Mikil óvissa ríkir nú um fyrirhuguð kaup bandaríska auðkýfingsins Elon Musk á samfélagsmiðlinum Twitter. Fyrr í vikunni sakaði hann Twitter um að standa í vegi fyrir því að hann fái upplýsingar um hversu hátt hlutfall notenda miðilsins eru gervimenni (e. bots). Í bréfi sem lögmenn Musks sendu Twitter og birt var á vef bandaríska fjármálaeftirlitsins SEC segir að þessi skortur á upplýsingagjöf feli í sér brot á samkomulagi um kauptilboð Musks sem stjórn Twitter samþykkti í apríl. Þar af leiðandi geti hann dregið sig út úr samkomulaginu, dregið kauptilboðið til baka og hætt við allt saman.
Um miðjan maí sendi Musk frá sér tíst þar sem hann greindi frá því að kaup hans á samfélagsmiðlinum hefðu verið sett á ís. Í tístinu sagði hann ástæðuna vera þá að hann væri að bíða eftir gögnum sem gætu rökstutt fullyrðingar Twitter um að hlutfall gervimenna á samfélagsmiðlinum væri innan við fimm prósent. Í umfjöllun New York Times segir að með áðurnefndu bréfi sem lögmenn Musks sendu Twitter á mánudag hafi í fyrsta sinn birst með formlegum hætti vilji Musks til þess að draga sig úr kaupunum.
„Þetta er eitthvað sem hluthafar Twitter hafa verið að búa sig undir síðustu vikurnar, augnablikið þegar handahófskenndar vangaveltur Musks sem hann hefur birt í tístum eru slípaðar niður í texta sem sendur er í formlegu bréfi,“ segir Susannah Streete í samtali við New York Times en hún er sérfræðingur í fjárfestingum og verðbréfamörkuðum hjá Hagreaves Lansdown. Hún segir það hafa verið vitað frá upphafi að yfirtaka Musks myndi ekki ganga þrautalaust fyrir sig.
Markaðsaðstæður gætu hafa dregið úr vilja Musks
Samkvæmt upplýsingum frá Twitter er salan aftur á móti á réttri leið. „Við ætlum að ljúka þessum viðskiptum samkvæmt kaupsamningnum á fyrir fram gefnu verði og samkvæmt þeim skilmálum sem um var rætt,“ segir talskona Twitter í samtali við New York Times og bætir því við að fyrirtækið muni halda áfram að deila nauðsynlegum upplýsingum með Elon Musk svo að kaupunum geti orðið.
Fyrirtækið hefur skipst á upplýsingum við Musk í um það bil mánuð án vandkvæða en samkvæmt ónafngreindum heilmidarmönnum New York Times hafa fyrri yfirlýsingar Musks um að hann ætli sér að stofna annan samfélagsmiðil vakið upp efasemdir innan herbúða Twitter um það hvaða upplýsingar hægt sé að veita Musk.
Frá því að yfirtökutilboð Musks var samþykkt hefur hlutabréfaverð í heiminum fallið nokkuð. Það á einnig við um verð á bréfum í Twitter sem og í Tesla en stærsti hluti auðæfa Musks er bundinn í bréfum bílaframleiðandans. Greinendur vestanhafs hafa velt því fyrir sér Musk sjái mögulega eftir því að hafa sent inn kauptilboð í samfélagsmiðilinn, sökum aðstæðna á mörkuðum, og hvort það valdi því að hann sé jafn duglegur að lýsa efasemdum sínum um kaupin opinberlega og raun ber vitni. Hlutabréfaverð Twitter er nú um 40 Bandaríkjadalir á hvert bréf í fyrirtækinu en kauptilboð Musks hljóðaði upp á 54.2 dali fyrir hvert bréf. Musk hét því þar af leiðandi að greiða samtals 44 milljarða dala fyrir samfélagsmiðillinn, eða um 5.710 milljarða íslenskra króna.
Fjöldi gervimenna hafi ekki átt að koma Musk á óvart
Fáir notendur Twitter njóta viðlíka vinsælda og Elon Musk, fylgjendur hans á samfélagsmiðlinum telja nú um stundir rúmlega 97 milljónir. Ef til vill má rekja ástæðuna fyrir vinsældum hans á miðlunum að einhverju leyti til þess hversu virkur hann er. Hann tístir mjög reglulega og er alls ekki feiminn við að blanda sér í umræður á samfélagsmiðlunum með öðrum notendum.
Á meðal þeirra sem fylgja Musk og blanda sér í umræðurnar eru þó notendur sem sigla undir fölsku flaggi. Í umfjöllun Wall Street Journal segir til að mynda að virkni Musks á samfélagsmiðlinum virki sem segull á notendur sem sem leitast eftir því að dreifa upplýsingum sem ekki eru sannar og réttar. Slíkir notendur, bæði gervimenni og notendur af holdi og blóði, dragast einmitt að Musk vegna þess hve duglegur hann er að eiga í samskiptum við fólk á miðlinum. Aðrar stórstjörnur á borð við Barack Obama, Justin Bieber og Rihönnu tísta ekki jafn oft og senda svör til annarra notenda á samfélagsmiðlunum nánast aldrei.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að það hefði ekki átt að koma Musk á óvart að mörg gervimenni mætti finna á Twitter, enda hafi Musk kvartað yfir þeim svo árum skiptir. Í grein miðilsins er einnig vísað í greiningu á fylgjendum Musks á samfélagsmiðlinum sem eru sagðir vera að uppistöðu til gervimenni eða óvirkir aðgangar – eða um 70 prósent. Til samanburðar sé meðaltalið í fylgjendahópum þeirra sem hafa á bilinu 65 og 120 milljón fylgjendur á Twitter um 41 prósent.
Twitter telur gervimennin vera um 5 prósent af notendum
Hvort Elon Musk ætli sér að reyna að þrýsta kaupverðinu niður eða að falla algjörlega frá kaupunum liggur ekki alveg ljóst fyrir. Greinendur vita í það minnsta ekki alveg hvað vakir fyrir Musk og hvers vegna lögfræðingar hans sendu Twitter áðurnefnt bréf.
Frá Twitter koma þær upplýsingar að fyrirtækið vinni hart að því að uppræta gervimenni á samfélagsmiðlinum og í viku hverri séu milljónir slíkra notenda gerðir óvirkir. Það er mat fyrirtækisins að innan við fimm prósent af þeim notendum sem skrá sig inn daglega séu gervimenni en fjöldi virkra notenda á miðlinum stendur í um 229 milljónum.