Flensutíðin hófst snemma í Evrópu þennan veturinn og að auki hafa kórónuveiran og RS-veiran verið áberandi. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin varar við miklum veikindavetri framundan. Hún brýnir fyrir heilbrigðisyfirvöldum hvers lands að láta bólusetja viðkvæma hópa fyrir bæði inflúensu og COVID-19.
Vegna þess að veikindi af ýmsum toga eru útbreidd telur WHO ástæðu til að vara við því að álag á heilbrigðiskerfi verði mikið á komandi vikum og mánuðum. Greiningum og innlögnum vegna öndunarfærasýkinga hefur fjölgað töluvert hér á landi á síðustu vikum.
Tvær týpur af inflúensuveirunni eru á kreiki í Evrópu: A og B. Sýkingar af báðum afbrigðum hafa verið áberandi meðal barna og allt frá því í október hefur orðið aukning í innlögnum á sjúkrahús vegna inflúensunnar meðal eldra fólks. Inflúensa getur valdið alvarlegum veikindum hjá þeim sem eldri eru sem og hjá fólki sem er með króníska öndunarfærasjúkdóma.
Í dæmigerðu árferði smitast um 5-15 prósent af mannfjöldanum af inflúensu. Um 3-5 milljónir manna veikjast alvarlega og dauðsföll á heimsvísu eru um 650 þúsund í meðalári. Um 70 þúsund þessara dauðsfalla verða í Evrópu.
Sýkingum af RS-veirunni hefur einnig fjölgað fra því í október og í tuttugu Evrópuríkjum er veruleg aukning á smitum.
Fleiri að greinast og leggjast inn
Líkt og víðar í Evrópu var inflúensan töluvert fyrr á ferðinni hér á landi en venjulega. Einnig eru margir að greinast með aðrar öndunarfæraveirur. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala hefur orðið aukning milli ára á sýnatöku vegna öndunarfærasýkinga sem getur að einhverju leyti útskýrt fjölda greininga. „Hins vegar er ljóst að klínískar greiningar eru algengari en vant er á þessum árstíma og innlagnir hafa aukist,“ segir ennfremur í upplýsingum spítalans.
Í síðustu viku nóvembermánaðar jókst fjöldi þeirra sem þurftu innlögn á Landspítala vegna COVID-19, inflúensu og RSV (RS-vírus) milli vikna. 52 einstaklingar voru lagðir inn á Landspítala vegna þessara sjúkdóma þá viku. Flestir vegna COVID-19 eða 29 einstaklingar, 14 vegna inflúensu og níu vegna RSV. Innlagnir eru algengastar í elstu aldurshópunum vegna COVID-19 og inflúensu en í yngstu aldurshópunum vegna RSV. Tveir sjúklingar voru inniliggjandi á sjúkrahúsinu á Akureyri með COVID-19.
Í umræddri viku var Respiratory Syncytial veirusýking (RSV) staðfest hjá samtals 26 einstaklingum og er það sami fjöldi og greindist vikuna áður. Flestar greiningar voru hjá börnum á aldrinum 0-2 ára eða samtals 19. Einnig var mikið um greiningar á öðrum öndunarfæraveirum s.s. Rhinoveiru, Adenoveiru, Enteroveiru, Parainflúensu, kórónuveirum öðrum er SARS-CoV-2 og Human Metapneumóveiru (hMPV).
Mikil útbreiðsla COVID-19 í samfélaginu
Samtals 199 einstaklingar greindust með COVID-19 hér á landi í síðustu viku nóvember sem er svipaður fjöldi og undanfarnar vikur. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna var 29 prósent sem gefur til kynna, samkvæmt upplýsingum Landspítalans, mikla dreifingu í samfélaginu. Ef hlutfall jákvæðra sýna er yfir 5 prósent er almennt talið að dreifing í samfélagi sé meiri en sýnataka gefur til kynna. Áfram greinast flestir með Omicron BA.5 afbrigðið og undirafbrigði þess.
41 einstaklingur greindist með staðfesta inflúensu hér á landi í þessari sömu viku sem er aukning milli vikna. Sjö voru á aldrinum 0-4 ára, tveir á aldrinum 5-15 ára, 19 á aldrinum 16-64 ára og 13 voru 65 ára og eldri. Fjöldi með inflúensulík einkenni, sem eru klínískar greiningar skráðar í sjúkraskrá, jókst einnig milli vikna úr 23 í 39.
WHO segir mjög mikilvægt að heilbrigðisyfirvöld séu áfram á varðbergi gagnvart COVID-19 en einnig bæði tilfellum inflúensu og sýkinga af RS-veirunni. „Þörfin fyrir að vernda heilsu fólks, sérstaklega viðkvæmra hópa, er rík nú sem aldrei fyrr.“
Stofnunin ítrekar ennfremur tilmæli um að gæta að persónulegum smitvörnum. Að halda sig til hlés í veikindum, handhreinsun, grímunotkun á heilbrigðisstofnunum þ.m.t. biðstofum, að forðast umgengni við ungbörn, sérstaklega nýbura, og aðra í áhættuhópum meðan einkenni eru til staðar, getur dregið úr smiti til annarra og þar með alvarlegum veikindum meðal áhættuhópa. „Aðeins með því að vera vel undirbúin, á varðbergi og halda áfram þeim aðgerðum sem við vitum að virka, getum við komist yfir áskoranir þessa vetrar.“