Lestur Morgunblaðsins, stærsta áskriftarblaðs landsins, mældist 19,9 prósent í síðasta mánuði. Það er í fyrsta sinn sem heildarlestur þessa 107 ára gamla blaðs mælist undir fimmtungi í lestrarkönnunum Gallup. Vorið 2009, þegar nýir eigendur komu að Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, var lestur þess yfir 40 prósent.
Hjá landsmönnum á aldrinum 18 til 49 ára mælist lestur blaðsins nú tíu prósent en í byrjun árs 2009 lásu um þriðjungur landsmanna í þeim aldurshópi blaðið.
Þetta má lesa út úr nýjum tölum Gallup um lestur prentmiðla sem birtar voru í dag.
Þessi þróun, hríðminnkandi lestur, hefur átt sér stað þrátt fyrir að Morgunblaðið hafi síðastliðin ár verið fríblað á fimmtudögum. Í því felst að blað er í aldreifingu þá daga og fer inn á heimili tugþúsunda sem eru ekki áskrifendur. Almenn áskrift að Morgunblaðinu kostar í dag 7.982 krónur á mánuði, eða 95.784 krónur á ári.
Enn fækkar lesendur Fréttablaðsins
Fréttablaðið, fríblað sem dreift er í 85 þúsund eintökum án endurgjalds á heimili á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri fimm daga vikunnar, hefur aldrei verið minna lesið en í síðasta mánuði.
Alls sögðust 32,1 prósent landsmanna lesa Fréttablaðið og dróst lesturinn saman um 0,5 prósentustig á milli mánaða. Lesturinn hefur dregist saman um 15 prósent á einu ári og helmingast á rúmum áratug, en í apríl 2010 lásu 64 prósent landsmanna Fréttablaðið. Hjá Íslendingum undir fimmtugu mælist lestur Fréttablaðsins 23 prósent, og hefur dregist sama um 64 prósent frá vorinu 2010.
Heildarlestur Fréttablaðsins fór undir 60 prósent í apríl 2012, undir 50 prósent í nóvember 2015 og undir 40 prósent í ágúst 2018. Ef lestur blaðsins heldur áfram að falla á sama hátt og hann hefur gert undanfarið hálft ár, um hálft prósentustig á mánuði, fer lestur Fréttablaðsins undir 30 prósent í haust.
Fréttablaðið er í eigu Torgs sem rekur einnig miðla á borð við Hringbraut og DV. Helgi Magnússon athafnamaður keypti Torg árið 2019. Tap Torgs á árinu 2019 var 212 milljónir króna.
Síðasta mæling DV
Tvö vikublöð hafa verið í mælingum Gallup undanfarin misseri, DV og Viðskiptablaðið. Alls sögðust 3,5 prósent landsmanna lesa DV í síðasta mánuði. Það er minnsti lestur á því blaði frá upphafi. Í aldurshópnum 18 til 49 ára náði lesturinn botni í febrúar þegar tvö prósent landsmanna undir fimmtugu lásu DV.
Þann 6. apríl síðastliðinn var tilkynnt að ákveðið hefði verið að hætta útgáfu DV á prenti, að minnsta kosti um sinn. Helsta ástæða þess var sögð yfirstandandi heimsfaraldur sem hafi „gert auglýsingasölu erfiða og hamlað útgáfu með ýmsum hætti.“
Viðskiptablaðið kemur út á fimmtudögum og er selt í áskrift. Alls lesa 4,3 prósent landsmanna það blað og hjá aldurshópnum 18 til 49 ára mælist lesturinn 2,9 prósent. Það er í fyrsta sinn sem lestur Viðskiptablaðsins fer undir þrjú prósent hjá fullorðnum lesendum undir fimmtugu.
Vert er að taka fram að allir þeir prentmiðlar sem nefndir eru í þessari umfjöllun reka fréttavefsíður. Síða Morgunblaðsins, mbl.is, er nú, og hefur oftast verið, mest lesna vefsíða landsins, þótt helsti samkeppnisaðili hennar, Vísir, hafi oftar verið í fyrsta sæti á þeim lista undanfarnar vikur. Vefsvæði DV, dv.is og tengdir vefir, er þriðja mest lesna vefsvæði landsins og vefsvæði Fréttablaðsins, sem inniheldur líka vef Hringbrautar, er það fimmta mest lesna. Viðskiptablaðsvefurinn situr í áttunda sæti á lista Gallup en vert er að taka fram að einungis þrettán vefsvæði taka þátt í vefmælingum fyrirtækisins. Á meðal fjölmiðla sem gera það ekki eru Kjarninn og Stundin.