Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, neitaði að lána Louvre safninu málverkið Salvator Mundi sem er í eigu krónprinsins en það er dýrasta málverk í heimi. Safnið falaðist eftir því að fá málverkið lánað á gríðarstóra sýningu á verkum Leonardos da Vinci sem haldin var á safninu árið 2019 á 500 ára ártíð listamannsins. Ástæða þess að krónprinsinn vildi ekki lána verkið var sú að stjórnendur safnsins vildu ekki samþykkja kröfurnar sem krónprinsinn setti fyrir láninu.
Krónprinsinn bað sérstaklega um að verkið yrði sýnt við hlið Monu Lisu á sýningunni og að það yrði merkt sem höfundarverk Leonardos en það er umdeilt hversu stóran hluta verksins er í raun og veru hægt að eigna Leonardo. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri heimildarmynd um verkið sem ber heitið The Savior for Sale en fjallað er um málið íThe Art Newspaper.
Málverkið var selt á uppboði uppboðshússins Christie’s í New York í nóvember árið 2017. Endanlegt kaupverð myndarinnar var 450 milljónir Bandaríkjadala, í kringum 47 milljarðar króna á gengi þess tíma. Þegar verk helstu meistara listasögunnar eru seld á uppboðum stóru uppboðshúsanna er alla jafna farið varlega í allar staðhæfingar um hver höfundur myndarinnar sé. Liggi ekki fyrir skotheld eigendasaga eða skrásetning á sögu verksins eru verk því gjarnan sögð hafa verið unnin á vinnustofu tiltekins listamanns eða af hendi fylgjanda listamannsins. Svo var ekki í tilviki Salvator Mundi – hún var seld sem mynd eftir Leonardo da Vinci.
Lán verksins rætt á leiðtogafundi Frakka og Sáda
Í kvikmyndinni The Savior for Sale er rætt við háttsettan embættismann sem starfar innan stjórnar Emmanuels Macron Frakklandsforseta. Embættismaðurinn, sem kemur fram undir dulnefninu Jacques, segir í myndinni að eftir ítarlegar rannsóknir sérfræðinga Louvre safnsins hafi komið í ljós að málverkið hafi að litlum hluta verið málað af Leonardo sjálfum.
Annar heimildarmaður, embættismaður úr menningarmálaráðuneyti Frakka sem gengur undir dulnefninu Pierre, gerir í myndinni grein fyrir hlutverk málverksins í flóknum milliríkjasamningum ríkjanna tveggja, Frakklands og Sádi-Arabíu. Viðræður um lán á verkinu fóru fram á sérstökum leiðtogafundi ríkjanna tveggja sem haldinn var í apríl árið 2018. Menningarmál voru ofarlega á baugi á leiðtogafundinum en þar var Al-Ula samningurinn undirritaður. Samningurinn felur í sér aðkomu Frakka að uppbyggingu Al-Ula héraðs með það að markmiði að festa héraðið í sessi sem menningarmiðju.
Tekið var á móti Mohammed með pompi og prakt í París enda voru miklir viðskiptahagsmunri Frakka tryggðir með samningnum. Að sögn Pierre voru frönsk stjórnvöld meðvituð um að það væri mikilvægt fyrir ímynd Mohammeds bin Salman að á hann væri litið sem mann sem væri að nútímavæða Sádi-Arabíu og „opna“ landið menningarlega.
Málað að litlum hluta af Leonardo
Heimildarmaðurinn Jacques segir málverkið hafa komið til Parísar í júní 2019 og þá hafi sérfræðingar Louvre safnsins hafið rannsókn á verkinu. Teknar voru röntgen myndir af málverkinu og aðalsýningarstjóri í málverkadeild Louvre safnsins kallaði inn sérfræðinga víðs vegar að úr heiminum til að skoða myndina. Öll rök hnigu að því að Leonardo hefði einungis málað lítinn hluta myndarinnar. Sú niðurstaða var svo kynnt fyrir Sádunum sem og hvaða þýðingu niðurstaðan myndi hafa á sýninguna. Það væri enda Louvre að ákveða í hvaða samhengi málverkið yrði sýnt.
Mohammad bin Salman var allt annað en sáttur með framvindu mála. Hann lagði í kjölfarið fram ósk sína sem áður hefur verið minnst á. Myndin skyldi sýnd við hliðina á Monu Lisu og hún merkt sem málverk eftir Leonardo. Við tóku strangar samningaviðræður og er það fullyrt í myndinni að ráðherrar bæði menningarmála og utanríkismála í Frakklandi hafi dregið taum krónprinsins og talað máli hans.
Sýning verksins líkt við peningaþvætti
Á þessum tímapunkti stóð undirbúningur fyrir sýninguna sem hæst. Sýningarskrá var sett saman í tveimur útgáfum, önnur útgáfan var gerð fyrir sýningu með Salvator Mundi og hin fyrir sýningu án verksins.
Það var sjálfur Frakklandsforseti sem sá um ákvörðunartöku í málinu og undir lok septembermánaðar kom lokasvar frá Elysée höll. Macron ætlaði ekki að verða við óskum krónprinsins. Þegar sýningin var opnuð 21. október 2019 var því engan Salvator Mundi þar að finna.
Heimildarmaðurinn Jacques segir í myndinni að trúverðugleiki safnsins hafi legið að veði og að ekki hefði verið hægt að sýna verkið á safninu og hunsa þar með niðurstöðu helstu sérfræðinga í málinu. Að hans mati var vilji utanríkisráðherra Frakka sem og menntamálaráðherra til að sýna verkið einungis tilkominn vegna viðskiptahagsmuna. Hefði safnið sýnt verkið á forsendum Sádanna þá væri það ekkert annað en þvætti á 450 milljón dala listaverki að mati Jacques.