Samtök ferðaþjónustunnar, SAF, „mótmæla því harðlega“ að Skrokkölduvirkjun sé sett í nýtingarflokk þriðja áfanga rammaáætlunar líkt og þingsályktunartillaga, sem mælt hefur verið fyrir á Alþingi, gerir ráð fyrir. „Þessi virkjanakostur ætti að vera í verndarflokki enda við jaðar stærsta þjóðgarðs Evrópu og ferðamenn geta í dag notið víðernis á stórum hluta þessa svæðis. Þó svo að áhrif þessarar virkjunar séu mun minni en af Hágönguvirkjunum þá er hún fyrirhuguð á svæði sem alls ekki ætti að raska,“ skrifa samtökin í umsögn sinni um þingsályktunartillöguna.
Einnig lýsa þau yfir áhyggjum yfir að Austurengjar við Krýsuvík og Þverárdalur á Hellisheiði séu flokkuð í nýtingarflokk og fara fram á að beðið sé með framkvæmdir á þessum svæðum.
Samtökin lýsa hins vegar mikilli ánægju með þau svæði sem flokkuð eru í vernd samkvæmt tillögunni „Vatnasvæði Héraðsvatna og þar með jökulárnar í Skagafirði eru mjög mikilvæg fyrir ferðaþjónustu í Skagafirði og eru möguleikar flúðasiglinga ein helsta undirstaða ferðaþjónustu svæðisins,“ skrifa samtökin í umsögn sinni.
Þá benda þau á að við Skjálfandafljót eru margir mikilvægustu ferðamannastaðir og ferðaleiðir á norðurhálendinu, þar eru forsendur til frekari dreifingar ferðamanna og aukinnar starfsemi. Einnig sé Skaftá og vatnasvæði hennar mikilvægt fyrir ört vaxandi ferðamennsku og þjónustu henni tengdri á stóru svæði á Suðurlandi.
Samtökin segja mikilvægt fyrir ímynd landsins að Þjórsárver séu óraskað svæði og segja náttúru vestursvæða Þjórsár mikilvæga. Svæðið þoli ekki mikla ferðamennsku og sú ferðamennska sem þar á sér stað verði að vera takmörkuð. „Virða verður á allan hátt hina viðkvæmu náttúru svæðisins.“ Einn virkjanakostur ofarlega í Þjórsá, Kjalölduveita, er í verndarflokki tillögunnar.
Að mati Samtaka ferðaþjónustunnar er það „engan veginn ásættanlegt“ að Búðartunguvirkjun, rétt ofan við Gullfoss, verði að veruleika. Kosturinn er sem stendur í biðflokki tillögu að rammaáætlun. Öll röskun í og við þennan mikilvæga ferðamannastað sé „með öllu óásættanleg“.
Þá vilja samtökin ítreka að Torfajökulssvæðið verði fært í verndarflokk. Grashagi og Sandfell liggi í nágrenni við vinsælustu og mest sóttu gönguleið landsins, Laugaveginn, sem heilli bæði innlenda og erlenda göngugarpa. „Öll óæskileg sjónmengun hefur áhrif á upplifun ferðamanna af svæðinu og því augljóst að öll uppbygging á orkumannvirkjum myndi hafa neikvæð áhrif á náttúruupplifun þeirra gesta sem sækja svæðið heim.“
Samtök ferðaþjónustunnar minna í umsögn sinni á að ákvarðanir um að taka ný svæði til orkunýtingar þurfi að vera mjög vel ígrundaðar. „Vinna þarf markvisst að verndun og skynsamlegri nýtingu þeirrar auðlindar sem náttúra Íslands er, bæði í nútíð og langri framtíð,“ segir í umsögninni og ítreka samtökin að horfa verði á náttúruauðlindina á mun víðari grunni en gert hefur verið hingað til og stefna þannig að því að ná saman skipulagi sem horfi til langtímamarkmiða við nýtingu og verndun íslenskrar náttúru.“
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu að þriðja áfanga rammaáætlunar í byrjun febrúar. Hann er fjórði umhverfisráðherrann sem leggur nákvæmlega sömu tillögu fyrir þingið á rúmlega fimm árum. Tíð stjórnarskipti urðu fyrstu árin til þess að ekki náðist að afgreiða tillöguna. Guðmundur Ingi Guðbrandsson mælti einnig fyrir tillögunni er hann gegndi embætti umhverfisráðherra en hún hlaut sömu örlög og árin á undan.
Núgildandi rammaáætlun er orðin níu ára gömul.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að finna loforð um að lokið verði við þriðja áfangann. Því er hins vegar bætt við í sömu setningu að fjölga eigi kostum í biðflokki.
Þetta hefur orðið til þess að hagsmunaaðilar hafa ýtt á að ákveðnir kostir sem eru í verndarflokki verði færðir í biðflokk. Það gerði t.d. meirihluti byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem vill að virkjanir í Héraðsvötnum (Jökulsá austari og vestari) fari í biðflokk. HS orka vill að Búlandsvirkjun verði færð úr verndarflokki.