Greiningardeild Arion banka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákveði að halda stýrivöxtum, eða meginvöxtum, óbreyttum næsta miðvikudag á vaxtaákvörðunardegi. Meginvextir eru nú 5,5 prósent og hækkuðu á síðasta vaxtaákvörðunardegi um 0,5 prósentustig.
Meginástæðan er sú að verðbólga er mun lægri en reiknað var með, og verðbólga hefur aukist hægar en reiknað var með í ágústhefti Peningamála. Eins og grein var frá í morgun, þegar nýjar tölur Hagstofu Íslands voru birtar, mælist verðbólga á ársgrundvelli nú 1,9 prósent, og hefur haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði tuttugu mánuði í röð.
Í greiningu Arion banka kemur fram að upplýsingar seðlabankans sýni gríðarlega skarpa og mikla aukningu í útlánum á síðsumarmánuðum, en ekki er ólíklegt að tölurnar taki mið af verkfalli ríkisstarfsmanna, þar á meðal sérfræðinga hjá sýslumannsembættum, sem gerði það að verkum að þinglýsingar lágu niðri um nokkurra mánaða skeið.
Síðastliðin ár hafa ný útlán numið um 4 til 8 milljörðum króna á mánuði en í júlí og ágúst virðist sem útlánahraðinn hafi hátt í þrefaldast en í júlí námu útlánin 15,5 milljörðum króna og 19,2 milljörðum króna í ágúst.
Mynd: Arion banki.