Er 1,1 milljón skammta af bóluefni gegn COVID-19 kom til Rúanda á laugardag komst fjöldi skammta sem afhentur hefur verið í gegnum samstarfsvettvanginn COVAX loks í milljarð. Landið er það eina í Afríku sem búið er að bólusetja 40 prósent íbúanna.
COVAX var sett á stofn fljótlega eftir að heimsfaraldurinn skall á og fjöldi þjóða skuldbatt sig til að gefa skammta eða kaupa skammta inn í samstarfið til að koma til fátækari ríkja heims. Skömmtum hefur nú verið útdeilt til 144 landa í gegnum COVAX.
Þetta er vissulega áfangi á þeirri vegferð að bólusetja allan heiminn, líkt og lagt var upp með er stofnað varð til bóluefnasamstarfsins. Hins vegar er enn gríðarleg gjá á milli efnameiri þjóða og þeirra fátækari þegar kemur að bólusetningum.
Í síðustu viku höfðu 36 aðildarþjóðir Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) ekki enn náð því takmarki að bólusetja tíu prósent íbúa sinna. Og 88 þjóðir höfðu ekki komist yfir 40 prósenta múrinn sem var hið upprunalega markmið sem átti að ná fyrir árslok 2021 í öllum þjóðum heims.
WHO segir markmiðið ekki hafa náðst þar sem ríkustu þjóðirnar hafi frá upphafi hamstrað bóluefni. Þá kennir stofnunin því einnig um að lyfjafyrirtækin hafi ekki viljað gefa eftir einkaleyfi sín og því ekki hægt að framleiða bóluefnin hvar sem er.
Þurftu að farga miklu magni
COVAX leggur áherslu á að um leið og bóluefni koma inn í samstarfið séu þau send af stað á leiðarenda. Það vill þó brenna við að skammtar sem eru við það að komast á síðasta notkunardag séu gefnir til fátækari ríkja. Í síðustu viku varð t.d. að farga 400 þúsund skömmtum af bóluefni frá Moderna og AstraZeneca í Úganda. Skammtana átti að nota í norðurhluta landsins þar sem bólusetningarhlutfall er enn gríðarlega lágt. En þegar bóluefnin komu voru innviðirnir ekki tilbúnir en hefja þurfti bólusetningu þar sem hluti skammtanna var að renna út.
Framkvæmdastjóri WHO sagði nýverið að nú virtist endirinn á faraldrinum vera í sjónmáli en ítrekaði að það myndi aðeins takast eftir að bólusetningar alls staðar nái ákveðnu hlutfalli.
Rétt tæp 60 prósent jarðarbúa hafa fengið að minnsta kosti einn bóluefnaskammt. Það hljómar mjög vel. En þegar hlutfallið er skoðað milli heimshluta blasir misréttið við. Aðeins 9,5 prósent af íbúum fátækustu landanna hafa fengið að minnsta kosti einn skammt.