„Ég mun læra stærðfræði, skrift og lestur,“ segir Leia lágróma og hallar sér feimnislega að föður sínum. Það hýrnar svo yfir henni er hún heldur áfram: „Ég læri að skrifa mamma, pabbi, bróðir og systir.“ Hún hefur sérstakan áhuga á því að skrifa „bróðir“. Hún á nefnilega von á systkini á næstu dögum og vonar heitt og innilega að hún eignist lítinn bróður.
Leia er sex ára. Og á morgun rennur upp einn stærsti dagur lífs hennar hingað til: Hún má mæta aftur í skólann. Hún er meðal þeirra 15 milljóna úganskra barna og unglinga sem ekki hafa komið inn í skólastofu síðan í mars árið 2020 er skólum landsins var lokað vegna faraldursins. Háskólar og framhaldsskólar hófu ekki aftur göngu sína fyrr en í nóvember síðastliðnum en grunnskólarnir hefjast loks aftur á morgun, 10. janúar. Þá hafa þeir verið lokaðir í 95 vikur og er það lengsta skólalokunin í heiminum.
Leia sveiflar sér brosmild á handriði við búr veitingastaðarins á hótelinu í Kololo-hverfi í Kampala, höfuðborg Úganda, þar sem pabbi hennar vinnur. Hún þurfti að koma með honum í vinnuna sem hefur reyndar ekki gerst oft í faraldrinum því hún hefur getað verið hjá frænku sinni á meðan foreldrarnir vinna. Hún hjálpar pabba í vinnunni og spjallar glaðlega við samstarfsmenn hans. Bráðum ætlar hún svo að hjálpa mömmu með litla barnið. Það er því margt spennandi framundan hjá Leiu.
Leia hafði verið í forskóla í þrjá mánuði er faraldurinn skall á og öllum skólum í landinu var lokað. Það var í mars árið 2020. Hún er ákaflega spennt að byrja aftur í skólanum og hlakkar mest til að hitta vini sína. En auðvitað líka að halda áfram að læra.
Faðir hennar segir að á meðan skólalokuninni hefur staðið hafi Leia fengið einkakennslu. Foreldrar hennar og nokkrir nágrannar þeirra tóku sig saman og réðu kennara sem kom reglulega til að kenna nokkrum börnum í einu. Þannig hefur Leia ekki alfarið farið á mis við menntun. Joshua segir marga aðra foreldra hafa gripið til sama ráðs en þó séu þeir líklega fleiri sem ekki hafi haft efni á því. „Það verður mjög gott fyrir hana að komast aftur í skólann,“ segir Joshua. Þá komist meiri rútína á lífið.
Fjarnám í gegnum tölvur eða snjallsíma er ekki boði fyrir langflest börn í Úganda. Þessi tæki eru einfaldlega ekki til á heimilunum. Til stóð að útvarpa kennslu því margir eiga jú útvarp, en þau áform, sem margir höfðu bundið vonir við, runnu út í sandinn.
Joshua telur að hin langa lokun skólanna hafi haft áhrif á börn í Úganda. „Margir foreldrar misstu vinnuna og höfðu engar tekjur. Þeir höfðu ekki efni á því að kaupa einkakennslu fyrir börnin sín. Það verður því erfiðara fyrir börnin að koma aftur í skólann, þau hafa misst úr tvö ár. Og fyrir eldri börnin er erfiðara að setjast aftur á skólabekk. Sum þeirra hafa þurft að vinna til að afla peninga fyrir heimilið og ef foreldrarnir eru ekki ennþá komnir með vinnu þá er mjög líklegt að mörg þeirra fari ekki aftur í skólann.“
Mikil fjölgun þunganna unglingsstúlkna
Þessi börn eru orðin vön því að vinna, bætir Joshua við. Þau hafa farið til vinnu í námum, á sykurplantekrum eða selja ýmsan varning á götunum og fólk í Úganda sem Kjarninn hefur rætt við segist hafa séð sífellt fleiri börn við þá iðju síðustu mánuði. Börn jafnvel niður í ellefu, tólf ára aldur.
Hin langa skólalokun hefur aðmati UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, skapað skuggafaraldur í Úganda. Ekki aðeins hafi börnin orðið af menntun heldur einnig nauðsynlegum skólamáltíðum og barnabólusetningum. Þá segir UNICEF ástandið hafa skapað aukna hættu á ofbeldi gagnvart börnum. „Fyrir sum börn hefur skólalokunin leitt til brottfalls úr námi, barnaþrælkunar og barnahjónabanda,“ sagði UNICEF í yfirlýsingu nýverið Margir hafi misst vinnuna í faraldrinum og fleiri búi nú við fátækt en áður. Fátækt bitni verst á börnunum.
Talið er að um þrjátíu prósent nemenda muni ekki mæta aftur í skóla af þessum sökum. Samkvæmt gögnum UNICEF hefur þungunum unglingsstúlkna fjölgað um 22,5 prósent síðan í mars árið 2020. Stúlkurnar eru allt niður í tíu ára gamlar.
Kennarasamband Úganda segir að lokun skólanna í svo langan tíma hafi gert „meiri skaða en gagn“. Þau hafa ítrekað bent á að betra hefði verið að halda kennslu áfram í skólunum með takmörkuðum hætti. Eftir að delta-bylgjan reis hæst í júlí og gripið var til allsherjar útgöngubanns og fleiri aðgerða um tíma greindust fá smit vikurnar og mánuðina á eftir. Þá, segja Kennarasamtökin, hefði átt að opna skólana, en ekki bíða með það í marga mánuði í viðbót.
Joshua segist hafa verið hlynntur lokun skólanna. Hann telur að þær hörðu aðgerðir sem gripið var til í Úganda í faraldrinum hafa bjargað mannslífum. „Það voru svo margir alvarlega veikir,“ útskýrir hann. Margir dóu. Sjálfur fékk hann COVID-19 á síðasta ári og eiginkona hans einnig. En foreldrar hans og aðrir eldri ættingjar hafa sloppið hingað til. „COVID hefur kennt mér nýjar leiðir til að fást við hlutina,“ segir hann fullur æðruleysis. Hann vann í byggingageiranum snemma í faraldrinum en missti þá vinnu. Hann hafi síðan fengið vinnu á hótelinu og telur sig sérlega heppinn.
Stærsta bylgja COVID hingað til reið yfir Úganda í sumar. Tilfellum er farið að fjölga hratt á ný en veikindi eru ekki jafn tíð og alvarleg þar sem afbrigðið ómíkron er komið til sögunnar. Fá sýni eru tekin daglega og enn færi raðgreind. Það er því ómögulegt að segja hver raunveruleg útbreiðsla COVID-19 hefur verið í landinu.
Bólusetningar hafa gengið mjög hægt í Úganda rétt eins og víðast hvar í hinni víðfeðmu Afríku. Skorti á bóluefnum er helst um að kenna en að auki hefur borið á andstöðu við bólusetningar. Enn hafa aðeins þrjú prósent íbúanna, sem telja í kringum 45 milljónir, fengið fulla bólusetningu, þ.e. tvær sprautur. Um 18 prósent Úgandamanna hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu og lang flestir hafa fengið bólusetningu sína á síðustu vikum. Áhersla hefur undanfarið verið lögð á að bólusetja ungmenni og kennara svo ekki þurfi að grípa til frekari lokunar skólanna.
Síðar í janúar mun Joshua fá sína bólusetningu. Hann er á þrítugsaldri og heilsuhraustur og því ekki í sérstökum áhættuhópi. „Mjög villandi upplýsingar um bólusetningar hafa verið á kreiki í Úganda,“ segir hann. En það telur hann smám saman vera að breytast. Sífellt fleiri hafi látið af andstöðu sinni, jafnvel þeir sem töluðu hæst gegn bólusetningum eru búnir að fá sínar sprautur eða ætla að þiggja þær.
„Ég ætla að láta bólusetja mig svo ég geti verið öruggur,“ segir hann.