Nefnd um eftirlit með lögreglu „vinnur að úrlausn“ atviks sem átti sér stað í apríl, þegar lögregla fylgdi í tvígang eftir ábendingu sem sneri að strokufanga sem lögregla leitaði að. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri taldi að málið hefði borist nefndinni strax í apríl en vegna misskilnings barst kvörtun vegna málsins ekki fyrr en 22. júní, tveimur mánuðum eftir að atvikin áttu sér stað.
Málið sem um ræðir snýr að störfum og verklagi lögreglu sem var að bregðast við ábendingum tengdum tvítugum karlmanni sem slapp úr haldi lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur í lok apríl. Í tvígang, á jafn mörgum dögum, brást lögregla við ábendingum þar sem reyndist svo ekki um að ræða strokufangann heldur sextán ára dreng. Drengurinn er dökkur á hörund líkt og strokufanginn og með svipaða hárgreiðslu.
Ríkislögreglustjóri taldi málið komið til eftirlitsnefndar í maí
Á fundinum greindi ríkislögreglustjóri einnig frá því að málið væri til skoðunar hjá nefnd um eftirlit með lögreglu. Svo reyndist ekki vera og lét fulltrúi nefndarinnar embætti ríkislögreglustjóra vita. Engin kvörtun hafði þá borist til nefndarinnar vegna málsins líkt og ríkislögreglustjóri taldi.
Á þessum tímapunkti, í lok maí, var nefndin enn að skoða hvort rétt væri að taka málið upp að eigin frumkvæði. Nefndin komst stuttu síðar að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til þess að svo stöddu. Svo virðist sem þeim skilaboðum hafi ekki verið komið til ríkislögreglustjóra, sem fullyrti í viðtali við Kjarnann í júní að málið væri til skoðunar hjá nefnd um eftirlit með lögreglu.
„Við erum ekki rétta fólkið til að meta okkur. Það er enginn þar. Málið er komið til nefndar um eftirlit með lögreglu sem mun leggja óháð mat á þetta mál og afskipti lögreglu,“ segir Sigríður Björk meðal annars í viðtalinu.
Nefndin taldi ekki ástæðu til að taka málið upp að eigin frumkvæði
Það sem ríkislögreglutjóri vissi ekki var að í lok maí komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væri rétt að taka málið upp að eigin frumkvæði. Engin kvörtun hafði borist og því var málið ekki tekið til umfjöllunar.
Eftir viðtal Kjarnans við ríkislögreglustjóra, sem birtist 18. júní, spurðist blaðamaður fyrir hjá nefndinni um hvenær von væri á niðurstöðu á óháðu mati nefndarinnar. Þá fengust þau svör að engin kvörtun hefði borist vegna málsins og það væri því ekki til meðferðar hjá nefndinni.
Fulltrúi nefndarinnar hafði í kjölfarið samband við embætti ríkislögreglustjóra. Nefnd um eftirlit með lögreglu ber ekki að upplýsa ríkislögreglustjóra um hvaða mál koma inn á borð til hennar og í þessu tilviki láðist embætti ríkislögreglstjóra að upplýsa nefndina um kvörtun vegna málsins og framsendi henni erindið þegar upp komst um það. Í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Kjarnans sagði að miskilnings hafi gætt meðal starfsmanna um að „málsaðili sjálfur ætlaði að leita til nefndarinnar, en það var ekki gert.“ Málið komst því ekki formlega á borð nefndarinnar fyrr en embætti ríkislögreglustjóra sendi nefndinni formlegt erindi í lok júní.
Liggur ekki fyrir hvenær vinnu nefndarinnar lýkur
Nokkurs misskilnings hefur því gætt í málinu en það komst loks á borð nefndarinnar 22. júní, rétt tæplega tveimur mánuðum eftir að atvikin áttu sér stað. Ríkislögreglustjóri hélt, í tvígang, að málið væri komið til nefndar um eftirlit með lögreglu, en svo reyndist ekki vera. Úr því var bætt og hefur málið verið hjá nefndinni í tæpa þrjá mánuði.
Unnið er að úrlausn málsins samkvæmt upplýsingum frá lögfræðingi hjá nefndinni en „ekki er hægt að gefa frekari upplýsingar um framvindu þess að svo stöddu.“ Ekki liggur fyrir hvenær vinnu nefndarinnar lýkur, upplýsinga- og gagnaöflun er enn í gangi.