Ítölsk stjórnvöld hafa ákveðið að skylda fólk sem ætlar að sækja ýmsa verslun og þjónustu til að sýna fram á bólusetningu eða nýlega niðurstöðu úr COVID-prófi með sérstökum kórónuveirupassa.
Frá og með 6. ágúst verður fólk að framvísa slíkum passa við inngöngu á íþróttaleikvanga, í söfn, kvikmynda- og leikhús, sundlaugar og líkamsræktarstöðvar, svo dæmi séu tekin, auk þess sem fólk verður að framvísa passanum ætli það sér að borða innandyra á veitingahúsi.
Passinn, sem verður stafrænn, er hluti af evrópska bólusetningarvottorðinu og heldur þar af leiðandi utan um upplýsingar um skimanir og bólusetningar. Þar má nálgast QR kóða sem þarf víða að framvísa. Allir sem hafa fengið í það minnsta einn skammt af bóluefni eða hafa nýlega náð sér af COVID-19 geta fengið passann. Aðrir munu þurfa að fara í skimun til að ná sér í passann. Frá upphafi mánaðar hefur evrópska bólusetningarvottorðið verið notað vegna ferðalaga fólks innan álfunnar en stjórnvöld hafa í auknum mæli skyldað fólk til sýna fram á passann til að sækja sér hina ýmsu þjónustu.
Sigur á EM gæti hafa fjölgað smitum
Fram kemur í umfjöllun The Guardian að Mario Draghi forsætisráðherra Ítalíu hafi sagt á blaðamannafundi í vikunni að nú þyrfti að grípa hratt til aðgerða þar sem smitum í landinu væri farið að fjölga á ný. Efnahag landsins hefði farið batnandi samhliða auknum bólusetningum sem hefðu haldið útbreiðslu veirunnar í skefjum. Blikur væur hins vegar á lofti vegna Delta afbrigðis kórónuveirunnar enda dreifðist hún hraðar en önnur afbrigði og hvatti Draghi alla til að fara í sem fyrst í bólusetningu. „Ef ekki væri fyrir bólusetningar þá þyrftum við að loka öllu aftur,“ sagði hann.
Talið er að fögnuður í kjölfar sigurs ítalska landsliðsins á Evrópumóti karla í fótbolta eigi sinn þátt í fjölgun smita. Töluverð fjölgun smita hefur átt sér stað á undanförnum vikum og þá einna helst í Róm en fjöldi greindra smita innan hvers dags hefur fimmfaldast á síðustu tveimur vikum þar í borg.
Rúmlega helmingur Ítala er fullbólusettur en verulega hefur hægst á bólusetningum að undanförnu. Það er talið stafa af tvennu, ungt fólk hefur frestað því að fara í bólusetningu þangað til eftir sumarfrí og svo eru aðrir sem ætla einfaldlega ekki í bólusetningu.
Víðar þarf að sýna passa
Í vikunni var sambærilegur passi innleiddur í Frakklandi. Bólusetningarvottorð eða neikvæð niðurstaða úr skimun sem er ekki eldri en 48 klukkustunda gömul þarf til þess að sækja hina ýmsu þjónustu eða menningu á stöðum sem geta tekið við fleiri en 50 gestum í Frakklandi.
Í Danmörku hefur slíkur passi verið í gildi síðan í byrjun þessa mánaðar. Fólk þarf að sýna passann ætli það sér að heimsækja söfn, kvikmynda- og leikhús, dýragarða og aðra samkomustaði. Þá er gerð krafa um framvísun slíks passa á veitingahúsum og börum. Kröfurnar sem gerðar eru í Danmörku eru þó ekki jafn stífar og á Ítalíu og Í Frakklandi. Passinn er gefinn út til þeirra sem hafa fengið bólusetningu eða geta sýnt fram á fyrra smit. Annars þarf fólk að geta sýnt fram á neikvæða niðurstöðu úr PCR prófi sem er ekki eldri en 96 klukkustunda gamalt eða neikvæða niðurstöðu úr hraðaprófi sem er ekki eldri en 72 klukkustunda gamalt.