íblöndunarefni í sement.
Miðað við það sem fram kemur í matsáætlun hinnar fyrirhuguðu námuvinnslu myndi fjallið hverfa á um þrjátíu árum. Fyrirtækið, sem er í eigu Kristins Ólafssonar og Eiríks Ingvars Ingvarssonar, starfrækir einnig námu í Lambafelli og á Hraunsandi. Litla-Sandfell er á jörðinni Breiðabólstað sem er í eigu Kirkju sjöunda dags aðventista. Hefur Eden gert langtímaleigusamning við eigendurna.
Litla-Sandfell stendur um 95 metra upp úr Leitahrauni í Þrengslunum. Í því hefur verið starfrækt náma frá árinu 1965 en vinnslan hefur verið lítil undanfarin ár. Efnið úr námunni er basalt túff og hefur verið notað í framkvæmdir á svæðinu undanfarna áratugi, t.d. Þrengslaveg á 7. áratug síðustu aldar, Suðurstrandarveg og almennar byggingarframkvæmdir í Ölfusi.
Allt umhverfis fjallið er Leitahraun (Lambafellshraun) sem rann úr gígnum Leiti í austanverðum Bláfjöllum fyrir um 5.200 árum. Litla-Sandfell rís upp úr þessari hraunbreiðu og er líkt og nánast öll önnur fjöll í kring úr móbergi. Eldgosið sem myndaði Litla-Sandfell náði þó aldrei að brjótast í gegnum ísaldarjökulinn og þess vegna er engin grágrýtishetta í fjallinu og bergið í því tiltölulega veikt.
Tilgangur efnistökunnar í Sandfelli er í matsáætluninni sagður vera að nýta efnið að mestu sem staðgönguefni flugösku í sementsframleiðslu. „Tilgangur verkefnisins snýr líka að lækkun á kolefnisspori byggingariðnaðarins á Íslandi og í Norður-Evrópu,“ segir í matsáætluninni. Síðustu ár og áratugi hefur notkun íauka, einkum flugösku úr kolaverum, aukist mikið. „Með nýjum áherslum í orkuframleiðslu í Evrópu eru þó blikur á lofti um öflun [flugösku],“ segir í skýrslunni. Þýskaland hafi t.d. einsett sér að loka öllum kolaverum fyrir 2038 og þar með sé búið að fjarlægja helstu uppsprettu íauka í sement.
Til að komast hjá því að sementsframleiðendur noti efni sem hafi enn meiri kolefnisspor en flugaskan þurfi „að fylla upp í þetta skarð sem að lokun kolaveranna skilur eftir sig með einhverjum öðrum íaukum, t.d. með muldu móbergi“. Mulda móbergið, segir í matsáætluninni, er ekki ætlað sem viðbót á sementsmarkaðinn eða til þess að auka heildarframleiðslu, „heldur kemur það í stað efna sem notuð eru við framleiðslu á sementi í óumhverfisvænna framleiðsluferli“.
Sandfellsnáman er um 13 kílómetra fjarlægð frá Þorlákshöfn og í um 0,5 km fjarlægð frá Þrengslavegi. Efnið yrði flokkað í tvær stærðir, 0-10 mm og 10-100 mm. Meirihluta fínna efnisins yrði keyrt jafnóðum til Þorlákshafnar, þar sem Hornsteinn ehf. hefur skuldbundið sig til að kaupa það og vinna til útflutnings. Grófara efni yrði haugsett og unnið eftir þörfum í framkvæmdir á svæðinu. Áætlað er að 60 prósent efnisins verði fínt og 40 prósent grófara.
Byrjað yrði að vinna í fellinu vestanverðu svo ásýnd þess vegmegin haldist óröskuð sem lengst. Miðað við áformin mun náman hins vegar tæmast, þ.e. fjallið hverfa, á þrjátíu árum. „Þegar fjallið hefur verið fjarlægt“ yrði farið eftir leiðbeiningum Vegagerðarinnar varðandi frágang námusvæða.
Aðalvalkostur framkvæmdarinnar, sem kynntur er í matsáætluninni er að vinna 15 milljón rúmmetra í heildina. Vinnslusvæðið yrði þá allt fellið og að efnistöku lokinni yrði það alveg horfið. Valkostur B er að helminga efnistökuna og vinna fellið eingöngu að vestanverðu svo það hverfi ekki alveg og að ásýndin haldist að einhverju leyti óbreytt frá Þrengslavegi. Í þessum valkosti felst að vinna 8 milljón rúmmetra í heildina.
Til að fyrirhuguð námuvinnsla geti farið fram þarf að vinna aðalskipulagsbreytingu. Ekkert deiliskipulag er heldur til fyrir svæðið en framkvæmdaaðili segir til standa að vinna slíkt í samráði við sveitarfélagið.
Eden Mining hefur lagt matsáætlun sína fram til Skipulagsstofnunar sem hluta af umhverfismati framkvæmdanna. Allir geta kynnt sér áætlunina og veitt umsögn. Þær skulu berast Skipulagsstofnun eigi síðar en 3. mars.